1999-12-18 00:04:04# 125. lþ. 48.30 fundur 241. mál: #A bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna# frv. 27/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar viðtökur sem frv. hefur fengið, en vegna spurningar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur vil ég láta koma fram að samkomulag var í þessari þríhliða nefnd um þetta orðalag. Það var samkomulag bæði milli aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa félmrn. um orðalagið. Þar af leiðandi er ég heldur mótfallinn því að farið sé að breyta orðalaginu. Þetta er viðkvæmt umræðuefni og hefur eins og hér hefur komið fram þurft langan meðgöngutíma að ná þó þetta langt og ég er frekar mótfallinn því að fara mikið að rugga bátnum. Ég tel að réttur starfsmanna sé nefnilega fyllilega tryggður með þessu orðalagi. Atvinnurekandi verður að hafa fleira á starfsmanninn en fjarvistir vegna fjölskyldumála eða fjölskylduábyrgðar, ef hann ætlar að reka hann. Náttúrlega er aldrei hægt að banna atvinnurekanda algjörlega að losa sig við starfsmann sem hann getur ekki notað eða vill ekki nota, það er ekki tiltækilegt, en honum er bannað að nota eingöngu fjölskylduábyrgð eða fjarvistir vegna fjölskylduábyrgðar starfsmannsins til að reka hann. Hann verður að hafa fleira sem hann getur vitnað til, til að starfsmaðurinn sé sem sagt ekki rekinn vegna fjölskylduábyrgðar. Ég tel því að þetta sé engin hætta fyrir starfsmanninn.

Hitt er aftur á móti alveg rétt sem hv. þm. benti á að viss hætta er á að atvinnurekendur forðist frekar að ráða starfsfólk sem þeir vita að á aðstandendur sem þarfnast kannski óvenjumikillar umönnunar, því búast má við meiri fjarvistum hjá t.d. foreldrum langveikra barna en þeirra sem eiga heilbrigð börn eða engin börn og það er hægt að ímynda sér að einhverjir ribbaldar noti sér það, þ.e. forðist að ráða starfsmenn sem þeir vita að eiga langveik börn. Eins er það líka ekki alveg einfalt mál að skylda atvinnurekandann til þess að upplýsa í öllum tilfellum af hverju hann lætur starfsmann fara, og þá er ég ekki að tala um út af fjölskylduábyrgðinni því hún á að vera tryggð að þessu frv. settu. Það er ekki endilega víst að það sé hentugt fyrir starfsmanninn að hann fari með ásökun frá vinnuveitanda á bakinu og hafi það á bakinu allt lífið. Þetta er umhugsunarefni þó að í flestum tilfellum sé kannski eðlilegt að a.m.k. starfsmaðurinn viti af hverju hann er rekinn.