Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 11:03:12 (3405)

1999-12-18 11:03:12# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og þakka mjög kröftugar undirtektir þingmanna sem hér hafa tekið til máls. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góðar undirtektir. En, herra forseti, mér fannst þær allt of linar. Ég bara segi það eins og er. Þetta er mál sem verður að taka föstum tökum því að kerfið er svo sjálfvirkt hér að þó að vel meinandi ráðherrar og þingmenn sitji, þá rekur það sig sjálft, byggir upp og framkvæmir óháð því hvað fjárveitingavaldið eða löggjafarvaldið segir. Þess vegna, herra forseti, er þetta allt of lint hjá hæstv. landbrh.

Ég hefði viljað heyra hann segja: Við ætlum markvisst að taka þessi verkefni og flytja þau út á land. Ég bendi á að Hólar eru ein stærsta rannsóknastofnun á eigin vegum, á eigin ábyrgð utan Reykjavíkursvæðisins og svo er verið að byggja upp rannsóknastarfsemi á Akureyri. En það hefur háð Akureyrarskólanum að hann er með rannsóknastarfsemi sem er útibú frá stofnunum í Reykjavík. Eins er með háskólann á Hvanneyri. Þetta eru stærstu og öflugustu og mikilvægustu landsbyggðarstofnanirnar. Þess vegna, herra forseti, tel ég að þarna þurfi að taka miklu öflugar á, ekki bara henda í ruslafötuna eins og hv. þm. Einar Oddur sagði, heldur snúa við og keyra málin út. Það er engin lausn að henda í ruslafötu. Það verður að gera eitthvað meira og eftir því bíðum við. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum fylgja þessu máli enn frekar eftir, hæstv. landbrh., á þingi eftir áramót.