1999-12-18 01:15:43# 125. lþ. 48.13 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[25:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í reynd er verið að leggja Byggðastofnun niður sem sjálfstæða kröftuga stofnun. Þess í stað er eitt tiltekið ráðuneyti eflt, eitt atvinnumálaráðuneytanna, iðnrn.

Komið hefur fram gagnrýni á veikleika í stjórnsýslulegri stöðu Byggðastofnunar innan kerfisins. Það hefur verið bent á að stjórnin sé kosin af Alþingi en framkvæmdastjórinn heyri undir forsrn. og þarna séu óljós tengsl sem séu slæm fyrir starfsemi stofnunarinnar. Mín skoðun er sú að menn hefðu átt að fara í gagnstæða átt við það sem kveðið er á um í þessu frv. og efla Byggðastofnun sem sjálfstæða stofnun með stjórn sem kosin er af Alþingi.

Byggðastofnun er lánastofnun. Hún lánar fé, ætli það sé ekki upp á hálfan annan milljarð rúman. Ég hefði viljað efla þennan þátt í starfi Byggðastofnunar og þess vegna hefði að mínum dómi verið hyggilegt að sameina hana sjóði sem núna hefur nýverið verið einkavæddur og seldur, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég hefði talið betra að sameina Byggðastofnun og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og gera stofnunina að sjálfstæðu tæki í byggðaþróun landsins. Þess í stað er hún tekin, henni pakkað saman og hún sett inn í iðnrn. Iðnrh. fær algjört vald yfir stofnuninni, hann einn skipar stjórnina, ákveður henni þóknun og setur ýmsar starfsreglur.

Ég tel að til greina hefði komið að fara þá leið að gera hana að sjálfstæðri stofnun og þess vegna færa undir eitt ráðuneyti ef við hefðum komið á raunverulega atvinnumálaráðuneyti. Staðreyndin er sú að það höfum við ekki gert. Veigamiklir þættir í starfi Byggðastofnunar lúta að sjávarútveginum, landbúnaðinum og öllum þáttum atvinnulífsins. En hér er verið að þrengja sjónarhornið og færa hana undir eitt ráðuneyti. Ég tel að þetta séu vanhugsaðar breytingar og lýsi andstöðu við þetta frv.