Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 22:19:03 (3331)

1999-12-17 22:19:03# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[22:19]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Nú eru liðin tíu ár frá því að lög um málefni aldraðra voru endurskoðuð síðast og ég minnist þess sérstaklega að það var mjög ánægjulegur atburður þegar þau voru fyrst samþykkt á árinu 1983. Það er við hæfi að við afgreiðum þetta frv. um málefni aldraðra nú í lok árs aldraðra.

Mjög ítarleg vinna fór fram í heilbr.- og trn. og enda þótt við hefðum haft skamman tíma unnum við þetta mjög vel. Ég vil þakka hv. þm. og formanni heilbr.- og trn., Valgerði Sverrisdóttur, fyrir gott starf að stýra okkur í gegnum þessa vinnu.

Í frv. voru sérstaklega nokkur markmið höfð til hliðsjónar. Í fyrsta lagi var reynt að einfalda lögin og í öðru lagi að gera breytingar á lögunum sem eru í samræmi við reynslu á skipulagi öldrunarþjónustu og þróun í þessum geira samfélagsþjónustu á síðustu tíu árum. Í þriðja lagi var lögð áhersla á að réttur og ábyrgð aldraðra til ákvörðunar í eigin málum verði tryggður í lögunum í samræmi við nútímamarkmið og sjónarmið og baráttumál aldraðra.

Þetta markmið birtist m.a. í því að vistmannaráð á stofnunum fyrir aldraða skipa fulltrúa sinn með málfrelsi og tillögurétt í stjórn stofnunar. Fulltrúum í þjónustuhópi aldraðra er fjölgað úr fjórum í fimm og tilnefna Samtök eldri borgara einn fulltrúa í hópinn og fulltrúum í samstarfshópi um málefni aldraðra er fjölgað úr þremur í fimm og tilnefnir Landssamband eldri borgara einn fulltrúa í samstarfshópinn.

Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar hér áðan að hann var að velta fyrir sér hlutverki vistmannaráða og hvernig þau yrði skipuð á stofnunum. Starfsmannaráð eru starfandi á flestum stofnunum og þau setja sér sjálf reglur. Í mínum huga er það svo með vistmannaráðin að þau starfi á sama máta og starfsmenntunarráðin á stofnunum og setji sér sjálf reglur um starfsemi sína. Ef vistmannaráð eru ekki starfandi á þessum stofnunum teldi ég rétt að stjórn stofnunarinnar mundi hvetja vistmenn til þess að mynda slíkt ráð.

Sú spurning kom líka fram hjá hv. þm. hvort það ætti að borga þessum fulltrúum sérstaklega fyrir setu í stjórnum og það tel ég í rauninni vera mál sem er verkefni og ákvörðun stjórnar stofnunar hverju sinni og þá í samræmi við þær reglur sem stjórnin hefur sett sér.

Á undanförnum árum hefur mikil umræða farið fram um að samræma betur heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða annars vegar og félagslega þjónustu fyrir aldraða hins vegar til þess að einfalda kerfið og tryggja sem besta nýtingu úrræða fyrir aldraða. Ég vil nefna að nokkur reynslusveitarfélög hafa verið með tilraunaverkefni í þessa veru, m.a. á Akureyri, sem hefur þótt takast vel. Í þessu frv. er reynt að stíga nokkur skref í þessa átt þó það sé langt í frá að skrefið sé stigið til fulls. Til að ná því markmiði að samræma betur þessa þjónustu þarf að fara fram ítarleg umræða um skipulagsbreytingu milli heilsugæslu sem fellur undir ríkið annars vegar og hins vegar stofnana fyrir aldraða og félagslega kerfisins sem eru rekin á ábyrgð sveitarfélaga og þar verði þarfir hinna öldruðu hafðar til hliðsjónar og skipulag mála tæki mið af því.

