Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:38:29 (3350)

1999-12-17 23:38:29# 125. lþ. 48.25 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:38]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ánægjulegt að það er brugðist betur við í þessum fjárlögum varðandi málaflokk fatlaðra en undanfarin ár. Mér finnst ánægjulegt að sjá það og ég hefði líka orðið mjög undrandi á því í þessu mikla góðæri og auknu tekjum ef það hefði ekki verið.

Í máli ráðherrans kemur fram að af þeim sjö sambýlum sem er fyrirhugað að byggja eru þrjú á Reykjanesi. Ég hlýt að benda ráðherranum á að það er búinn að vera svo mikill vandi í Reykjanesi og það er alveg sama í hvaða bæjarfélag við þingmennirnir höfum komið í þingmannaheimsóknir til á liðnum árum að alls staðar er eiginlega hrópandi krafa á okkur að fylgja eftir þessum málaflokki og allir eru með á hreinu hver þörfin er fyrir stofnkostnað og hver þörfin er fyrir rekstur og allir vita að þarna er um að ræða hátt á annan milljarð. Það er þannig að þegar dregið hefur verið úr að fylgja þörfinni eftir þá kemur tímabil sem kallar bara á meiri innspýtingu. Það er því spá mín að næstu ár verði erfiðari en hefði þurft að vera ef betur hefði verið gert á liðnum árum.

Ráðherrann nefndi í framhaldi af þessum 300 úrræðum að e.t.v. væri um það að ræða, fyrir utan byggingar, að fara í leiguhúsnæði og ég held að það eigi ekkert að neita því, það á að skoða alla þætti. Auðvitað skiptir máli að gera þeim sem það geta unnt að komast í félagslegar íbúðir en sá kostur hefur nú líka verið þrengdur. En það er skoðun mín að það þurfi að vera blanda af þessu öllu, ákveðnar stofnanir, sambýli, úrræði af ýmsu tagi og íbúðir.