Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 15:21:19 (3456)

1999-12-18 15:21:19# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 2. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Í dag stöndum við á Alþingi og slitinn hefur verið í sundur friðurinn. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stendur svo fávíslega að málum að ósætti og heift sundra þjóðinni. Ráðamenn sem virða ekki tilfinningar fólksins til landsins og náttúrunnar en kynda ódrengilega og ósæmilega undir ósætti landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þeir standa sjálfir fyrir mestu lífskjararöskun og menningarslysi á landsbyggðinni sem sögur fara af.

Þjóðkjörnum fulltrúum er neitað um tíma, neitað um rök, neitað um upplýsingar í afdrifaríku máli sem varðar náttúruauðæfi, svimandi fjárupphæðir og byggðir sem eiga í vök að verjast.

Þetta mál ríkisstjórnar Davís Oddssonar er ónýtt. Samt á að keyra það í gegn, gegn náttúru og umhverfi, gegn lýðræðislegum vinnubrögðum, gegn fólkinu í landinu. Þvílík fákænska, þvílík fásinna þegar upp rennur ný sól á nýrri öld.

Herra forseti. Ég gagnrýni vinnubrögð stjórnvalda. Ég gagnrýni þau fyrir að hafa ekki skoðað hagkvæmari og minna viðkvæma kosti á þeim tíma sem hefur gefist frá því að síðast var verið að skoða virkjanir og álver. Allt frá árinu 1991 hefur legið fyrir tillaga frá Orkustofnun um Hraunavirkjun meiri. Fyrsti áfangi hennar yrði nægilega stór fyrir álver í Reyðarfirði. Orkuverð frá Hraunavirkjun yrði samkvæmt mati Orkustofnunar 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun og hún gæti orðið tvöfalt stærri í heild. Sérstaklega verður að átelja harðlega þau forkastanlegu vinnubrögð stjórnvalda að láta ekki skoða ítarlega þennan kost og að ætla að sökkva Eyjabökkum án þess að nýta að fullu þá orkuöflunarkosti sem þarna eru fyrir hendi.

Stórfelld fjárhagsleg áhætta fylgir þessari framkvæmd. Þeim sem er ætlað að taka þessa áhættu ...

(Forseti (ÍGP): Forseti vill minna hv. þingmenn á að það er einn fundur í þingsalnum og ekki fleiri.)

Ég vil þakka forseta fyrir að vera röggsamur á forsetastóli. Það er hvimleitt þegar þingmenn halda fund með fagráðherranum á sama tíma og talsmaður þingflokks mælir fyrir aðalviðhorfi flokks síns.

(Forseti (ÍGP): Enn minnir forseti hv. þingmenn á að það er einungis einn þingfundur í gangi í einu.)

Ég þakka forseta.

Herra forseti. Það sem ég var að víkja að í inngangi máls míns er að stórfelld fjárhagsleg áhætta fylgir þessari framkvæmd. Íslenskum aðilum er fyrst og fremst ætlað að taka þessa áhættu. Þar má fyrst nefna Landsvirkjun en þar að auki lífeyrissjóði landsmanna og innlendar fjármálastofnanir. Um þetta berast æ fleiri vísbendingar. Margir virtir efnahagssérfræðingar hafa lagt fram útreikninga sem benda eindregið til þess að þetta verkefni geti ekki borið sig.

Virðulegi forseti. Alvarlegt er að hlusta á formann iðnn. sem bætist í þann kór sem segir að hér séu átök á milli landsbyggðar og suðvesturhorns. Þetta er fáheyrður málflutningur. Aðalmálið og það stærsta er að hér á að fara í framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun án þess að fara að lögum sem Alþingi hefur sett um mat á umhverfisáhrifum og um það mun ræða mín að mestu leyti snúast hér í upphafi umræðunnar, herra forseti.

Ég mun víkja að nefndaráliti Samfylkingarinnar en vil taka sérstaklega fram að umhvn. var falið að fjalla um umhverfisþátt þessa máls og að umhvn. skilaði áliti til iðnn. Það álit fylgir með nefndaráliti Samfylkingarinnar sem og bréf fulltrúa Samfylkingarinnar og vinstri grænna þar sem þeir taka undir álit Katrínar Fjeldsted og Ólafs Arnar Haraldssonar frá umhvn. þannig að álit þeirra er stutt í einu og öllu fimm þingmönnum.

Herra forseti. Bréf fulltrúa vinstri grænna og Samfylkingarinnar hljóðar svo:

,,Við undirrituð nefndarmenn í umhverfisnefnd styðjum í einu og öllu álit og niðurstöðu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og Katrínar Fjeldsted er varðar þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.``

Undir þetta bréf rita Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir og gera þau með þessari málsmeðferð nefndarálit þeirra að sínu.

Það er mjög mikilvægt að draga það fram í þessari umræðu að það álit sem hefur borist frá umhvn. er stutt meiri hluta nefndarinnar.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að forustumenn ríkisstjórnarinnar eru ekki hér. Þeir eru handhafar þessa stóra máls. Þeir bera ábyrgð á því hvernig þetta mál kemur inn í þingið og hvernig það hefur verið borið fram fyrir þjóðina. Þegar ég tala um forustumenn ríkisstjórnarinnar þá er ég að tala um hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, og hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson. Þeir virða í engu umræðuna sem hér fer fram og undirstrika með fjarveru sinni hversu lítilsigld þeim finnst sú þáltill. sem þeir lögðu fyrir þingið og hve lítið mark þeir taka á sjónarmiðum Alþingis varðandi þetta stóra mál sem þeir eru að keyra í gegn, ekki eingöngu í gegnum þingið heldur í ágreiningi við þjóð sína.

