Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:22:00 (3346)

1999-12-17 23:22:00# 125. lþ. 48.25 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hv. félmn. fyrir skjót viðbrögð.

Eins og fram kom þegar ég mælti fyrir málinu hef ég af því nokkurt samviskubit að vera svo seint á ferð með málið því þetta er auðvitað ósiður og varð til fyrir mistök að koma svo seint með málið. En það hefur ekki komið að sök þar sem hv. félmn. hefur unnið rösklega að málinu.

Því stend ég upp að í umræðum við 1. umr. málsins varpaði hv. 5. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, til mín nokkrum spurningum sem ég var ekki reiðubúinn að svara formlega eða vildi ekki svara nema sumum þeirra en lofaði því að þessar upplýsingar kæmu fram við meðferð málsins í hv. félmn. Að einhverju leyti munu þær ekki hafa komið þar fram vegna þess að mínir menn voru ekki spurðir þeirra spurninga sem hv. þm. spurði enda á hún ekki sæti í nefndinni. Einhvern veginn fórst það fyrir þannig að ég vil nota þetta tækifæri til þess að svara því sem hún spurði um.

Að einhverju leyti hafa líka verið hér uppi staðhæfingar sem ekki eru réttar og ætla ég að nota tækifærið til þess að upplýsa um þau atriði.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. um svigrúm sjóðsins á næsta ári, þ.e. hvaða skuldbindingar Framkvæmdasjóður fatlaðra hefði á næsta ári og hvað hann hefði til aukinna framkvæmda.

Skuldbindingar sjóðsins á næsta ári eru 27 millj. kr. Þær liggja fyrst og fremst í samningum við sveitarfélög sem annast þjónustu við fatlaðra samkvæmt samningum við ráðuneytið. Úthlutun næsta árs liggur ekki fyrir en að teknu tilliti til þessara skuldbindinga og þeirra rekstrarverkefna sem sjóðurinn greiðir, þ.e. kostnaðar vegna félagslegrar hæfingar og kostnaðar vegna starfsemi stjórnarnefndar --- það er samtals áætlað að þessi kostnaður verði 13 milljónir --- þá mun sjóðurinn hafa til ráðstöfunar 195 millj. kr. til annarra verkefna.

Á þessu ári voru úthlutanir til viðhalds og styrkir til aðgengismála og til framkvæmdaraðila félagslegra íbúða rúmar 50 milljónir og ef úthlutanir til þessara þátta verða sambærilegar á næsta ári þá standa eftir um 150 milljónir til nýframkvæmda. Á vegum sjóðsins eru núna þrjú sambýli í byggingu og tvö eru á hönnunar- og undirbúningsstigi.

Hv. þm. spurði líka hvort og hvar leiguhúsnæði yrði að finna vegna fimm nýrra sambýla á næsta ári.

Því er til að svara að svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Reykjanesi hefur átt samstarf við tvö sveitarfélög um leigu á húsnæði fyrir sambýli, þ.e. Mosfellsbæ og Grindavík. Nýtt sambýli tók til starfa í Mosfellsbæ í sumar og sambýli tekur til starfa í Grindavík á næsta ári. Svæðisskrifstofan í Reykjavík mun á næsta ári taka á leigu húsnæði fyrir tvö sambýli sem Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið eru að byggja.

Ég svaraði reyndar spurningu hv. þm. um hvort tekið væri tillit til þarfa langveikra barna í nýju frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það er tekið tillit til langveiku barnanna. Frv. gerir ráð fyrir að langveikum börnum standi til boða sambærileg þjónusta og fötluð börn fá notið svo sem skammtímavistun, stuðningsfjölskyldur og leikfangasafnsþjónusta.

Í umræðunni var fullyrt að Framkvæmdasjóður fatlaðra hefði verið skertur í tíð núverandi ríkisstjórnar eða að á starfstíma mínum sem félmrh. hafi hann verið skertur a.m.k. um 1.200 milljónir. Ég hef látið taka þetta nákvæmlega saman. Á árunum 1995--1999, að báðum árum meðtöldum, hefur erfðafjárskatturinn skilað 2.331 milljón og innheimst af erfðafjárskatti. Þetta er talsvert mismunandi milli ára og það gerir þennan tekjustofn dálítið óráðeiðanlegan. Framlög á fjárlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra eru 1.192 milljónir á þessum árum og mismunur þessara talna er 1.139 milljónir og er það væntanlega sú tala sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var að vísa til.

Ef meðtalin væru framlög á árunum 1995 og 1996 að fjárhæð 196 milljónir, sem var uppsöfnuð inneign sjóðsins frá árunum 1994 og 1995 þá hefur sjóðurinn haft til ráðstöfunar 1.388 milljónir á þessum árum. Mismunurinn á erfðafjárskattinum og þessari tölu eru 943 milljónir.

En ef þau rekstrarverkefni sem farið var að fjármagna úr framkvæmdasjóði á árinu 1995 og voru létt af honum í fjárlögum ársins 1997 hefðu haldist óbreytt, þ.e. ef 40% af Framkvæmdasjóði fatlaðra hefðu runnið til rekstrarverkefna eins og gerði þegar ég kom í ráðuneytið þá má draga það frá og þá er sú upphæð rúmar 500 milljónir þannig að hægt er að segja með nokkrum rökum að skerðingin hafi orðið 630 milljónir eða einhvers staðar þar í kring.

Síðan hefur það gengið hér æ aftur í umræðunni að á biðlistum eftir búsetu séu tæplega 400 manns. Á biðlistum voru 378 í október 1997 og það er væntanlega sú tala sem menn hafa verið að vísa til. En í skýrslu biðlistanefndarinnar kemur fram að í lok ársins 1998 voru 338 manns á biðlista, þ.e. að beðið var um 338 úrræði. Nú þurfa sumir að fá fleiri en eitt úrræði þannig að ekki er endilega víst að um allan þenna hóp sé að ræða eða að þetta séu 338 persónur.

En sagan er ekki öll sögð því að í fjárlögum þessa árs fékkst rekstrarfjárveiting fyrir sjö sambýli, þrjú í Reykjavík, þrjú á Reykjanesi og eitt á Austurlandi og með þessum sjö nýju heimilum hafa skapast úrræði fyrir 35--40 manns.

[23:30]

Væntanlega hefur einhver nýliðun átt sér stað, þ.e. einhverjir fleiri bæst í hóp þeirra sem þurfa aðstoð en um það hef ég ekki tölur. En ef maður gerir ráð fyrir upplýsingum í biðlistaskýrslunni má reikna með að í kringum 300 manns vanti úrræði eða 300 úrræði vanti. Reyndar hefur komið í ljós að upplýsingar sem ráðuneytið hefur aflað sér í tengslum við vinnu vegna yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga benda á hinn bóginn til þess að fjöldi þeirra sem sagður er á biðlistum sé e.t.v. ofmetinn. Það má sem sagt reikna með því að beðið sé eftir um 300 úrræðum. Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti.