1999-12-18 00:15:35# 125. lþ. 48.29 fundur 22. mál: #A iðnaðarlög# (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.) frv. 133/1999, Frsm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:15]

Frsm. iðnn. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. iðnn. á þskj. 389, um frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnrn. og Guðmund Þ. Jónsson og Garðar Vilhjálmsson frá Landssambandi iðnverkafólks. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Verkamannasambandi Íslands og Landssambandi iðnverkafólks, Sambandi iðnmenntaskóla, Matvæla- og veitingasambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samiðn og menntmn. Alþingis.

Með frv. er annars vegar ætlunin að leysa úr vanda sveina við að fá meistarabréf í iðngrein sinni ef ekki er völ á meistara í greininni. Hins vegar er lagt til að skilið verði á milli hlutverks menntmrh. varðandi menntun í löggiltum iðngreinum og þess hlutverks iðnrh. að veita mönnum starfsréttindi.

Í umsögn Matvæla- og veitingasambands Íslands (Matvís) kemur fram að eftirliti lögreglustjóra með framkvæmd laganna sé ábótavant. Nefndin leggur áherslu á að eftirlitið verði eflt, með aðstoð iðnráða, sbr. 2. og 14. gr. iðnaðarlaga.

Nefndin óskaði formlegrar umsagnar menntmn. um málið og fékk menntmn. á sinn fund gesti frá menntmrn., iðnrn., Félagi framhaldsskólakennara, Iðnnemasambandi Íslands og Samtökum iðnaðarins. Í umsögn sinni lýsir menntmn. yfir stuðningi við efni frv.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

,,Inngangsmálsgrein 3. gr. orðist svo:

Í stað 3. mgr. 12. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi.``

Komið hefur í ljós að flytja þarf örlitla brtt. við gildistökugrein frv. og mun formaður iðnn. mæla fyrir þeirri brtt. við 3. umr.

Allir nefndarmenn iðnn. skrifa undir nál. en það eru hv. þingmenn Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Drífa Hjartardóttir, Sturla D. Þorsteinsson, Pétur H. Blöndal, Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni Steinar Jóhannsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir.