Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:02:38 (3436)

1999-12-18 14:02:38# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa gerst alvarlegir og ámælisverðir hlutir. Hv. formaður iðnn. kemur fram með ákaflega ósæmilegar og illa rökstuddar staðhæfingar gagnvart háttvirtum embættismanni sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér. Við í minni hlutanum höfum rökstudda ástæðu til að ætla að hv. þm. Hjálmar Árnason fari hér með fleipur og ekki í fyrsta sinn í þessari umræðu.

Herra forseti. Hv. þm. kemur í þennan stól og heldur því fram að skipulagsstjóri ríkisins hafi vísvitandi og aðspurður leynt tilteknum upplýsingum. Herra forseti. Þær upplýsingar varða að vísu ekki framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun heldur við álverið. Hv. formaður iðnn. kaus hins vegar að draga málið inn með þessum hætti. Hann fór með þessar dylgjur og sagði það afskaplega alvarlegt að sitja á fundi og leyna upplýsingum sem spurt væri um. Síðar virtist hv. þm. að vísu --- og það sýnir dylgjueðli ásakananna --- draga í land með því að segja: ef embættisfærslur eru vafasamar. Fyrst kemur hv. þm. og slær viðkomandi embættismann þungu höggi en dregur síðan í land og segir að það sé ekki alveg víst.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. kemur hér með nýjar upplýsingar inn í málið. Hann segir að iðnn. hafi verið leynd mikilvægum gögnum. Einnig er ljóst að hann hefur atað þennan embættismann auri án þess að hann eigi kost á að svara fyrir sig. Undir þessu, herra forseti, getur þingið ekki setið. Þess vegna er það krafa stjórnarandstöðunnar að þessum fundi verði frestað og kallað verði til fundar í iðnn. til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort dylgjur hv. þm. eiga við rök að styðjast eða hvort hann er hér vísvitandi að misbeita þessum ræðustóli til að ráðast á starfsmann ríkisins sem flokkur hans hefur raunar lagt í einelti hingað til í þessu máli.