1999-12-18 00:59:12# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[24:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt, hv. þm. Guðmundur Bjarnason, sem við þekkjum bæði, ég og hv. ræðumaður, bað mig að taka sæti í nefnd til undirbúnings að stofnun Lánasjóðs landbúnaðarins og ég féllst á það eftir nokkra umhugsun. Af einhverjum undarlegum ástæðum taldi þessi framsóknarmaður að það væri eftir einhverju að slægjast væntanlega að fá þann sem hér talar í það verkefni. Það lá yfirleitt nokkuð vel á mér í því starfi og ég tel að við höfum leyst það verkefni nokkuð vel af hendi að koma sjóðnum á koppinn og semja frv. og ganga frá þeim málum. Ekki verra en það að hæstv. þáv. landbrh. bað okkur um að halda áfram sem fyrstu stjórn sjóðsins, sem unnum þetta verk að koma honum á laggirnar. Það er kannski ekki alveg sambærilegt við þetta mál, en hitt get ég vel viðurkennt að mér fyndist koma prýðilega til greina að kjósa í slíka stjórn þverpólitískri kosningu.

[25:00]

Miklu frekar á þá að gera það í tilviki stofnunar eins og Byggðastofnunar ef sú stofnun á að hafa eitthvert þverpólitískt bakland og stuðning og ef hún á að vera vettvangur skoðanaskipta og stefnumótunar í byggðamálum á Íslandi þar sem öll sjónarmið í aðalatriðum koma fram. Langeðlilegasta aðferðin til að tryggja það er að kjósa henni þverpólitíska stjórn. Þetta er stofnun með nokkuð sérstök verkefni held ég að menn eigi að viðurkenna. (KHG: Er ekki stjórnin þverpólitísk núna?) Í Byggðastofnun? (KHG: Í lánasjóðnum.) Það má sjálfsagt segja það. En það er engin minnsta trygging fyrir því, eins og dæmin sýna, að svo verði þegar komið er út í þetta. Það getur orðið mjög tilviljanakennt, eins og dæmin sýna, hvað einstökum ráðherrum býr í hug og hvernig þeir tilnefna í slíkar stjórnir, enda eigum við ekkert að láta það ráðast af duttlungum og öðru slíku heldur nálgast það frá öðrum sjónarhóli, reyna að hafa þetta á faglegum nótum.

Herra forseti. Ég endurtek það bara að lokum að ég held að menn séu að ramba hér á versta fyrirkomulagið af þessu. Annaðhvort ætti þetta að vera tiltölulega sjálfstæð, óháð stofnun með sterka þverpólitíska stjórn á bak við sig eða vera hrein stjórnsýslustofnun sem heyri þá beint undir ráðherrann milliliðalaust.