Herra forseti. Ég mun nú víkja að áliti 2. minni hluta, þ.e. fulltrúa Samfylkingarinnar, en afstaða þingmanna Samfylkingarinnar til málsins er skýr. Gerð er krafa um að fram fari lögformlegt umhverfismat áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar enda er ekki fallist á að svo gömul leyfi sem raun ber vitni liggi til grundvallar svo umdeildum framkvæmdum.

Í samræmi við afstöðu Samfylkingarinnar til málsins lögðu þingmenn hennar fram breytingartillögu um að virkjunin færi í mat á umhverfisáhrifum. Við leggjum til að framkvæmdir hefjist ekki nema að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Viðaukatillaga okkar við tillgr. þáltill. hljóðar svo, herra forseti:

,,... enda hefjist framkvæmdir ekki nema að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 63/1993.``

Með hliðsjón af þessari afstöðu þingflokks Samfylkingarinnar lögðu þingmenn hennar einnig fram frumvarp um að öll virkjanaleyfi skuli háð umhverfismati. Í frumvarpinu, sem er um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum er lögð til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum að taldar verði upp þær virkjanir sem skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, enda falli þær undir skilyrði 5. gr. laganna um skyldu til umhverfismats. Þá segir í frumvarpi Samfylkingarinnar að aðrar virkjunarheimildir sem veittar hafa verið með lögum fyrir gildistöku laganna um mat á umhverfisáhrifum en eru ekki komnar til fullra framkvæmda árið 1999 skuli með sömu skilyrðum háðar mati á umhverfisáhrifum.

[15:30]

Í grg. með frv. Samfylkingarinnar kemur fram að málið sé flutt í framhaldi af svari iðnrh. við fyrirspurn hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um virkjunarleyfi og umhverfismat, en þar benti iðnrh. á að þó nokkur fjöldi virkjunarheimilda væri í lögum, sérstaklega lögum um raforkuver, sem taldar væru undanþegnar ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, þótt framkvæmdir væru ekki hafnar. Þessar lagaheimildir ná aftur til ársins 1947, en á árunum 1947--1956 setti Alþingi fjórum sinnum lög um ný orkuver Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi lög væru enn í gildi og þar væri að finna ónýttar heimildir, en um litlar virkjanir væri að ræða.

Þá kemur jafnframt fram í grg. með frv. að öllu alvarlegra sé að í lögum um raforkuver sé að finna virkjunarheimildir stórra raforkuvera eða heimildir til verulegra stækkana á eldri raforkuverum sem stjórnvöld telja undanþegin mati á umhverfisáhrifum um ókominn tíma. Einnig er þar bent á að undanfarin ár hafi orðið gífurleg viðhorfsbreyting meðal almennings til umhverfismála og til náttúruverndar. Það er í hæsta máta óeðlilegt að jafnvel áratuga gömul leyfi til virkjunar sem ekki hafa komið til framkvæmda skuli standa óhögguð þrátt fyrir breyttar kröfur samfélagsins. Slíkar framkvæmdir eigi og verði að vera metnar út frá umhverfissjónarmiðum sem gilda þegar framkvæmdir fara fram en ekki þegar leyfi var veitt, ef til vill mörgum árum áður, ef leyfisveiting og framkvæmdir haldast ekki í hendur.

Með þessum þingmálum áréttar Samfylkingin að farið sé að lögum í stað þess að skýla sér bak við umdeilt bráðabirgðaákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Ég sé sérstaka ástæðu til að taka það fram að mörg af þessum virkjanaleyfum sem er að finna í frv. Samfylkingarinnar eiga við svæði sem eru á suðvesturhorni landsins, ég sé sérstaka ástæðu til að undirstrika það miðað við þann málflutning sem hafður er uppi.

Samfylkingin gagnrýnir harðlega þá málsmeðferð sem málið hefur fengið á Alþingi. Umfangsmesta þætti málsins, umhverfisþætti þess, var vísað til umhvn., eins og áður hefur komið fram, en önnur atriði voru rædd í iðnn. og fékk umhvn. innan við tveggja vikna frest til að skila iðnn. áliti sínu, ég held að það hafi verið rúm vika. Í áliti 2. minni hluta umhvn., sem fulltrúar Samfylkingarinnar í umhvn. styðja samkvæmt því sem þegar hefur komið fram hér og bréfi því sem ég hef lesið, kemur fram að vegna tímaskorts hafi ekki verið hægt að kalla til fleiri aðila eða leita eftir umsögnum sem skýrt hefðu betur ýmsa grundvallarþætti málsins. Megi þar m.a. nefna lagaleg atriði, gróðurfar, dýralíf, mat á arðsemi, m.a. með tilliti til verðmætis lands, náttúru og auðlinda, mat á öðrum nýtingarmöguleikum svæðisins o.fl. Meðal þeirra aðila sem leita hefði þurft álits hjá og umsagna eru óháðir lögfróðir aðilar, m.a. frá Háskóla Íslands, aðilar með sérþekkingu á útreikningum arðsemismats, m.a. frá Þjóðhagsstofnun, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands o.fl., og náttúrufræðingar sem rannsakað hafa dýralíf og gróðurfar svæðisins. Þá hefði einnig þurft að kalla til aðila sem hefðu afgerandi áhrif á málsmeðferð umhverfisþáttarins.

