Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:28:19 (3306)

1999-12-17 20:28:19# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa til máls um frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun og þá sérstaklega hv. samgn. og þeim þingmönnum sem þar hafa starfað og einnig þeim sem hafa komið að vinnu nefndarinnar fyrir mjög gott starf og vandaða vinnu.

Formaður samgn. gerði grein fyrir brtt. sem hér er og ég lýsi ánægju minni með hana.

Ég vildi aðeins bæta við vegna þess sem hér hefur komið fram að það er alveg ljóst að Póst- og fjarskiptastofnun hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna sem eftirlitsaðili. Vegna þess að hér komu til tals hagsmunir hinna dreifðu byggða þá minni ég á fjarskiptalöggjöfina og 13. gr. sem snýr að alþjónustunni. Auðvitað mun það verða og er hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar á grundvelli þessa frv. að hafa eftirlit með því að alþjónustunni verði sinnt af þeim símafyrirtækjum sem fá til þess rekstrarleyfi og ég vona að það verði eins og til er stofnað.

Ég vildi síðan aðeins nefna vegna þess sem kom fram í andsvari um þjónustu 118, þó að það varði ekki Póst- og fjarskiptastofnunina eða frv., að skýringar á því að einhver bið kann að vera á að svarað sé í 118 er hin feiknarlega aukna eftirspurn eftir þeirri þjónustu vegna GSM-símakerfisins og margvíslegrar annarrar þjónustu sem er í auknu framboði hjá símafyrirtækjunum. Það er því ekki það að dregið hafi verið úr þjónustu heldur er verið að auka við þjónustuna í rauninni. En að öðru leyti vil ég ekki orðlengja þetta og þakka fyrir ágæta umfjöllun.