Fjarskipti

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 18:18:42 (3296)

1999-12-17 18:18:42# 125. lþ. 48.16 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[18:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem ég tel að liggi fyrir núna eftir síðasta sprettinn í þessari umræðu er allathyglisverð staða í málinu og á þá ég við m.a. það sem kom fram í svörum við spurningum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem réttilega dró athygli að því að lítið hefur farið fyrir öðrum stjórnarflokknum í umræðunni, Framsfl. Reyndar er það svo, herra forseti, að manni finnst á stundum að sá flokkur sé alveg gufaður upp og týndur. Umræður um stórmál fara fram dögum saman og Framsfl. sést bara ekki eins og búið sé að sökkva honum. (Gripið fram í: Á Eyjabökkum.) Já. En það tókst þó að lokum að særa einn framsóknarmann upp í umræðunni. Hv. þm. Jóhanni Ársælssyni tókst það og það var vel og vasklega gert og þá kom í raun fram að talsvert misræmi virðist vera milli þess hvernig stjórnarflokkarnir túlka stjórnarsáttmálann í þessu sambandi.

Hæstv. samgrh. hefur gengið býsna langt í því, bæði í umræðum hér, kannski ekki sérstaklega í þeim, heldur ef ég man rétt í umræðum í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu, að hann líti á það sem brýnt verkefni sem eigi að ganga í að selja símann. Ég minnist þess að hæstv. fyrrv. samgrh. tók miklum sinnaskiptum á skömmum tíma frá því að standa í þessum ræðustóli og hafa uppi svardaga um að alls ekki stæði til að selja símann á næstunni. Til marks um það yrði gefið út eitt hlutabréf og eins og allir menn sæju væri ekki hægt að rífa það í sundur og selja úr því einhverja parta. Það yrði sem sagt ekki gert.

Síðan gerðist það að þegar hæstv. fyrrv. samgrh., Halldór Blöndal, var búinn að koma þessu í gegnum þingið tók hann fljótlega sinnaskiptum og fór að tala um nauðsyn þess að selja símann. Nú hefur eftir stjórnarskipti nýr maður, núv. hæstv. samgrh., hv. 1. þm. Vesturl., fjallað um þetta á svipaðan hátt. Þetta stendur í stjórnarsáttmálanum en að vísu með orðalagi sem strax gefur tilefni til að spyrja: Er þetta, þ.e. að selja símann, svona erfið fæðing í samstarfi stjórnarflokkanna? (Gripið fram í.) Jú, það stendur að undirbúa eigi sölu á símanum.

Hér sagði hæstv. samgrh. hins vegar að til lítils væri að undirbúa sölu á símanum ef ekki ætti að selja hann. Það er auðvitað alveg hárrétt. Til hvers er verið að leggja vinnu í það, baksa við það, setja í það peninga, fyrirhöfn og allt það og senda þá misvísandi skilaboð til þjóðfélagsins ef menn ætla ekki að selja hann? Það hefur ekkert upp á sig. Það er alveg laukrétt hjá hæstv. samgrh.

En það kom allt önnur túlkun fram á þessu hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni. Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði um þetta eins og könnun, eins og úttekt.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. um að ljúka fundi sínum.)

Við gætum líka farið að ljúka þessum fundi, herra forseti. Það má kannski leysa málið þannig. Það er alveg rétt hjá forseta að það er óþægilegt að hafa tvo fundi í gangi í þingsalnum í einu en það má alveg eins fresta þessum fundi mín vegna og leyfa hinum að halda áfram.

Herra forseti. Ég var að koma að því hvernig hv. þm. Hjálmar Árnason túlkaði þessi orð stjórnarsáttmálans og stöðu þessa máls. Hv. þm. sagði: Það þýðir ekki að búið sé að taka neina ákvörðun um að selja símann. Nei, nei, nei. Það á að skoða kosti og galla við það mál. Þessu var lýst eins og hlutlausri úttekt af hálfu hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Hvort er nú rétt? Er þetta markviss undirbúningur undir sölu og með þá pólitísku ákvörðun að baki að selt verði? Eða er þetta einhvers konar úttekt, herra forseti, hlutlæg könnun á því hvort breyta eigi eignarhaldi á Landssímanum eða ekki? Mér finnst, herra forseti, mjög sérkennilegt ef menn ætla að skilja við þetta mál algerlega í lausu lofti hvað þetta varðar. Ég fer eiginlega fram á að þessari umræðu verði frestað þangað til stjórnarflokkarnir koma sér saman um hvað þetta orðalag í stjórnarsáttmálanum þýðir og hvernig beri að túlka það.

Framsfl. er þarna greinilega í allmiklum vanda. Ég tel að það sé rétt að það hafi verið dregið fram og er að reyna að leita sér lands í einhverri allt annarri og miklu opnari túlkun á orðalagi stjórnarsáttmálans og stöðu þessa máls heldur en hæstv. samgrh. hefur uppi. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að fá í þetta hreinar og skýrar línur. Það er ekki nóg, herra forseti, að menn skjóti sér á bak við það að segja: Já, en málið kemur fyrir Alþingi. Það verður ekki selt nema málið komi fyrir Alþingi. Þess vegna geti þingmenn bara hallað sér aftur á bak og andað rólega. Ég læt mér það ekki nægja, herra forseti. Ég vil fá frá hæstv. samgrh. og helst frá forustumönnum beggja stjórnarflokkanna skýrari svör vegna þess að ljóst er að menn gætu komið með málið þannig búið til Alþingis að þingið stæði frammi fyrir gerðum hlut. Annað eins hefur gerst, því miður. Það er auðvitað alveg óþolandi þegar í hlut eiga þessir gríðarlega afdrifamiklu og stóru hlutir þar sem eru breytingar á stærstu fyrirtækjum þjóðarinnar og stærstu sameignum þjóðarinnar, hvernig með þær er farið, að menn skjóti hlutunum í gegnum þingið með þokukenndar yfirlýsingar út og suður. Stjórnarflokkarnir komist upp með að túlka hlutina í austur og vestur. Annars vegar segir hæstv. samgrh.: Það er til lítils að undirbúa sölu ef ekki á að selja. Síðan kemur hv. þm. Hjálmar Árnason og segir: Nei, nei, þetta er svona úttekt, skoðun. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um sölu. Það er allt annað mál, alveg óskylt mál.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Ég býst við að Landssíminn hljóti að verða að verðmæti um 30--50 milljarðar kr. Ég get varla ímyndað mér að glóra væri í að láta það fyrirtæki fara fyrir mikið minna þó að maður tæki ekkert nema hagnað upp á eina 2 milljarða á ári. Það er náttúrlega þumalputtaregla að það selur enginn maður fyrirtæki fyrir minna en sem nemur eignum þess. Ef það er fyrirtæki með sterka viðskiptalega stöðu og mjög góða afkomu, þá er gjarnan bætt við um það bil fimm til tíu ára hagnaði ofan á söluverðið. Og hvað eigum við að segja að eignir Landssímans séu, eigið fé? Eigum við að giska á 20 milljarða eða eitthvað slíkt, vægt metið? Eigum við að segja 10 sinnum 2 milljarða hagnað, þ.e. 40 milljarðar. Ég held að það sé einfalt reikningsdæmi að ekki væri glóra í því að láta þetta fyrirtæki fara fyrir minna en einhverjar slíkar upphæðir. (Gripið fram í: 40 milljarða.) Já, ég er að segja það, 35--50 milljarðar kr. gæti ég trúað að væri nálægt stærðargráðunni á verðmæti fyrirtækisins og þá erum við ekki að tala um neina smáaura.

Landssíminn, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og nokkur slík fyrirtæki eru verðmætustu fyrirtæki þjóðarinnar sem eru enn þá í sameign hennar. Ekki er hægt að bjóða hv. Alþingi upp á það að fara með mál sem varðar framtíðarhagsmuni og ráðstöfun þessara eigna í gegnum þingið í algerri þoku þannig að ég óska eftir því, herra forseti, að skýrari svör fáist um áform ríkisstjórnarinnar hvað varðar sölu eða ekki sölu á Landssímanum. Það er alveg ómögulegt að skilja þannig við þetta mál á lokasprettinum að stjórnarflokkarnir tali þar í austur og vestur. Hvað felst í orðum stjórnarsáttmálans um að undirbúa skuli sölu Landssímans? Er það ígildi ákvörðunar um að selt verði eða er það málamiðlunarorðalag milli stjórnarflokkanna um að þetta verði eitthvað skoðað? Það er augljós munur á þessu tvennu, herra forseti, og ég fer fram á að skýr svör verði veitt. (Gripið fram í.) Já, það getur greitt fyrir því að umræðunni ljúki, hv. þm., ef hér fást skýr svör við því sem spurt er um. Það vill nú svo vel til að hæstv. forsrh. er kominn í salinn og hugsanlega hefur hæstv. forsrh. komið nálægt samningu stjórnarsáttmálans. (Forsrh.: Það er hugsanlegt.) Það er ekki útilokað, og þá gætu svör fengist frá einum af aðalhöfundum málsins en ég hefði gjarnan kosið, herra forseti, að talsmenn Framsfl. hefðu komið líka, formaður þingflokks eða hæstv. utanrrh. eða einhver annar slíkur.

