Ráðstöfun erfðafjárskatts

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 11:39:05 (3415)

1999-12-18 11:39:05# 125. lþ. 49.14 fundur 273. mál: #A ráðstöfun erfðafjárskatts# (greiðslur í ríkissjóð 2000) frv. 111/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Minni hluti félmn. leggur til að þetta frv. verði fellt. Skerðingin á mörkuðum tekjum Framkvæmdasjóðs fatlaðra er úr öllu hófi miðað við áætlanir hæstv. ríkisstjórnar. Aðeins er gert ráð fyrir því að um 150 millj. kr. verði til ráðstöfunar til nýframkvæmda af heildartekjum sjóðsins upp á a.m.k. áætlaðar 575 millj. kr. og er það þó líklegt að um vanmat verði að ræða. Þetta gerist, herra forseti, mitt í hinu margrómaða góðæri og þrátt fyrir að fyrir liggi mikil verkefni sem sjóðurinn sér sér ekki fært að sinna, bæði hvað varðar húsbyggingar og að stytta biðlista eftir húsnæðisúrræðum, hvað varðar þátttöku Framkvæmdasjóðs fatlaðra í mörgum öðrum brýnum framfaramálum á þessu sviði, svo sem að bæta aðgengi fatlaðra, viðhalda húsnæði, þátttöku í samstarfsverkefnum með félagasamtökum fatlaðra og fleira mætti þar telja.

Þessi hraksmánarlega útreið á framkvæmdasjóðnum, herra forseti, er Alþingi ekki til sóma verði hún samþykkt hér.