Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:55:48 (3314)

1999-12-17 20:55:48# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sleppti honum og víkja sérstaklega að 5. gr. frv. þar sem fjallað er um starfsgreinaráð. Ég sakna þess að fyrir nefndina voru ekki kallaðir nema fulltrúar örfárra þeirra aðila sem hlut eiga að máli og hefði talið eðlilegt að þar hefðu komið fulltrúar bæði samtaka atvinnurekenda og einnig heildarsamtaka launafólks, Alþýðusambands Íslands og BSRB svo að dæmi séu nefnd. Þessi samtök eiga öll fulltrúa í þessum starfsgreinaráðum. Þar hefði án efa komið fram ýmis sú gagnrýni sem ég hef orðið vitni að. Ég átti þess kost fyrir fáeinum dögum að sitja ráðstefnu fulltrúa úr þessum starfsgreinaráðum þar sem þeir sögðu á þeim kost og löst. Almennt var ánægja með starfið. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að misvel hefur til tekist. Í sumum tilvikum hefur miðað vel og í öðrum e.t.v. síður. Þó er það sammerkt með öllum þessum ráðum að þau byggja á mikilli vinnu. Í þeim tilvikum sem vel hefur miðað hefur vinnan verið mjög mikil.

Í starfi fulltrúa verkalýðsfélaganna, samtaka launafólks, er mikið um ólaunaða vinnu. Menn starfa mikið á vegum félaga sinna og hreyfinga án þess að taka nokkra þóknun fyrir. Þegar um er að ræða lögbundið starf eins og í þessu tilviki er hins vegar eðlilegt að fyrir það sé greitt. En hér mismunar ríkisvaldið. Fulltrúum ráðuneytanna í starfsgreinaráðunum er greitt fyrir þeirra störf. Fulltrúum samtaka launafólks er ekki greitt fyrir störf þeirra. Það er ætlast til þess að þau félög eða heildarsamtök sem standa á bak við þau greiði kostnaðinn.

Heildarsamtökin hafa þann hátt á, alla vega í einhverjum tilvikum, --- þar sem ég þekki best til er svo --- að greiða ferðakostnað og útlagðan kostnað þeirra sem taka þátt í þessu starfi. Um aðrar greiðslur er hins vegar ekki að ræða. Ég vildi gjarnan heyra álit hv. formanns nefndarinnar á því hvort komið hafi til tals að gera breytingu á þessu og hvort það hafi þá verið rætt við fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Ef svo er ekki vil ég koma því á framfæri að gerð verði breyting á lögunum hvað þetta snertir, að fyrir þetta starf komi greiðsla.

Ef ríkið ætlar að fara út á þá braut að greiða ekki fyrir starf í nefndum sem starfa lögum samkvæmt heldur gera einstökum félögum eða samtökum að standa straum af þeim kostnaði þá eru menn að mínum dómi komnir út á mjög vafasama braut. Þetta er t.d. landsbyggðarfjandsamleg hugsun vegna þess eins að það er miklu ódýrara að kveðja fólk til starfa í nefndum af höfuðborgarsvæðinu þar sem þessar nefndir eru yfirleitt starfandi. Í annan stað er ég ekki viss um að æskilegt sé að setja félög og samtök í þessa stöðu, að vega það og meta út frá peningalegum forsendum hvar borgi sig að taka þátt og hvar ekki. Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði. Ég hef orðið var við mjög mikla og þunga gagnrýni frá hreyfingum launamanna á að þessi háttur skuli hafður á. Ég vil taka mjög eindregið undir þá gagnrýni og leyfi mér að beina þeirri spurningu til hv. formanns menntmn. hvort hún er reiðubúin að beita sér fyrir því að á þessu verði gerð bragarbót.