Meiri hluti iðnn. synjaði beiðnum um að umhverfisþætti málsins yrði fylgt eftir í iðnn., sem og því að leita álits sérfræðinga á gagnrýni Landsvirkjunar á álit umhvn. Ekki var heldur orðið við erindum þeirra aðila sem með tölvupósti óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar.

Herra forseti. Mér finnst þetta sérstaklega ámælisvert miðað við stærð málsins og miðað við hversu mikilvægt það er í umræðunni að fá fram viðbrögð aðila sem eru með ólík sjónarmið í svo stóru máli.

Stjórnarflokkarnir hafa forðast að ræða umhverfismatið og allur málabúnaður snýst um að fara fram hjá því. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum segir m.a. í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag ...``

Í 7. gr. laganna segir:

,,Áður en hafist er handa um framkvæmdir sem lög þessi eða reglugerð samkvæmt þeim taka til skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd þar sem fram kemur lýsing á framkvæmdinni, ráðgerðri hönnun og hugsanlegri umhverfisröskun og fyrirhuguðum ráðstöfunum til að draga úr henni og aðrar upplýsingar sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar.``

Mér finnst mikilvægt að þetta komi vel fram, herra forseti, sérstaklega í ljósi þeirra orðaskipta sem urðu hér í kjölfar ræðu formanns iðnn. fyrr í dag.

,,Skipulagsstjóri birtir innan tveggja vikna tilkynningu framkvæmdaraðila ásamt meðfylgjandi gögnum skv. 1. mgr. með opinberri auglýsingu.``

Þetta er tekið upp úr lögunum um umhverfismat og styður það sem hér kom fram fyrr í dag, að athugasemdum skuli skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar.

Í 8. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð um það hvort:

a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,

b. ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum.

Þegar ákvörðun skipulagsstjóra liggur fyrir skal hún kynnt framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skal birta hana opinberlega.``

Í 10. gr. laganna um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að:

,,Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. Þar skal gera sérstaka grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu.

Innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hefur tekið á móti niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum skal hann birta þær með opinberri auglýsingu. Athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá auglýsingu.``

Í 11. gr. kemur m.a. fram að innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna á þessum tíma.

Í úrskurði felist að fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, krafa sé gerð um frekari könnun einstakra þátta eða lagst gegn viðkomandi framkvæmd. Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skuli hann kynntur framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Almenningur skuli eiga greiðan aðgang að úrskurði skipulagsstjóra, svo og niðurstöðum matsins.

Með því að tryggja að umdeild framkvæmd eins og virkjun í Fljótsdal fari í lögformlegt umhverfismat er verið að fylgja reglum sem tryggja aðkomu og andmælarétt borgaranna. Þessar reglur hefur Alþingi sjálft sett með lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Alvarlegar ábendingar hafa komið fram hjá sérfræðingum sem komu á fund þingnefndanna um fullyrðingar í skýrslu Landsvirkjunar um skort á rannsóknum á gróðurfari og dýralífi. Fullyrðingar í skýrslu Landsvirkjunar um að ítarlegar rannsóknir á gróðurfari á lónstæði Eyjabakkalóns hafi staðið yfir með hléum frá 1975 standast ekki. Engar rannsóknir hafa verið birtar frá þessu svæði sem gerðar hafa verið eftir árið 1978. Skýrsla Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings, sem unnin var fyrir Landsvirkjun og fjallaði m.a. á gagnrýninn hátt um fyrri gróðurrannsóknir á Eyjabökkum, var ekki birt í fylgiskjölum með skýrslu Landsvirkjunar, þrátt fyrir að vera ein helsta heimild skýrsluhöfunda um gróðurfar á svæðinu. Fullyrðingar Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, prófessors í grasafræði, um að skýrsla Landsvirkjunar endurspegli stöðu grasafræðilegrar þekkingar á Íslandi fyrir 20 árum og hún endurspegli hvorki nútímaþekkingu í plöntuvistfræði né verndunarlíffræði eru í fullu gildi. Í greinargerð sinni til iðnn. víkur Landsvirkjun sér undan því að svara málefnalega þeirri gagnrýni að nauðsynlegt sé að gera úttekt og rannsóknir á Eyjabakkasvæðinu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra rannsókna í dag.

Náttúrufræðistofnun Íslands bendir í greinargerð sinni til umhvn. á að mjög takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á dýralífi á Eyjabökkum. Um sé að ræða rannsóknir sem gerðar voru sumrin 1979--1981 auk einnar viku vinnu sumarið 1975. Að öðru leyti sé um að ræða talningar á gæsum og hreindýrum á Eyjabökkum dagpart á sumri hverju.

