1999-12-18 01:01:29# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[25:01]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um Byggðastofnun. Þetta er ein aðalumræðan um frv. og ég fagna því að hæstv. forsrh. er viðstaddur hana.

Herra forseti. Mig langar fyrst til að fara aðeins í gegnum nokkrar greinar og benda á atriði sem mér finnst að nefndin hefði átt að skoða. Það ber ekki að skoða það þannig að ég telji að þetta frv. sé efnislega merkilegt. Ég tel reyndar að það sé efnislega frekar ómerkilegt gagnvart þeim málaflokki sem það á að fjalla um. Þó vil ég leyfa mér að benda á nokkur atriði í greinunum sem mér hefði fundist að hv. allshn. sem hafði málið til umfjöllunar hefði átt að skoða.

Það er í fyrsta lagi 1. gr. Þar er breyting frá því sem áður var þannig að Byggðastofnun verður sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins, en ekki sjálfstæð stofnun, og heyrir undir yfirstjórn iðnrh. Það er verið að gera hana að skrifstofu eða deild í iðnrn. Það getur svo sem verið markmið út af fyrir sig og getur verið skynsamlegt að gera þetta að einu verkefnasviði á vegum einhvers ráðuneytis. Mér hefði þá fundist að það hefði átt að fylgja þeirri hugmynd til enda ef sú leið yrði valin.

Í 2. gr. er rætt um verkefni hennar og að hún eigi m.a. að stunda gagnasöfnun. Drottinn minn dýri, það þarf ekki að stofna eina stofnunina enn til að stunda gagnasöfnun í byggðamálum. Það er búið að safna svo miklum af gögnum og svo mörgum skýrslum í byggðamálum að það fyllir sjálfsagt marga kassa og er allmörg kíló. Það er virkilega kominn tími til aðgerða, herra forseti, í stað þess að safna fleiri og fleiri gögnum og láta svo þar við sitja.

En viðbótin er að hún á líka að vera rannsóknastofnun. Það eru nú rannsóknastofnanir á vegum atvinnuveganna. Sumir hafa látið að því liggja að þær væru svo sem nógu margar og að þar mætti sameina og hagræða og gera þær virkari, færa rannsóknirnar meira út til menntastofnana og tengja þær enn betur atvinnulífinu. Mér finnst þess vegna verið að bera í bakkafullan lækinn að ætla að stofna eina rannsóknastofnunina enn á sviði byggðamála. Landbrn. og sjútvrn. eru með rannsóknastofnanir. Sjútvrn. er með rannsóknastofnanir. Iðnrn. er með í rannsóknastofnun og þróunarstofnun þannig að ég get ekki skilið hvað þarna er á ferðinni.

Herra forseti. Í 3. gr. er talað um ársfund og að iðnrh. skipi formann og varaformann og ákveði þóknun stjórnar. Þar sem þetta er nánast eins og einhver skrifstofa í ráðuneytinu, meira svona nefnd frekar en stjórn þó það sé látið heita svo þarna, þá hefði ég viljað varpa því til nefndarinnar sem hefur þetta til umfjöllunar hvort ekki hefði verið eðlilegra að þóknunarnefnd hefði ákveðið þessa þóknun til þeirra því að hún hefur miklu frekar þá stjórnsýslulegu stöðu að þóknunarnefnd fjalli um þetta en að það sé gert öðruvísi. Það er óeðlilegt að ráðherra skipi bæði mennina í stjórnina og ákveðið líka þóknun þeirra þannig að þarna hefur hann tvívirkt vald og áhrif í þessu. Það er óeðlilegt og það hefði verið eðlilegra ef þóknunarnefnd hefði ákveðið laun þessarar nefndar eða stjórnar.

Stjórnsýsluleg staða þessarar stofnunar eða skrifstofu er ítrekuð enn frekar í 7. gr. um byggðaáætlun. Þar er ítrekað að iðnrh. skuli vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun og að við gerð byggðaáætlunar hafi iðnaðarráðherra samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum. Þetta undirstrikar enn, herra forseti, að það er bara verið að gera þetta að svona stjórnsýslulegu verkefni á vegum iðnrh.

