Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:04:25 (3317)

1999-12-17 21:04:25# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:04]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í þessu sambandi upplýsa hv. þm. Ögmund Jónasson um að til marks um það hversu mikil áhersla er lögð á þátt aðila atvinnulífsins í starfsgreinaráðunum, þá hafa skólamenn gagnrýnt að ekki skuli vera fleiri í þeirra hópi tilnefndir í starfsgreinaráðin en raun ber vitni.

Það er engin spurning að ætlunin með starfsgreinaráðunum var að virkja aðila atvinnulífsins til þess að taka ábyrgð og hafa áhrif á mótun starfsnáms. Ég tel að það hafi tekist ágætlega en þó auðvitað mismunandi vel eftir greinum. Það er alveg ljóst að ýmsar greinar hafa komið inn í þetta á mjög öflugan hátt. Ég ætla ekki að fara að nefna sérstakar greinar, en það er til mikillar fyrirmyndar hvernig þær hafa tekið á málum.

Ég vísa því til föðurhúsanna að hér sé um að ræða einhverja landsbyggðarfjandsamlega hugsun þó að ætlast sé til þess að þessir aðilar taki ábyrgð á því að ákveða sjálfir hvort þeir greiða sínum fulltrúum fyrir að sitja í starfsgreinaráðunum eða ekki.