Sérfræðingar á sviði hreindýrarannsókna hafa látið í ljós það mat að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýra á svæðinu til að hægt sé að meta með öryggi áhrif Eyjabakkalóns á hreindýrastofninn. Nýleg samantekt íslenskra og norskra sérfræðinga leiðir hins vegar líkur að því að áhrif virkjana norðan Vatnajökuls geti haft veruleg áhrif á stofninn.

Herra forseti. Það er alveg ljóst með þessari yfirferð á skorti á rannsóknum sem og öðrum rökum fyrir umhverfismati, að það er umhverfismatið sjálft, og farið verði að því samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett, sem leitt getur í ljós hvort gagnrýni sem fram kemur eigi við rök að styðjast eða hvort einhverjum rannsóknarþáttum sé ábótavant. Það hefur reynst gjörsamlega útilokað fyrir Alþingi að kynna sér málin og staðhæfingar ólíkra sjónarmiða með þeim hætti að nokkurt vit sé í því fyrir Alþingi að kveða upp úr um þau mál.

Þegar ráðast á í framkvæmdir á svo viðamikilli framkvæmd á viðkvæmu svæði sem Eyjabakkasvæðið er verður að grípa til mótvægisaðgerða. Hugmyndir Landsvirkjunar um mótvægisaðgerðir á Eyjabakkasvæðinu til að bæta tap á gróðurlendum og búsvæðum fugla sem tíundaðar eru í greinargerð fyrirtækisins við álit 1. minni hluta umhvn. eru óljóst og almennt orðaðar þannig að mjög erfitt er að meta raunhæfni þeirra. Sama gildir um umfjöllun um slíkar aðgerðir í skýrslu Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif. Þær hugmyndir sem Landsvirkjun greinir frá og gagnast eiga fuglalífi á Eyjabakkasvæðinu, t.d. að búa til eyju eða eyjar í lóninu, sem og að styrkja náttúrulegan gróður meðfram strönd lónsins og að rækta gróður á jökulgörðum syðst í lóninu, eru samkvæmt erlendum rannsóknarniðurstöðum á sambærilegum aðgerðum ólíklegar til árangurs. Áhrif miðlunarlóns á gróður og jarðveg í Þjórsárverum, sem er ítarlegasta greinargerð sem ráðist hefur verið í hér á landi um umhverfisáhrif af völdum miðlunarlóna, er rit sem Þóra Ellen Þórhallsdóttir hefur ritað og þar kemur þetta mjög skýrt fram.

Tilbúnar eyjar munu að öllum líkindum lítið sem ekkert gagnast heiðagæs. Vandamál heiðagæsanna verður ekki skortur á eyjum, heldur skortur á próteinríkri fæðu sem er þeim nauðsynleg til að komast af og ljúka fjaðrafelli. Allt helsta beitiland heiðagæsanna á Eyjabakkasvæðinu mun hverfa undir fyrirhugað miðlunarlón og eyðileggjast, liðlega 15 km2 af próteinríkum votlendisgróðri. Vegna breytilegrar vatnshæðar í miðlunarlóninu má staðhæfa að nær ófært sé að skapa aðstæður fyrir votlendisgróður á eyjunum og skiptir engu hversu margar eða stórar þær yrðu. Vegna öldurofs má jafnframt búast við að eyjarnar rýrni og hverfi fyrr en seinna.

Gera má ráð fyrir umtalsverðu rofi á mestallri strandlengju lónsins á tímabilinu júlí til október þegar vatnsborðsstaða er hæst í lóninu, bæði vegna vinds og ölduróts. Á nýja strandsvæðinu er núna ríkjandi þurrlendisgróður sem þolir ekki að blotna og þorna á víxl og því mun hann drepast og hverfa og gróðurvana belti myndast. Jarðvegurinn undir er víðast hvar leirkenndur framburður sem er einnig auðrofinn. Hér skiptir ekki meginmáli hversu bratt er upp frá ströndinni eins og gefið er í skyn í skýrslu Landsvirkjunar, en þar er notaður 7% halli sem þröskuldsgildi fyrir lítið eða mikið rof. Stór gróðurvana belti munu einmitt myndast þar sem land er flatt og hallar lítið. Engin reynsla er hér á landi af ræktunaraðgerðum til að sporna við strandrofi. Landsvirkjun hefur gert eina tilraun í þessa veru, þ.e. við Stóraversvatn í Þjórsárverum, en hún mistókst þar sem svæðið var ekki girt af og gæsir átu upp alla hnausana sem var plantað, samanber áðurnefnt rit Þóru Ellenar.

[15:45]

Herra forseti. Ég vil líka geta þess að á fundi með Landsvirkjun kom fram að mikill freri yrði í lóninu fram undir byrjun júní á sumri hverju og þegar hækkaði í lóninu þá væri frerinn u.þ.b. að losna úr jörð og því væri eiginlega enginn tími sem fok gæti orðið á þessu svæði. Þetta er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt. Menn óttast að vegna hins fíngerða jarðvegs verði fok á svæðinu þegar vatnsstaða er lág þar sem allur gróður hverfur vegna hárrar vatnsstöðu vatnsins. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ekki var unnt að fá viðbrögð við í iðnn.

