Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 18:13:48 (3294)

1999-12-17 18:13:48# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að hv. þm. víki sér undan því og falli frá frekari umræðu um 20. gr. sem hefur yfirskriftina ,,Aðgangur að heimtaug``. Um það skyldi það nú fjalla? (LB: Lestu greinina.) Skyldi hún fjalla um að það sé ekki aðgangur að heimtaug? Það væri gaman að fá skilgreiningu á því. Það væri þá væntanlega hugsanlegur aðgangur að heimtaug ef það væri einhver vafi. En yfirskrift greinarinnar og síðan er hún skýrð, hvort tveggja er skýrt að mínu mati í greininni og greinargerðin fjallar að sjálfsögðu um þetta. (LB: Og greinargerðin gengur framar orðum laganna?) Við skulum leyfa lögfræðingunum að spreyta sig á því. Þeir voru nokkrir sem ... (LB: Af hverju ... ekki orð greinargerðarinnar?)

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. um að ...)

Nokkrir lögfræðingar komu að samningu þessa frv. þannig að ég held að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Hins vegar er gegnumgangandi málflutningur hv. þm. að allt sem kemur frá Samkeppnisstofnun skuli vera algilt og óskeikult þannig að hv. þm. tók þetta upp í nál. sínu sem kom fram í athugasemdum Samkeppnisstofnunar en ekki var talin ástæða til þess að taka athugasemdir Samkeppnisstofnunar að þessu leyti til greina eða það orðalag sem Samkeppnisstofnun lagði til í samgn. vegna þess að menn töldu að þetta væri fullnægjandi og það finnst mér aðalatriði málsins.

Ég ætla hins vegar að vara hv. þm. við því að standa í ræðustóli og úrskurða um kostnað við heimtaugar eða rekstur símakerfisins. Það er ekki hlutverk okkar. Það er svo flókið mál að ég held að við eigum að leyfa Póst- og fjarskiptastofnun að vinna það verk og fara ofan í þá reikninga sem símafyrirtækin leggja fyrir þegar þau gera grein fyrir kostnaði við viðkomandi.