Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:48:56 (3329)

1999-12-17 21:48:56# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:48]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þegar frv. til laga um málefni aldraðra var rætt við 1. umr. fékk það mjög jákvæðar undirtektir hjá flestum. Menn töldu það sem þar kom fram vera til bóta. Ég harma eftir sem áður hvað frv. kom seint fram. Á lokasprettinum við frágang þess var of skammur tími til að skoða þó nokkur atriði sem við fundum öll að hefði þurft að athuga betur til þess að ganga, við getum sagt, þokkalega, frá þessu frv. sem við viljum öll standa vel að nú á ári aldraðra og skila því frá okkur með sóma.

Markmið frv. kom fram hjá hv. formanni heilbr.- og trn., Valgerði Sverrisdóttur. Hún fór yfir brtt. sem hafa komið fram við frv. En aðalmarkmið frv. og helstu nýmæli eru þessi:

Fulltrúum í samstarfsnefnd um málefni aldraðra er fjölgað um tvo vegna mikilvægis nefndarinnar. Annar fulltrúinn er tilnefndur af Landssambandi eldri borgara en hinn er án tilnefningar. Fulltrúar án tilnefningar verða því tveir og skal annar þeirra hafa fagþekkingu á málefnum aldraðra.

Þjónustuhópur aldraðra tekur við hlutverki öldrunarnefnda og öldrunarmálaráða sem verða lögð niður.

Sveitarstjórnir skipa fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra í stað öldrunarnefnda og verður hópurinn skipaður fimm fulltrúum í stað fjögurra. Hinn nýi fulltrúi skal tilnefndur af samtökum eldri borgara á starfssvæði þjónustuhóps aldraðra.

Framkvæmdasjóður aldraðra skal styrkja rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum.

Nokkur hugtök eru sérstaklega skilgreind í lögunum, t.d. hugtakið aldraður.

Mun ég nú fara yfir frv. í helstu dráttum.

Það er mjög til bóta að skilgreina hugtök. Þá verður alveg ljóst hvað er aldraður, öldrunarmat, vistunarmat aldraðra, starfssvæði þjónustuhóps aldraðra og síðan er hér tillaga um að við bætist ný skilgreining á vistmannaráðum, þ.e. að kjörnir fulltrúar íbúa stofnunar mynda vistmannaráð. Hér hefur komið ábending frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um að þarna þurfi að bæta um betur og festa í reglugerð eða skilgreina hvernig eigi að skipa í vistmannaráðin. Þetta er hálfgerður vandræðagangur á stofnunum. Sums staðar gengur þetta vel og menn finna sér sínar reglur til að skipa í vistamannaráðin en annars staðar eru erfiðleikar. Því er rétt að setja reglur um hvernig sé skipað í vistamannaráð. Það er mjög til bóta að aldraðir fái að taka ákvarðanir um sín eigin málefni og því ber að fagna að samstarfsnefnd um málefni aldraðra er breytt þannig að þar komi fulltrúar aldraðra inn. Þetta er eðlilegur hugsunarháttur og svo verður vonandi í framtíðinni að aldraðir hafi eitthvað um sín mál að segja. Ég finn það bara með sjálfa mig og ég veit að svo er um fleiri sem vinna að þessum málefnum að annar hugsunarháttur var ríkjandi áður, en vonandi breytist það hjá okkur öllum.

Úr 5. gr. laganna, eins og hún er núna, hefur verið fellt út ákvæði um að það mætti fara með kærumál til samstarfsnefndar um málefni aldraðra. Við ræddum þetta svolítið í nefndinni. Ég held að það sé rétt að sami aðilinni geti ekki allt í senn komið með leiðbeiningar, verið ráðunautur og úrskurðaraðili. Ef kærumál koma upp þá ættu þau að fara til heilbrrn. eða landlæknis eftir eðli málanna.

