Málefni aldraðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 22:35:52 (3334)

1999-12-17 22:35:52# 125. lþ. 48.19 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[22:35]

Frsm. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en mig langar í lok hennar að fá að þakka samstarfsmönnum, hv. þm. í heilbr.- og trn., fyrir gott samstarf við vinnslu frv. Þó að alltaf megi deila um hvort mál komi nægilega snemma fram þá er það mín skoðun að okkur hafi tekist að vinna vel að málinu og það hafi verið heiður að því fyrir þingið að geta afgreitt það á ári aldraðra. Í öllum aðalatriðum er samstaða um frv. og það finnst mér mikilvægt. Það má segja að samstaða sé um öll atriði nema fjármálaþáttinn. Hv. þm. stjórnarandstöðunnar töldu að setja ætti framkvæmdasjóðnum ákveðnar skorður í sambandi við úthlutun úr sjóðnum til rekstrar og eins varðandi 22. gr. að sú upphæð sem þar er getið um og telst vasapeningur vistmanna sé of lág. Hvað varðar 22. gr. þá vil ég taka það fram að hún er óbreytt frá núgildandi lögum og verði þetta frv. að lögum, sem allt útlit er fyrir, þá eru uppi hugmyndir um það í ráðuneytinu að reglugerðum verði breytt þar sem á þarf að halda.

Mér sýnist að hv. þm. Ásta Möller hafi svarað þeim spurningum sem hér komu fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni þannig að ég geri ekkert betur og bæti engu við þar til bóta að mínu mati og ætla ég ekki að gera það. Ég vil í lok máls míns endurtaka að ég tel að það sé mikilvægt að þetta frv. verði að lögum nú á ári aldraðra.