Ein ástæða er enn, herra forseti, fyrir því að mér finnst nauðsynlegt að við fáum aðeins skýrari línur í málið áður en það fer út frá Alþingi svo að við komum ekki aftur að þessum málum eftir einhver missiri, eitt eða tvö ár, og stöndum þá meira og minna frammi fyrir gerðum hlut og þá verði gerð einhver ráðstöfun sem meira og minna verði ákveðin, komi hún hingað inn með fyrirvara um samþykki Alþingis að nafninu til eins og svo oft hefur því miður viljað vera. Þessi ástæða er sá verklagsháttur sem stjórnarflokkarnir hafa tamið sér þegar þeir eru að útkljá svipuð mál. Þjóðin horfir upp á það að erfiðu málin í samskiptum stjórnarflokkanna eru trekk í trekk leyst með hrossakaupum. Það er einn fyrir mig og einn fyrir þig. Ef það er kannski þannig, herra forseti, að sjálfstæðismenn vilja endilega selja Landssímann en framsóknarmenn eitthvað tregir, en á hinn bóginn sé eitthvað annað sem Framsfl. langi í, gæti það hugsast að eftir hálft eða eitt ár færi fram pínulítill kaupskapur? (ÖS: Nei.) Nei, hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ekki trú á því. Hann trúir svo óumdeilanlega á hið góða í manneskjunni. En ég læt mér detta það í hug, herra forseti. Ég verð því miður að taka það á mig að vera svona efagjarn. Ég læt mér detta það í hug að t.d. þessu máli gæti lokið þannig að Sjálfstfl. fengi að selja Landssímann sinn gegn því að Framsfl. fengi eitthvað annað. En þá er það ekki þannig sem hlutirnir eiga að gerast að síðan verði fullbúnum pakkanum hent í Alþingi til málamyndaafgreiðslu og samþykkis með sama hætti og flutningur Byggðastofnunar núna og Seðlabankans á móti. Það er kaupskapur um óskylda hluti sem er svo ógeðfelldur, herra forseti, að ég vona að þau tilvik verði ekki fleiri sem koma inn af því tagi.

[18:30]

Hvernig er dagskrá þessa fundar, herra forseti? Er það ekki þannig að hlið við hlið séu aftur --- fyrir tilviljun eða hvað --- tvö algjörlega óskyld mál á dagskránni, Byggðastofnun og Seðlabankinn? Hvað eiga þau sammerkt? Hvers vegna fylgjast þau að eins og tvíburar í gegnum þingið?

Þau eiga það sammerkt að vera kaupskapur milli stjórnarflokkanna um að málin skuli ganga fram saman, einn fyrir mig og einn fyrir þig. Þessi vinnubrögð, herra forseti, eru ekki ásættanleg, að stjórnarflokkarnir séu að smygla góssi í gegnum þingið á óskýrum forsendum hvað þetta varðar. Svör hæstv. samgrh. annars vegar og hv. þm. Hjálmars Árnasonar hins vegar gáfu berlega í skyn að staða þessa máls í samskiptum stjórnarflokkanna er óútkljáð, a.m.k. hvað Framsfl. varðar. Það gefur okkur tilefni til þess að spyrja og reyna að fá hér skýr svör.

Er fyrirhuguð sala á næsta ári eða þarnæsta ári? Er ekki ákveðið að selja á kjörtímabilinu? Er það mál bara til skoðunar? Þýðir það, þegar sagt er í stjórnarsáttmálanum að stefnt skuli að sölu eða að sala skuli undirbúin, bara einhvers konar könnun eða úttekt á málinu?

Að síðustu, herra forseti, leyfi ég mér að koma aðeins inn á það sem ég tók eftir í andsvari við hæstv. samgrh., ef hæstv. ráðherra vildi nú vera svo vænn að svara frekar til í umræðunni. Það er þessi spurning um verðlagningu einstakra kostnaðarþátta. Nú er ég ekki að biðja um krónur eða upphæð í þessum efnum heldur kannski aðferðafræði ef þessi leið verður farin, að Landssíminn haldi grunnnetinu og ákvæðin um aðgang annarra inn á netið verða virk, aðgangur að heimtaug og allir þessir reikisamningar og hvað það nú heitir komast í gang. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að menn meti kostnaðarþættina og hver á að gera það? Er það Póst- og fjarskiptastofnunin? Kemur Samkeppnisstofnun að þeim málum? Menn hafa rætt hér um vandamál við skörun þessara tveggja aðila. Hvernig sjá menn tæknilega fyrir sér að þetta verði gert ef fyrirtækið sem í hlut á er jafnframt samkeppnisaðili í greininni? Hvernig verður farið með varðveislu viðskiptalegra upplýsinga í þessum efnum? Hvernig mun ganga að fá réttar grundvallarupplýsingar til að byggja matið á án þess að opna um leið fyrir bókhald fyrirtækisins og samkeppnisaðilans og það verði þannig úr leik eða opni algjörlega inn á sig?

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég sé bara ekki alveg hvernig menn ætla að fara þessa leið. Ég held að það séu ótal ljón á veginum, margir þröskuldar sem mönnum muni reynast torvelt að yfirstíga og klögumálin verði mörg. Ég hefði talið æskilegt, herra forseti, ef hæstv. samgrh. treystir sér til, að fara aðeins nánar yfir þennan þátt málsins áður en umræðunni lýkur. Ég ítreka svo að lokum óskir mínar um svör frá báðum stjórnarflokkunum varðandi sölu á Landssímanum.