Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 13:45:42 (3420)

1999-12-18 13:45:42# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í upphafi ræðu sinnar sagði hv. þm. ýmislegt og var með ásakanir á hendur skipulagsstjóra vegna þess að skipulagsstjóri hefur kveðið upp úrskurð um að fara skuli fram framhaldsmat á álverinu sem reisa á í Reyðarfirði. Þar eru þrettán atriði tínd til sem ástæður fyrir því að það þurfi á þessu mati að halda. Skipulagsstjóri upplýsir að honum hafi verið neitað um að meta fyrsta áfanga sér. Hv. þm. talaði um þetta líkt og hann væri með ásakanir á hendur skipulagsstjóra fyrir að hafa kveðið upp úrskurðinn. Þegar þeir hafa sjálfir klúðrað málum með þeim endemum sem raun ber vitni og gert það að verkum að Norsk Hydro getur ekki tekið afstöðu til málsins fyrr en eftir að fyrir liggur hver niðurstaðan verður um umhverfismat geta þeir auðvitað ekki komið þessu máli á skipulagsstjóra.