Búið er að leggja niður öldrunarnefnd og öldrunarmálaráð og koma upp einum þjónustuhópi aldraðra. Þetta er til einföldunar og verður örugglega skilvirkara og er eitt af því sem ég tel vera einna helst til bóta. Það er líka gert alveg ljóst að sveitarstjórnirnar eru ábyrgar fyrir starfi þjónustuhóps aldraðra. Í stærri sveitarfélögum eins og höfuðborgarsvæðinu er hægt að hafa fleiri en einn þjónusthóp aldraðra ef vilji er fyrir hendi. Það er á valdi sveitarstjórna. En í smærri sveitarfélögum er heimilt að sameinast um þjónustuhóp aldraðra. Þetta er það opið að það fer eftir þörfum á hverjum stað.

7. gr. er örlítið breytt frá því er hún birtist í upphaflega frv. Þar er fallið frá leiðbeinandi vísun til þess að einn af fulltrúum í þjónustuhópi skuli vera félagsráðgjafi ef unnt er. Það var ekki skilyrt. En mjög margir faghópar koma að þjónustu við aldraðra og fallist var á að hætta við að binda þetta við þennan eina faghóp. Ég hugsa nú að sveitarstjórnir átti sig vel á því að viðkomandi einstaklingur þarf einmitt að hafa sérþekkingu á þessu sviði, þ.e. félagsráðgjöf. Þessi sérfræðingur er ekki alls staðar til staðar, en þessi fulltrúi þarf að vera vel heima á þessu sviði.

Síðan kemur að þeirri grein sem við fjölluðum kannski einna mest um, þ.e. 9. gr. frv. Ég mæli hér fyrir brtt. við þá grein, en hún fjallar um Framkvæmdasjóð aldraðra. Það var aðallega út af þeirri grein sem við hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir gerðum fyrirvara varðandi skiptingu á úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra og eru þeir hv. þm. meðflutningsmenn að tillögunni. Í upphafi var framkvæmdasjóðurinn alveg bundinn því að fara til byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista og til viðhalds stofnana, nauðsynlegra breytinga og endurbóta. Eins mega sveitarfélög og heilsugæslustöðvar fá úr sjóðnum til að skipuleggja heimaþjónustu fyrir aldraða. En síðan var því bætt við að það mætti taka í rekstur stofnananna. Þetta átti bara að vera pínulítið í byrjun en er nú orðið allt að 60% af árlegri úthlutun sjóðsins. Auk þess er búið að bæta því við að taka megi fé úr sjóðnum til rannsókna, kennslu og kynningar á öldrunarmálum. Nú fer allt of stór hluti sjóðsins til reksturs stofnana. Þó að það eigi eingöngu að nota féð í sérstökum tilvikum þá fer það bara beint í reksturinn. Því er ekki úthlutað á einstakar stofnanir þannig að menn geti séð til hvaða stofnana það fer og til hversu langs tíma, heldur fer það bara óskipt í þennan pott. Því leggjum við til svohljóðandi brtt.:

,,Við 9. gr. Við 4. tölul. 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slíkar greiðslur skulu þó aldrei nema hærra hlutfalli en 25% af úthlutunum úr sjóðnum árlega.``

Ég sé að tíma mínum er alveg að ljúka. Ég held ég hafi gert grein fyrir því sem er í greinargerðinni. (Gripið fram í: Þú mátt tala eins og þú vilt.) Af hverju tikkar þá klukkan hérna alveg hreint bara niður?

(Forseti (GuðjG): Ekki samtal. Það er ótakmarkaður ræðutími.)

Það er bara svona. Ég hélt ég væri að falla á tíma. (Gripið fram í.) Það má bara falla á tíma.

[22:00]

Ég ætla þá að lesa greinargerðina með brtt., með leyfi forseta:

,,Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum nr. 49/1981 og var markmiðið með sjóðnum að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Með lögum nr. 12/1991 var hlutverki sjóðsins breytt á þann veg að heimilað var að nýta hluta af fjármagni sjóðsins til reksturs stofnana fyrir aldraða. Frá þeim tíma hefur allt að 55% af fjármagni sjóðsins verið notað árlega til reksturs stofnana.