Í 8. gr. er enn verið að tala um og ítreka að Byggðastofnun skuli vinna að gagnasöfnun, safni gögnum og búi til skýrslur. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir hana að blaða í gegnum og vigta þessar skýrslur sem þegar er búið að gera í byggðamálum, rannsaka þær og dusta af þeim rykið. Ekki hafa þær svo mikið verið notaðar.

Ég ítreka það enn, herra forseti, að orðið rannsóknir slær mig líka og ég skil ekki hvaða erindi það á þarna inn.

Síðan er 11. gr. um veitingu lána og ábyrgða þar sem gert er ráð fyrir því að þessi nýja Byggðastofnun geti veitt lán eða ábyrgðir í samræmi við hlutverk sitt. Ég beini þeirri eindregnu áskorun til nefndarinnar að hún láti kanna stjórnsýslulega stöðu þessarar nýju Byggðastofnunar og hvort hún hafi heimild til þess að veita lán, hvort stjórnsýsluleg staða hennar sé ekki slík að lánveitingar séu í sjálfu sér ekki heimilar. Þetta er bara eins konar skrifstofa í ráðuneyti og því hefði verið ástæða til að kanna hvort hún hefur nokkra heimild til þessa.

Herra forseti. Hér er verið að véla um frv. til laga um Byggðastofnun sem annars vegar felur í sér að stórminnka þau völd og áhrif sem núverandi Byggðastofnun hefur. En aðalmarkmiðið er bara hrókeringar, þ.e. að finna ný störf fyrir stjórnarflokkanna. Það er ekki verið að taka á byggðamálum, ekki aldeilis. Áhuginn á byggðamálum birtist meira að segja í fjárlögunum sem við vorum að afgreiða. Að vísu var eftir verulegan þrýsting veitt nokkuð til sveitarfélaganna til að létta stöðu þeirra við afgreiðslu fjáraukalaganna. En í megindráttum er ekki tekið á byggðamálum. Jú, á hrossamiðstöðinni í Skagafirði. Hún var náttúrlega líka gott og mikið byggðaátak.

Herra forseti. Þá vil ég víkja einmitt að þessari mannfjöldatölu sem nýkomin er út. Hún sýnir hvað hægt er að gera í byggðamálum. Hún sýnir að ef verkefni, þróunarverkefni, þekkingarverkefni eru falin stofnunum úti á landi þá hefur það áhrif. Ég bendi á að á Vesturlandi fjölgaði t.d. lítillega á Hvanneyri, þ.e. landbúnaðarháskólanum. Og á Norðurlandi vestra á Hólum í Hjaltadal fjölgaði íbúum um 18,8% á árinu, enda er líka verið að byggja þar upp mikinn þekkingariðnað þannig að það er hægt að ná árangri. (KHG: Vinna við skýrslugerðir.) Það er ekki vinna við skýrslugerðir. Það er unnið hörðum höndum og það er vinna með huga og hönd og það þarf til, en ekki að vinna eins og Byggðastofnun við að safna skýrslum og sitja með hendur í skauti.

Hvað gerðist í vegamálum við afgreiðslu fjárlaga? Lögð var þung áhersla, meira að segja af núverandi Byggðastofnun, að sérstakt átak yrði gert í byggðavegum, í sveitavegum. Á það var lögð sérstök áhersla. Stjórnarformaður Byggðastofnunar kom á fund fjárln. og lagði þunga áherslu á að lykilatriði í að efla byggðir landsins væri að auka fé til þessara sveitavega eða byggðavega eins og hann kallaði þá. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði studdum þetta og fluttum um það tillögu á Alþingi.

Nei, meiri hluti alþingismanna var uppteknari af því hvernig hann gæti hrókerað á milli ráðuneyta og fundið ný störf frekar en að vinna að byggðamálum og sá ekki ástæðu til að samþykkja þessa tillögu.