Ekki var gefinn kostur á að kalla til þá sérfræðinga sem hefðu getað upplýst um þetta. Þeir sérfræðingar sem ég hef rætt við segja þó allir að frerinn og vatnshæðin breyti engu í þeirri gagnrýni sem þegar hefur komið fram. Samkvæmt samantekt Þóru sem tvímælalaust er helsti plöntuvistfræðingur hér á landi og með einna mesta reynslu á umræddu sviði er ljóst að uppgræðsluaðgerðir af hvaða toga sem er verða ávallt mjög erfiðar á strandsvæðum í miðlunarlónum hér á landi, sér í lagi í mikilli hæð þar sem sumur eru stutt og köld eins og á Eyjabakkasvæðinu.

Landsvirkjun hefur haft nægan tíma til að semja skýra og ítarlega áætlun um mótvægisaðgerðir, en í stað þess ber fyrirtækið á borð ómótaðar hugmyndir þar sem fátt er fast í hendi. Krafa um slíka áætlun er ekki aðeins í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum heldur eðlileg í ljósi þess að aldrei áður hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd sem raskar og eyðileggur eins víðáttumikið og fágætt votlendi í einu vetfangi á Íslandi. Vísbendingar sem byggjast á erlendri reynslu og á kringumstæðum hér á landi benda til þess að hugmyndir Landsvirkjunar og 1. minni hluta umhverfisnefndar um mótvægisaðgerðir á Eyjabakkasvæðinu séu ekki líklegar til að leiða til raunhæfs árangurs.

Enn eru ekki öll leyfi til staðar. Sú staðreynd sýnir hve illa er staðið að undirbúningi þessa stóra verkefnis. Samfylkingin vekur athygli á athugasemdum skipulagsstjóra en hann bendir á að ekki liggi fyrir deiliskipulag af þeim svæðum sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun eru fyrirhugaðar á. Hann telur að þær kalli á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflustæði. Þar sem aðal- eða svæðisskipulag er ekki fyrir hendi er unnt að auglýsa deiliskipulagstillögu og ganga frá deiliskipulagi á grundvelli 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsstofnun verður að samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og að fengnu samþykki hennar fer með auglýsingu og afgreiðslu deiliskipulagsins skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Liggi staðfest svæðisskipulag fyrir getur sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi skv. 25. gr. sömu laga án meðmæla Skipulagsstofnunar. Telur skipulagsstjóri samkvæmt þessu að Fljótsdalshreppur þurfi að leita meðmæla stofnunarinnar vegna auglýsingar deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði en Fljótsdalshreppur og Norður-Hérað geti auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði á grundvelli svæðisskipulags miðhálendis.

Þá vekur Samfylkingin athygli á því að skipulagsstjóri telur að skv. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þyrfti byggingarleyfi fyrir varanlegum húsbyggingum í tengslum við virkjanir, en það ætti m.a. við um stöðvarhús, íbúðarhús, mötuneyti og verkstæði. Þá upplýsti hann að byggingarleyfi væri ekki fyrir hendi fyrir húsbyggingum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Enn fremur greindi hann frá því að framkvæmdaleyfi fyrir byggingu virkjunarinnar frá sveitarstjórn, samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum, væru ekki til staðar, að undanskildu leyfi fyrir aðkomugöngum virkjunarinnar. Hjá skipulagsstjóra kom fram að hann teldi að aðrar framkvæmdir við virkjunina sem ekki væru byggingarleyfisskyldar, þar á meðal stíflugerð, vegir, veitur og efnistökustaðir, væru háðar framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, að mati Skipulagsstofnunar. Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að iðnrh. hefur staðfest að ekki séu öll leyfi fyrir hendi.

Með hliðsjón af því hvaða áherslu ríkisstjórnin leggur á málið er furðulegt hve margir lausir endar einkenna allar hliðar þess. Í því sambandi vek ég athygli á lagaóvissunni.

Í umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings um málið kemur fram að hún telur að tengsl ESB-réttar og EES-réttar annars vegar og EES-réttar og íslenskra laga hins vegar séu vanmetin í athugasemdum við þáltill. Lögin um mat á umhverfisáhrifum hafi m.a. verið sett til þess að uppfylla tilteknar skuldbindingar í EES-samningnum. Þessar skuldbindingar sé að finna í tilskipun ráðsins um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Í tilskipuninni sé hins vegar ekki ákvæði um það hvernig fara skuli með leyfi sem gefin voru út áður en hún kom til framkvæmda innan ESB 3. júlí 1988. Meðal annars vegna þessa hefur tugur dóma gengið þar sem ýmis ákvæði tilskipunarinnar hafa verið skýrð. Hefur dómstóll ESB í nokkrum dómum slegið því föstu að hafi formlega verið sótt um heimild til að hefja framkvæmdir eftir að tilskipunin kom til framkvæmda beri að meta umhverfisáhrif þeirra samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Í umsögn Aðalheiðar kemur hins vegar fram að ekkert þeirra mála sem dómstóllinn hefur dæmt í hafi að fullu verið sambærilegt við stöðuna í íslenskum rétti.

