Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:27:57 (3392)

1999-12-18 10:27:57# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er fráleitt, ómanneskjulegt og út í hött að loka Barnahúsinu sem er það besta sem gerst hefur í barnaverndarmálum í marga áratugi. Þjónusta Barnahússins auðveldar ungum börnum að ganga í gegnum þá hræðilega erfiðu lífsreynslu sem kynferðisleg misnotkun er, martröð í lífi þessara barna. Hæstv. dómsmrh. getur auðveldað börnum þetta kvalræði, að ganga í gegnum kæru og meðferðarferli ef þau verða fyrir kynferðislegri misnotkun.

Ég skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér a.m.k. fyrir því að börn að 14 ára aldri sem beitt hafa verið kynferðislegri misnotkun verði áfram í umsjá Barnahússins. Það getur hún gert með því að beina til dómsmálaráðs að reglur verði settar þar að lútandi eða breyta núgildandi lögum þannig að lögregla og ákæruvald beri ábyrgð á skýrslutökunni. Hún getur a.m.k. beitt sér fyrir því að börn undir 14 ára aldri fái áfram skjól í Barnahúsinu. Ábyrgð hæstv. dómsmrh. er mikil að bregðast við í þessu máli. Þetta er ákall um að skjóli barna sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi verði ekki lokað.

Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir orð hans áðan. Hann er greinilega mikill stuðningsmaður Barnahússins og við hljótum að treysta á atbeina hans til að Barnahúsið fái áfram að sinna því verkefni sem það var upphaflega stofnað til. Ég fullyrði að enginn þingmaður sem greiddi atkvæði með lögunum um meðferð opinberra mála á síðasta þingi taldi sig vera að loka Barnahúsinu, miklu fremur að styrkja það. Það var skoðun allra, líka Barnahússins sjálfs, að við værum að styrkja það með þessu ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála.

Ég skora á hæstv. dómsmrh. að bregðast við þeim vilja þingsins sem hér kemur fram og áskorun sem fram hefur komið frá Barnaverndarstofu um að þetta hús fái að starfa áfram. Það væri hrein hneisa ef ekkert yrði að gert í þessu máli.