Markmiðið ætti að vera að samhæfa þessa þjónustu þannig að hvert kerfi styðji annað. Þannig verði reynt að tryggja að þörfum hins aldraða verði mætt á viðeigandi máta og á réttu þjónustustigi á hverjum tíma. Í því sambandi vil ég benda á að í Reykjavík eru t.d. heilsugæsluumdæmin og umdæmi félagslegrar þjónustu landfræðilega ekki þau sömu. Sú staðreynd að heilbrigðisþjónusta í heimahúsum og heimilishjálp, sem er félagsleg þjónusta, lúta ekki sömu stjórn, hefur gert það að verkum að samhæfing þjónustu við aldraða sem njóta þjónustu beggja kerfa er engan veginn sem skyldi. Þessu þarf að huga að í framtíðinni í auknum mæli og takmarkið, eins og ég sagði áðan, ætti að vera að setja þetta undir eina stjórn og hafa það að markmiði að veita sem besta þjónustu til aldraðra og taka mið af þörfum þeirra.

Ég vil vekja athygli á að á málþingi sem haldið var 3. nóv. sl. á vegum fagaðila og samtaka aldraðra voru þátttakendur sammála um að ein yfirstjórn heilbrigðis- og félagsþjónustu væri nauðsynleg. Ég minnist þess að á afar mörgum ráðstefnum sem ég hef sótt á undanförnum árum hefur þetta verið niðurstaðan. En það hefur augljóslega verið ákveðin tregða í báðum kerfum til að taka það skref sem þarf til þess að samræma þjónustuna betur.

Í frv. er gert ráð fyrir að öldrunarnefndir og öldrunarmálaráð verði lögð niður enda hefur reyndin verið sú að þær tvær nefndir hafa í fæstum tilvikum í sveitarfélögum starfað samkvæmt lögunum. Í frv. er lagt til að þjónustuhópur aldraðra, sem starfar í hverju heilsugæsluumdæmi, taki yfir tiltekin verkefni þessara nefnda. Þessi tilhögun er til einföldunar og í samræmi við raunverulega skipan mála eins og hún er í dag.

Hins vegar er lagt til að skipan í nefndina sjálfa verði með öðrum hætti en áður þannig að í stað þjónustuhóps sem er í núgildandi lögum skilgreindur sem samstarfshópur starfsliðs heilsugæslustöðva og starfsliðs í félagslegri þjónustu á viðkomandi starfssvæði muni sveitarstjórn skipa í þjónustuhópinn, þar af tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu héraðslæknis, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka eldri borgara og tveir án tilnefningar. Ég hef ákveðnar efasemdir um skipan þessa hóps en ég hef samt ákveðnar vonir að hann nái að starfa á jafnliðugan máta og þjónustuhópur aldraðra gerir í dag. Það ræðst hins vegar af þeim sjónarmiðum sem eru lögð til grundvallar skipan í hópinn og ég legg áherslu á að sveitarstjórnir hafi til hliðsjónar þá reynslu af skipan hópsins eins og hann er í dag, þ.e. að þar komi saman starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og félagslegrar þjónustu hins vegar til þess að samhæfa þessi atriði.

Í 9. gr. frv. er lagt til að hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra verði útvíkkað og þau nýmæli lögð til að fé úr honum skuli m.a. varið til að styrkja rannsóknir, kennslu og kynningu á öldrunarmálum. Í raun og veru hefur sjóðurinn haft þetta hlutverk og með þá tilvísan í þann tölulið 9. gr. sem segir að fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skuli varið til annarra verkefna sem eru í samræmi við markmið laganna og það er vel að þetta hlutverk sjóðsins sé staðfest með þessum hætti.

Það kom áðan fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að honum fannst miður að tekinn væri út sá liður í greininni um hlutverk Framkvæmdasjóðsins að sjóðnum væri ekki varið til viðhalds. Þær röksemdir hafa verið færðar fyrir því að viðhald er hluti af rekstrarkostnaði og eigi að gera ráð fyrir því í fjárlögum á hverju ári til stofnana að ákveðinn viðhaldskostnaður sé þar inni. Hins vegar kemur fram í þessu frv. að Framkvæmdasjóð aldraðra eigi að nota m.a. til nauðsynlegra breytinga og endurbóta á húsnæði þannig að þar kemur náttúrlega fram að ef gera þarf verulegar breytingar á húsnæði til að þjóna betur þörfum hins aldraða ætti að vera hægt að sækja um fé úr sjóðnum. En ef það er venjulegur viðhaldskostnaður, t.d. málning og annað sem kemur til af sliti mundi það falla undir rekstrarkostnað á fjárlögum hvers árs hjá viðkomandi stofnunum.

Í umsögnum nokkurra aðila til hv. heilbr.- og trn. komu fram áhyggjur af því að of miklu fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra sé varið til rekstrar stofnunar og vildu nokkrir umsagnaraðilar setja þak á það hlutverk sem færi til þessa þáttar. Um það vil ég segja að það stoðar lítið að byggja upp stofnanir ef síðan er ekki til fé til að reka þær. Ég held því að það sé af hinu góða og það verði að taka mið af þörf á hverjum tíma hve mikill hluti af sjóðnum fer í rekstur. En það er alveg ljóst að þörfin er til staðar í dag að veita fé til þess að byggja upp ný hjúkrunarheimili og nýjar stofnanir fyrir aldraða og vissulega þörf á að standa vörð um að nægt fé fari til þeirra verkefna.

Einnig komu fram ábendingar um að setja þurfi starfsreglur um útdeilingu fjár úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að tryggja að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð og leggur hv. heilbr.- og trn. því til að slíkar starfsreglur verði settar þannig að það sé alveg ljóst á hverjum tíma að eðlileg rök séu lögð til grundvallar ákvörðun um skiptingu Framkvæmdasjóðs aldraðra til þeirra verkefna sem lögin segja til um.

Í 13. og 14. gr. frv. er fjallað um öldrunarþjónustu og skilgreint hvað fellur undir einstakar tegundir þjónustuforma. Nauðsynlegt er að geta þess hvaða þjónusta liggur að baki hverju skilgreindu þjónustuformi til að tryggja að þeir einstaklingar sem njóta þjónustu viti að hverju þeir geta gengið og geti gengið að tiltekinni þjónustu vísri. Það var m.a. fjallað um öryggisþjónustuna áðan, og aftur af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Það er alveg ljóst að með því að setja ákvæði um öryggisþjónustu inn í frv. er gengið út frá því að þetta sé öryggisþjónusta sem stendur undir nafni, það sé hlustandi á hinum endanum til staðar til þess að bregðast við. Ég tel að það sé ekki hlutverk löggjafans að taka ákvörðun um hvernig það er gert heldur hljóti það að vera ákvörðunaratriði þeirra sem bera ábyrgð á rekstri stofnunarinnar hvernig það er gert. Það má gera á ýmsan máta og m.a. með samningum við öryggisþjónustufyrirtæki eða með tengingu við aðila sem er tiltækur og innan seilingar og getur brugðist fljótt við.

[22:30]

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég leggja áherslu á að hjúkrunarheimili og þær öldrunarstofnanir sem hafa hjúkrunarrými þar sem aldraðir sem þarfnast hjúkrunar, læknisþjónustu og endurhæfingar eru vistaðir, falli jafnframt undir lög um heilbrigðisþjónustu. Ástæðan fyrir því að þessir einstaklingar eru lagðir inn á hjúkrunarheimili er að þeir þurfa hjúkrunar og læknislegrar meðferðar og endurhæfingar við og því eðlilegt að gera kröfur um faglega ábyrgð stjórnenda á þessum þáttum. Þetta vil ég sérstaklega taka fram að gefnu tilefni, þ.e. að staða faglegra stjórnenda þessara stofnana er hin sama og á öðrum heilbrigðisstofnunum hvað varðar stjórnun og faglega ábyrgð og það er mín skoðun að aldraðir eigi ekkert minna skilið.