Í frv. er lagt til að fjármagni úr sjóðnum skuli áfram varið til að styrkja rekstur stofnana fyrir aldraða í sérstökum tilvikum. Í umsögnum um málið komu fram áhyggjur af því að engin takmörk séu fyrir því hversu miklu megi verja úr sjóðnum til reksturs stofnana fyrir aldraða, en með slíku opnu ákvæði er hætt við að unnið sé gegn því markmiði sjóðsins að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. er verið að koma til móts við þessi sjónarmið og leitast þannig við að varðveita upphafleg markmið með stofnun Framkvæmdasjóðs aldraðra.``

Heildarsvipur laganna segir okkur eftir sem áður að í náinni framtíð þurfi alfarið að endurskoða lög um málefni aldraðra. Þá er ég ekki að tala um endurskoðun á lögunum eins og núna var farið í. Það var eingöngu farið í þessa endurskoðun vegna þess að í lögunum voru ákvæði um að þau ætti að endurskoða á fimm ára fresti. Að vísu liðu þarna tíu ár. En það þarf að fara í þessa vinnu með breyttu hugarfari og taka miklu stærri hluta til athugunar. Það er allt annað verk en það sem nú var unnið.

Hér var spurt um vistunarmat, þ.e. 15. gr. og hvers vegna ætti að hafa vistunarmat eftir að sjúklingur hefur legið sex vikur á sjúkrahúsi. Þó það sé kannski ekki mitt að svara fyrir það þá get ég alla vega sagt skoðun mína varðandi það mál. Þetta á ekki síður við stóru sjúkrahúsin, þar sem einstaklingar liggja inni á dýrustu stofnununum. Þegar hinni eiginlegu meðferð sem hófst þegar fólk lagðist inn er lokið þarf að meta hvaða þjónusta hentar fyrir þessa einstaklinga. Þetta á við á öllum stigum, ekki bara á hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum, heldur á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar til að geta áttað sig á hvar viðkomandi eigi helst að vera.

Því miður nægir ekki að velja bara rétt þjónustustig. Við værum ekki í miklum vandræðum með þá eldri ef hægt væri að koma þeim út af sjúkrahúsunum, stóru sjúkrahúsunum okkar að meðferð lokinni, ef til væru hjúkrunarheimili til að taka við þeim eða dvalarheimili. Eins og hér hefur margoft verið bent á er þörf á Framkvæmdasjóði aldraða til að halda áfram uppbyggingu dvalarheimila til að mæta þeirri þörf sem er í þjóðfélaginu í dag og ekki síður í nánustu framtíð. Þá mun fjöldi fólks sem nú er á besta aldri komast á hinn eftirsótta eftirlaunaaldur og fara fram á þessa þjónustu.

Ég held að ég láti þetta duga í þessari yfirferð. Þó er ekki alveg hægt að skilja við einstakar greinar, t.d. 22. gr. en þar er bundin í lög sú upphæð sem vistmenn mega halda eftir þegar búið er að taka af þeim greiðslur til dvalarkostnaðar á stofnunum. Greinin hefst svona:

,,Vistmenn sem hafa tekjur umfram 30.386 kr. á mánuði skulu taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á stofnunum fyrir aldraða.``

Þarna vantar skilgreiningar á tekjum. Það þarf að setja þak á greiðsluþátttöku en ráðuneytið sér um gjaldskrána.

Við erum margbúin að taka fram, við í minni hluta heilbr.- og trn., að við hefðum ekki viljað sjá neina upphæð bundna inni en það verður víst að vera samkvæmt stjórnsýslulögum. Ef um gjaldskrá er að ræða eða skatttekjur þá ber að nefna upphæð skattteknanna í lögunum og er þá miðað við þá upphæð og hún framreiknuð við allar breytingar. En 30.386 er sannarlega of lág upphæð. Við hefðum sannarlega viljað gera breytingu við það.

Breytingin sem við komum með varðar framkvæmdasjóðinn. Við mælum með því að með brtt. sem minni hlutinn leggur til verði frv. samþykkt.