Ég vil nefna jarðgangamál. Vitað er að veruleg samgöngubót yrði að gera jarðgöng til Siglufjarðar, á Austfjörðum og Vestfjörðum. Það er ekki gert ráð fyrir því að vegáætlun fjármagni jarðgöng eða jarðgangaundirbúning heldur á að gera það með sérstökum fjárveitingum. Til þess að þau verkefni geti haldið áfram á fullum hraða, þ.e. undirbúningurinn --- en ekkert hefur reyndar gerst á síðustu árum í jarðgöngum á vegum ríkisins --- þá þarf að leggja í hönnunar- og rannsóknarvinnu. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá Vegagerðinni þyrfti 200--300 millj. að lágmarki til þess að sú vinna geti haldið áfram ef stefnt er að því að hægt sé að ráðast í göng á Austfjörðum eftir eitt til tvö ár og á Siglufirði eftir tvö til þrjú ár með því að allt gangi hratt fyrir sig.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð lagði fram tillögu um 200--300 millj. kr. þannig að undirbúningurinn að þessu verki gæti gengið á fullu. Nei, meiri hlutinn var uppteknari af því hvernig hann gæti hrókerað Byggðastofnun á milli ráðuneyta en að vita hvernig hægt væri að gera gagn og taka á í byggðamálum. Og meira að segja, herra forseti, þá voru það einungis þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem studdu þessa tillögu. Það gerðu ekki einu sinni þingmenn Samfylkingarinnar sem hefðu þó líka átt að geta leitt hugann að því að hægt væri að gera gagn og taka á í byggðamálum. Nú er því ekki neitt fjármagn veitt á fjárlögum til þess að undirbúa jarðgangagerð og að óbreyttu standa þau mál nú óhreyfð þetta árið.

Herra forseti. Það er ekki hægt að gera eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði: ,,Við erum núna að ræða það stjórnarflokkarnir hvernig það megi gera hugsanlegt átak í byggðamálum og ætlum að kanna það á næsta ári hvað verður hægt að setja af fé af sölu ríkiseigna í byggðamál.`` Herra forseti. Fjárlög fyrir árið 2000 hafa verið afgreidd. Þau hafa verið afgreidd og það er búið að gagnrýna það svo mikið við fjárlagagerð að menn ættu ekki að koma hlaupandi með fjáraukalög og aukafjárveitingar. Menn eiga að setja vilja sinn fram við gerð fjárlaga fyrir næsta ár þannig að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og aðrir góðir framsóknarmenn sem véla um aðgerðir í byggðamálum eru búnir að fresta þessu a.m.k. um eitt ár. (Gripið fram í.) Og ég sé ekki einu sinni að þá komi þeir með tillögur til úrbóta.

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lögðum líka til bráðaaðgerðir vegna sauðfjárbænda, lítinn stuðning sem gæti þó fleytt þeim og styrkt þá inn á næsta ár þangað til að nýr sauðfjársamningur kæmi til sögunnar. Vitað er að fjárhagsstaða sauðfjárbænda er mjög víða veik. Við lögðum til að lagt yrði til fjármagn til þess að styrkja þá. Það gæti deilst út á gæruverðið og mundi bæði virka sem tekjur til sauðfjárbænda og en verða líka til þess að styrkja stöðu gæruiðnaðarins og til að halda stöðu hans uppi. Nei, herra forseti, þessi tillaga, þessi afarbrýna tillaga fyrir sauðfjárbændur var felld. Meiri hlutinn var uppteknari af því að velta því fyrir sér hvernig hann gæti hrókerað og búið til Byggðastofnun sem hefði það hlutverk að safna skýrslum og gögnum en að vita hvernig ætti að taka á vandandum í byggðamálum.

Herra forseti. Ég harma það að umræðan um byggðamál á Alþingi skuli fremur snúast um hrókeringar á mönnum og hvernig hægt er að koma þeim fyrir sem hluta einhvers stjórnarsáttmála en raunverulegum og marktækum byggðaaðgerðum í landinu.