Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:02:56 (3316)

1999-12-17 21:02:56# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:02]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þessi sjónarmið hefðu komið fram ef fulltrúar þessara samtaka hefðu verið kallaðir fyrir nefndina. Það var ætlun ríkisstjórnarinnar að fá þessi samtök öll til samstarfs og virkja þau í þessu starfi. Það hefur tekist og fyrir því er fullur vilji. Ég er aðeins að benda á að á þetta sjónarmið var hins vegar aldrei fallist, þ.e. að samtökin greiddu fyrir þetta.

Ég er að segja: Hvaða rök mæla gegn því að sá háttur verði hafður á? Þetta er landsbyggðarfjandsamleg hugsun og það er mjög vafasamt að fara út á þá braut að stilla þessum samtökum upp við vegg að þessu leyti þannig að þau vegi og meti á fjárhagslegum forsendum hvort það borgi sig að taka þátt í þessu starfi.

Ég ætla því ekki að þræta við hv. formann nefndarinnar um þetta. Það er greinilegt að henni er ekki kunnugt um þessi sjónarmið eða þessa gagnrýni sem fram hefur komið. Ég vil koma henni mjög rækilega á framfæri og óska eftir því að þetta mál verði tekið til velviljaðrar skoðunar.