Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:33:54 (3348)

1999-12-17 23:33:54# 125. lþ. 48.25 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þessir peningar duga ekki til að byggja með allra dýrasta hætti þau úrræði sem áformað er að setja upp. Þar af leiðir að við þurfum að fara í leiguhúsnæði að einhverju leyti enda er eins og ég gat um bæði leiguhúsnæði í Mosfellsbæ, Grindavík og síðan frá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp sem samningar hafa verið gerðir um og vonandi tekst að gera fleiri slíka.

Eins og ég sagði um daginn er dálítið tvíbent að leggja of mikið fé í steinsteypu vegna þess að kröfurnar breytast svo hratt. Núna vilja menn ekki leggja sömu áherslu á sambýli og áður var, nú þykja stofnanir óhæfa. Við sitjum uppi með mjög myndarleg mannvirki, bæði Vonarland á Egilsstöðum, Bræðratungu á Ísafirði, sem þykja ekki heppileg lengur eða svara kröfum tímans. Þroskahjálp var að gera mjög veigamiklar samþykktir á fundi sínum um daginn og þar á meðal um búsetumál þar sem krafan var sett á að öllum fötluðum yrði fengið húsnæði í samræmi við óskir sínar og þarfir.

Nú er kannski teygjanlegt hvað óskir eru og ég hygg að yfirleitt flestar fjölskyldur á Íslandi geti farið nokkuð hátt í óskum ef því væri að heilsa.