Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 22:33:42 (3333)

1999-12-17 22:33:42# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[22:33]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni talaði ég sérstaklega um faglega ábyrgð stjórnenda á þeirri þjónustu sem veitt er. Ég sagði að á hjúkrunarheimilum sem falla undir skilgreiningu sjúkrahúsa samkvæmt heilbrigðislögum verði ráðinn framkvæmdastjóri, hjúkrunarforstjóri og yfirlæknir í samræmi við heilbrigðislög, og það var meginpunkturinn í máli mínu.

Í nefndinni spurðum við sérstaklega um þetta atriði í 18. gr. og ég tel að ég muni það rétt --- klukkan er orðin svolítið margt, það gæti farið að ryka eitthvað yfir hugsanir mínar, (Gripið fram í.) en það væru þá aðrir ... vertu stilltur, félagi Össur, afsakið hv. þm. Össur Skarphéðinsson --- og þá vil ég biðja aðra hv. nefndarmenn að leiðrétta mig. En þegar við fjölluðum um þetta í nefndinni var tekið sem dæmi sjúkrahúsið á Húsavík þar sem hjúkrunarheimilið hefur verið tekið sem hluti af sjúkrahúsinu og þar sem stjórn sjúkrahússins er í rauninni um leið stjórn hjúkrunarheimilisins. Ég tel mig ekki geta svarað þessu á annan máta. Hins vegar varðandi faglega stjórnun þar sem hjúkrunarheimili og dvalarheimili eru í starfstengslum þá tel ég alveg öruggt og í samræmi við mína bestu vitneskju að þar sé hin faglega ábyrgð til staðar eins og henni er lýst í lögum um heilbrigðisþjónustu.