1999-12-18 00:18:07# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, Frsm. VS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:18]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 439 um frv. til laga um Byggðastofnun frá allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Malmquist og Bjarka Bragason frá Byggðastofnun og Ólaf Sveinsson frá Atvinnuráðgjöf Vesturlands.

Frv. þetta er flutt í samræmi við þá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands, skipan ráðuneyta og verkefni þeirra á kjörtímabilinu en þáttur í því er að færa Byggðastofnun frá forsrn. til iðnrn. Einnig eru lagðar til ýmsar breytingar frá gildandi lögum um stofnunina. Meðal þeirra er áherslubreyting á hlutverki stofnunarinnar, skipun stjórnar, stjórn verði falið að hafa frumkvæði að verkefnum á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar og stjórn verði heimilt að fela forstjóra að ákvarða lánveitingar stofnunarinnar að hluta eða öllu. Lagt er til að haldinn verði ársfundur Byggðastofnunar fyrir 1. júlí ár hvert. Einnig er lagt til að byggðaáætlun verði endurskoðuð á tveggja ára fresti en áfram er gert ráð fyrir að hún verði gerð fyrir fjögurra ára tímabil. Að mati nefndarinnar er hér um jákvæðar breytingar að ræða og eru nefndarmenn á einu máli um að margt af því sem lagt er til í frv. sé til bóta.

Við meðferð málsins hjá nefndinni var rætt nokkuð um 3. mgr. 9. gr. þar sem lagt er til að Byggðastofnun geti gert samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Nefndarmenn telja að hér geti hugsanlega verið um of opna heimild að ræða. Ákvæðið geti orðið til þess að ráðgjöfin verði afmörkuð við of þröng svið eða svæði í stað þess að atvinnugreinar styðjist hver við aðra og t.d. gæti þróunin orðið sú að komið yrði á stofn atvinnuþróunarmiðstöðvum. Nefndin sér þó ekki ástæðu til að flytja brtt. um þetta atriði en leggur áherslu á að ákvæðinu sé beitt á samræmdan hátt.

Gunnar Ingi Gunnarsson gerir þann fyrirvara að ef sú ákvörðun að flytja Byggðastofnun frá forsrn. til iðnrn. er liður í því að setja öll atvinnumál undir eitt ráðuneyti þá geti hann fallist á það skref.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásta Möller, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Fjeldsted, Helga Guðrún Jónasdóttir, Ólafur Örn Haraldsson og Pétur H. Blöndal, og með fyrirvara hv. þingmenn Guðrún Ögmundsdóttir og Gunnar Ingi Gunnarsson.