Þá bendir Aðalheiður á að samkvæmt íslenskum rétti sé ekki sjálfgefið hvaða leyfi sé endanlegt leyfi til framkvæmda, sbr. orðalag 2. gr. laga nr. 63/1993, þar sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og rekstur hennar séu háð nokkrum leyfum, m.a. virkjunarleyfi sem var gefið út árið 1991 og framkvæmdaleyfi í samræmi við 27. gr. skipulags- og byggingalaga, nr. 73/1997. Hún dregur í efa að rétt sé að líta svo á að virkjunarleyfið sé endanlegt leyfi. Jafnframt telur hún það eðlilegri lögskýringu, og frekar í samræmi við fyrirliggjandi dómafordæmi dómstóls ESB, að miða við framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga og að lögin um mat á umhverfisáhrifum eigi að gilda um framkvæmdina þar sem þetta framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út.

Í grein um efni Ríó-sáttmálans sem Einar B. Pálsson prófessor skrifaði í Morgunblaðið 14. október sl. víkur hann m.a. að hinni svokölluðu varúðarreglu. Hún er ein af meginreglum umhverfisréttarins og ein af þeim grunnreglum sem samþykktar voru af öllum þátttökuríkjum Ríó-ráðstefnunnar um umhverfismál 1992. Hér er um að ræða reglu um varúð við undirbúning framkvæmda vegna hættu á skaðlegum umhverfisáhrifum sem felur það í sér að ef óttast er að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi valdi skaðlegum umhverfisáhrifum skuli ekki ráðist í þær fyrr en sýnt er að svo sé ekki. Niðurstaða Einars er sú að í því máli sem hér er til umfjöllunar sé skylt að beita varúðarreglu Ríó-sáttmálans. Ekki eigi að ráðast í virkjunarframkvæmdir nema önnur lausn finnist sem ekki yrði talin hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér.

Herra forseti. Í sama streng tóku fulltrúar Umhverfisverndarsamtaka Íslands sem komu á fund umhverfisnefndar en þeir bentu á að þrátt fyrir að Ríó-yfirlýsingin væri ekki lagalega bindandi samningur væru öll þátttökuríki siðferðilega bundin af henni. Hins vegar hefði Ísland tekið upp í íslenska löggjöf varúðarregluna með aðild sinni að EES. Þá kom fram að tilskipun ESB gerði ekki ráð fyrir undanþágu sambærilegri og er að finna í ákvæði til bráðabirgða við lögin um mat á umhverfisáhrifum. Þeir töldu því að ákvæðið stangaðist algerlega á við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, ekki síst þar sem framkvæmdaleyfi hefði ekki verið gefið út, og yrði að teljast ógilt samkvæmt EES-rétti og skuldbindingum Íslands.

Herra forseti. Frumskylda ríkisstjórnarinnar, þegar umræða um álver fór af stað, var að kanna fleiri virkjunarkosti á svæðinu. Það eru til fleiri möguleikar en núverandi virkjunaráform ef á annað borð á að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Þeim hefur hins vegar verið lítill gaumur gefinn. Ég ætla að nefna þrjú atriði máli mínu til stuðnings. Það fyrsta er sameining Fljótsdals- og Hraunavirkjunar og ég tek sérstaklega fram að þar vísa ég í grg. frá Orkustofnun.

Í greinargerð Orkustofnunar frá 2. des. 1999, sem send var umhverfisnefnd, er gerð grein fyrir virkjun Hraunavatns og hugmyndum um sameiningu Fljótsdals- og Hraunavirkjunar í eina virkjun, Hraunavirkjun meiri, með stöðvarhúsi í Suðurdal í stað stöðvarhúss í Norðurdal eins og fyrirhugað er með Fljótsdalsvirkjun. Ánni væri þá veitt austur fyrir Suðurdal og fram með honum og virkjað í mynni hans. Aðalmiðlun þessarar virkjunar væri á Eyjabökkum. Hraunavirkjun væri reiknuð sem áfangaskipt virkjun sem ekki væri þörf á að byggja í fullri stærð strax heldur væri hægt að laga hana að vexti markaðar, þótt fyrsti áfanginn þyrfti orkukrefjandi viðskiptavini. Vatninu væri veitt í ámóta löng göng og í Fljótsdalsvirkjun en kostir Hraunavirkjunar umfram Fljótsdalsvirkjun fælust í meira virkjuðu rennsli við svipaðan tilkostnað ef eingöngu væri tekið vatn á gangaleiðinni. Hagkvæmt væri að auka vatnsrennsli til virkjunarinnar með tveimur öðrum veitum. Hafa kostnaðaráætlanir tekið mið af því og er hún talin ódýr virkjunarkostur. Niðurstöður benda til þess að orkuverð frá Hraunavirkjun yrði 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun og að mun dýrara yrði að nýta vatn af Hrauna-, Suðurfjarða- og Líkárvatnssvæðum ef það yrði nokkurn tíma gert. Í stuttu máli má segja að ýmis rök hnígi að því að hagkvæmara sé að virkja rennsli Jökulsár í Fljótsdal í Suðurdal en sá kostur hefur ekki verið kannaður til hlítar þrátt fyrir að hann hafi legið fyrir frá árinu 1991.

Annar kostur sem ég vil nefna, virðulegi forseti, er Hálslón og Kárahnjúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal. Til er áætlun um Kárahnjúkavirkjun með Hálslóni sem aðalmiðlunarlóni en með veitu Jökulsár í Fljótsdal úr litlu inntakslóni og þá án miðlunar á Eyjabökkum sem yrði hlíft. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur mælst til þess í greinargerð með svæðisskipulaginu að þessi kostur yrði athugaður nánar. Miðlunarvirki við Kárahnjúka yrðu að mestu leyti eins og frumhönnun Kárahnjúkavirkjunar gerir ráð fyrir en aðalstífla yrði 4 m hærri eða 189 m. Inntakslón Jökulsár í Fljótsdal yrði 2 km fyrir neðan Eyjabakkafoss og gert er ráð fyrir veitum bæði vestan og austan við ána. Jarðgöng frá Hálslóni og Jökulsá í Fljótsdal tengdust norðan Laugarár og þaðan yrðu aðrennslisgöng norður að Teigsbjargi.

[16:00]

Áætlað er að afl þessarar virkjunar verði um 700 megavött og unnt væri að skipta verkinu í áfanga. Fyrst yrði Jökulsá á Brú virkjuð með Kárahnjúkavirkjun með 500 megavatta afli en síðar yrði rennsli Jökulsár í Fljótsdal tengt inn á aðrennslisgöngin og aflið aukið um 200 megavött. Þessi kostur væri óhagkvæmari en fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun, hvor í sínu lagi, með tilliti til orkunýtingar því að um 2,0--4,5% meiri orka fengist úr virkjununum hvorri fyrir sig. Kostnaður á orkueiningu yrði svipaður í báðum tilvikum. Kostur þessarar tilhögunar er að unnt væri að hlífa Eyjabökkum en óvíst er hvort vandamál verða vegna aurburðar í inntakslón við Jökulsá í Fljótsdal. Þessi leið er ekki talin henta þeim orkunýtingaráformum sem nú eru uppi þar sem uppsett afl í fyrri áfanga virkjunarinnar er mjög mikið. Þá er talið að ýmsar rannsóknir séu nauðsynlegar áður en endanlegt fyrirkomulag til verkhönnunar liggur fyrir. Með öðrum orðum, þessi kostur hefur ekki verið kannaður til hlítar þrátt fyrir að kostnaður á orkueiningu sé svipaður og miðað er við í núverandi virkjunaráformum.

Í þriðja lagi vil ég, herra forseti, nefna Fljótsdalsvirkjun með Hraunaveitu meiri, en það gerði ég að vísu í framsöguræðu minni við fyrri umr. þessa máls.

Unnt er að ná meira vatni af Hraunum til Fljótsdalsvirkjunar með breyttri tilhögun Hraunaveitu en með Sauðárveitu. Ég vil vekja sérstaka athygli þingmanna á því. Þetta kallar á meiri miðlun í Eyjabakkalóni vegna aukins aðrennslis til virkjunarinnar. Athuganir benda til þess að hagkvæmt verði að hækka stífluna við Eyjabakkalón um 3 m en við það stækkar yfirborð lónsins um 4 km2, verður mest 48 km2 og miðlunin verður 625 gígalítrar í stað 500 gígalítra. Með þessari útfærslu yrði hægt að framleiða næga orku fyrir fyrsta áfanga álvers í Reyðarfirði en orkuframleiðsla fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar nægir ekki til þess. Ég bið þingmenn um að taka eftir því að fram hefur komið að þennan valkost ætlar Landsvirkjun að skoða á sumri komanda eftir að Alþingi hefur afgreitt þáltill. um að hér skuli farið í þessa framkvæmd. En það er alveg ljóst að ef slík ákvörðun væri tekin fyrir fram þá yrði Fljótsdalsvirkjun að fara í umhverfismat. Augljóst er að ákvörðun á þessari stundu um þennan kost mundi skylda framkvæmdaraðilann til að óska mats á umhverfisáhrifum í samræmi við gildandi lög. Þess vegna mun þessi kostur fyrst koma til eftir samþykkt málsins hér á hv. Alþingi.

Framkvæmdaraðilinn mundi aldrei sjálfur að eigin frumkvæði óska umhverfismats vegna þess að ef niðurstaða umhverfismats yrði sú að lakari kostur væri boðinn framkvæmdaraðilanum þá væri hann með ósk sinni um umhverfismat búinn að fyrirgera rétti sínum til skaðabóta við ríkisvaldið vegna breyttrar tilhögunar. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir.

Ég vil líka taka fram að með því að hækka stífluna og stækka lónið örlítið þá losnar framkvæmdaraðili við að virkja á öðrum stað og fara í miklar línuframkvæmdir á þessu svæði. Með því að hækka stífluna eftir að framkvæmdir hefjast kemst framkvæmdaraðilinn fram hjá slíku mati. Dæmi eru um að aðalstífla virkjunar hafi verið hækkuð eftir að framkvæmdir hófust. Jafnframt eru til dæmi um að stífla í virkjun sem hefur verið við lýði nokkurn tíma hafi verið hækkuð án umhverfismats. Nefni ég t.d. Blönduvirkjun þar sem stíflan var hækkuð um nokkra metra, þrjá ef ég man rétt, árið 1997. Um það vissi enginn enda fór ekkert umhverfismat fram. Þar var var bara ákveðið að hækka stífluna. Ég er ekki að halda því fram að sú framkvæmd hefði átt að fara í umhverfismat, það þekki ég ekki. En ég geri mér alveg grein fyrir því hver staðan er með Fljótsdalsvirkjun hvað þetta varðar. Ætla má að Landsvirkjun leiti allra leiða til að fá sem mesta orku út úr fyrirhugaðri Fljótsdalsvirkjun. Ástæða er til að ætla að stjórnvöld séu hér enn einu sinni að fara í kringum lög og reglugerðir í stað þess að meta þennan kost eðlilega með lögformlegu umhverfismati.

