Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:21:48 (3302)

1999-12-17 20:21:48# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, Frsm. meiri hluta ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:21]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til að leiðrétta misskilning hjá hv. síðasta ræðumanni. Þó að frv. um Póst- og fjarskiptastofnun hafi ekki verið lengi í hristimaskínu samgn. þá var mjög ítarlega fjallað um það, og frv. er samtengt öðru frv. um fjarskipti sem við höfum rætt hér í dag. Mjög ítarlegar og vandaðar umsagnir bárust um það frv. og menn báru ávallt saman bækur um þessi tvö frv. í allri umfjöllun sem eðlilegt er.

Þeir sem fjölluðu um frv. í samgn. voru Ragnhildur Hjaltadóttir og Einar Hannesson frá samgrn., Gústav Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun, Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður samgrh., Þórarinn V. Þórarinsson, Páll Ásgrímsson, Bergþór Halldórsson og Kristján Indriðason frá Landssíma Íslands, Eyþór Arnalds og Ágúst Sindri Karlsson frá Íslandssíma, Ragnar Aðalsteinsson, Ragnar Tómas Árnason og Þórólfur Árnason frá TAL hf., Guðmundur Sigurðsson og Ásgeir Einarsson frá Samkeppnisstofnun, Björn Davíðsson frá Snerpu á Ísafirði, Svavar Kristinsson frá Íslenskri miðlun, Guðjón Rúnarsson og Sigríður Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, og Stefán Hrafnkelsson frá Margmiðlun hf. Auk þess boðaði samgn. fulltrúa Neytendasamtakanna til viðræðu um þetta frv. en einhverra hluta vegna sáu Neytendasamtökin ekki ástæðu til að mæta í þá umfjöllun.

Miðað við umfang frv. og miðað við tengingu þess við fjarskiptafrv. þá er mjög eðlilegur framgangur á meðferð málsins í samgn. miðað við mörg fordæmi á síðustu áratugum.