Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 17:54:58 (3286)

1999-12-17 17:54:58# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þann heiður sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sýnir mér með því að leggja fyrir spurningar. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að hér er til umræðu á lokastigi frv. til laga um fjarskipti, sem er almennt um fjarskipti, í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á þeim markaði, einkum tæknilega, og ég hygg að sé nokkuð mikil sátt um grundvallaratriðin í því eins og fram kom m.a. í störfum hv. samgn. að þessu. Það snýst sem sagt um fjarskipti almennt en hefur í rauninni ekkert með eignarhald á Landssíma Íslands hf. að gera. Ef til þess kemur að selt verði þá kemur það sem sérstakt mál til kasta Alþingis. Um þetta var m.a. fjallað í 1. umr. þegar hæstv. ráðherra kynnti málið og umræðum sem fylgdu þar í kjölfarið.

Ég leyfi mér líka að vísa til þess sem segir í stjórnarsáttmálanum og þar kemur skýrt fram að þar eru ríkisstjórnarflokkarnir sammála um að hefja undirbúning að sölu en fastar er ekki kveðið að orði. Ég vona að ég hafi með þessu svarað spurningum hv. þm.