Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:18:07 (3320)

1999-12-17 21:18:07# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:18]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst einvers misskilnings gæta í máli hv. síðasta ræðumanns. Það frv. sem við erum að ræða eru breytingar við framhaldsskólalögin sem voru sett fyrir þremur og hálfu ári. Markmiðið með þeirri löggjöf, framhaldsskólalöggjöf sem í gildi er, var fyrst og fremst að efla starfsnám í landinu. Sett voru í þá löggjöf miklu nákvæmari lagaatriði um þau efni en áður hafa verið mörkuð í íslenskri löggjöf. Með þessu frv. er eingöngu verið að gera smávægilegar lagfæringar á framhaldsskólalöggjöfinni og með þessu frv. er ekki verið að setja inn í lög að það skuli samræma próf út úr framhaldsskólanum. Ákvörðun hefur þegar verið tekin um það. Það er nú svo að það vantar samræmdan mælikvarða inn í framhaldsskólann. Það er ekki nokkur spurning um að það er álit fagfólks. Ég tel að það sé eingöngu til góðs hvað það varðar að viðbótarnám fyrir starfsnámsnemendur sé skilgreint og hverju þeir þurfa að bæta við sig til þess að teljast hafa lokið undirbúningi til náms á framhaldsskólastigi og að það skuli þá kalla það viðbótarnám að þeir ljúki því með stúdentsprófi. Þar held ég í raun og veru að verið sé að færa þessa nemendur á nákvæmlega sama stig og alla aðra nemendur í framhaldsskólanum, að þeir sem fara inn á háskólastigið hafi lokið stúdentsprófi, hvort sem þeir koma af starfsnámsbrautunum eða einhverjum öðrum brautum.