Byggðastofnun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 11:14:44 (3410)

1999-12-18 11:14:44# 125. lþ. 49.2 fundur 224. mál: #A Byggðastofnun# (heildarlög) frv. 106/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[11:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessari málsgrein er lögð til sú ógæfulega skipan mála að hæstv. iðnrh. er einum falið að skipa sjö menn í stjórn Byggðastofnunar og aðra sjö til vara. Þetta held ég að sé versta útgáfan af nokkrum kostum sem í boði voru í þessum efnum. Eðlilegast hefði verið, herra forseti, að áfram væri þingkjörin og þverpólitísk stjórn fyrir þessari stofnun. En hafi menn af því áhyggjur, eins og mér skilst núna, að ekki hafi verið það sem kallað er á fínu máli stjórnsýslusamband milli ráðherra og stofnunarinnar, þá hefði verið eðlilegra að velja hinn kostinn og gera þetta að venjulegri ríkisstofnun sem heyrði beint og milliliðalaust undir ráðherra og án sýndarmennskustjórnar af þessu tagi sem er handvalin af einum póltískum ráðherra.

Herra forseti. Ég spái því að gangi þetta eftir þá verði þetta upphafið að endalokum þessarar stofnunar sem einhvers sem máli skiptir í byggðamálum á Íslandi.