Fyrr í dag gagnrýndi formaður iðnn. skipulagsstjóra harkalega í framsöguræðu sinni. Skipulagsstofnun hefur lokið athugun á frummati á umhverfisáhrifum 480 þús. tonna álvers í Reyðarfirði. Ég kýs, herra forseti, þar sem málflutningur minn er um Fljótsdalsvirkjun, að vekja í engu máls á álverinu sem slíku að öðru leyti en því sem það tengist efnislega umfjöllun minni um virkjunina.

Það er mat skipulagsstjóra ríkisins að ekki sé stoð fyrir því í lögum um mat á umhverfisáhrifum að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar í einu heildarmati. Hann telur þó að slíkt heildarmat mundi stuðla að markvissari vinnubrögðum og umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem hér er um að ræða. Orkuþörf 480 þús. tonna álvers ein og sér kallar á umfangsmiklar framkvæmdir við orkuframleiðslu sem fyrirsjáanlegt er að kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Óvíst er hvernig orku til annarra áfanga en þess fyrsta verður aflað. Hins vegar hefur ríkisstjórnin undirritað yfirlýsingu þess efnis að hún muni reyna að tryggja orku til framhaldsáfanga. Skipulagsstjóri gerir vegna þessa kröfu um að ítarleg grein sé gerð fyrir jákvæðum áhrifum 480 þús. tonna álvers. Er þá átt við áhrif á byggð, samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og landinu í heild. Einungis heildarmat á umhverfisáhrifum nátengdra stórframkvæmda gefur nauðsynlega sýn yfir alla þá þætti sem taka verður með í reikninginn þegar ákvörðun er tekin.

Þær framkvæmdir sem tengjast álverinu og verða að fara í mat á umhverfisáhrifum eru, fyrir utan álverið sjálft á Reyðarfirði: raflínan frá Fljótsdalsvirkjun að álveri, virkjun í Bjarnarflagi eða Kröflu, raflína frá þeirri virkjun að álveri sem og höfnin á Reyðarfirði.

Herra forseti. Viðkvæmasta hlið málsins er að það hefur verið kynnt sem byggðamál. Austfirðingar eru fórnarlömb loforða sem hafa vakið miklar væntingar og viðbrögð þeirra við stöðunni í dag eru afar skiljanleg. Upp úr 1980 fór sú umræða í gang á Austfjörðum að reist skyldi stóriðja á Reyðarfirði, kísilmálmvinnsla. Ekkert varð hins vegar af framkvæmdum þótt málinu væri haldið gangandi og ýmsum aðgerðum lofað af hálfu stjórnvalda. Nokkru seinna hófst umræða um álver, síðan væntingar um slípiefnavinnslu og svo álver aftur núna. Austfirðingar eru eðlilega orðnir þreyttir á loforðum stjórnvalda um stóriðju sem ekkert hefur orðið af. Þeir hafa viljað trúa því að stórrekstur af slíku tagi hefði víðtæk jákvæð áhrif fyrir byggðaþróun á Austfjörðum. Sú mikla byggðaröskun sem orðið hefur á undanförnum árum hefur ekki síður komið við Austfirði en aðra landshluta. Það er þess vegna þeim mun alvarlegra að stjórnvöld skyldu fara af stað með hugmyndir um virkjun og álver á Austurlandi og vekja þannig enn upp vonir um atvinnuuppbyggingu og að snúa mætti byggðaþróuninni við á þann hátt án þess að allir þættir málsins væru tryggðir.

Í stað þess að undirbúa málið af kostgæfni og reyna þannig að koma til móts við mismunandi sjónarmið og koma í veg fyrir illvígar deilur hefur málinu nú verið teflt í algera tvísýnu vegna þess að stjórnvöld hafa þverskallast við að fara með Fljótsdalsvirkjun í umhverfismat. Þannig hafa stjórnvöld hugsanlega enn á ný klúðrað möguleikum Austfirðinga til uppbyggingar stóriðju með vinnubrögðum sínum. (Gripið fram í: Kratarnir vildu að ...) Ef farið hefði verið að tillögu fyrrverandi umhvrh. og virkjunin sett í umhverfismat lægi það nú fyrir og menn hefðu fastara land undir fótum, bæði hvað varðar möguleika á Fljótsdalsvirkjun og öðrum virkjanakostum. Það þýðir ekkert í þessari stöðu að segja árið 1999: Kratarnir vildu eða þú gerðir. Það er bara ekki kostur í stöðunni í dag.

Málið er nú rekið af hálfu stjórnvalda sem byggðamál og reyna þau að réttlæta það að virkjunin fari ekki í umhverfismat á þeim forsendum. Sú niðurstaða hefur hins vegar valdið miklum deilum í samfélaginu sem ekki sér fyrir endann á. Miðað við ummæli talsmanna Norsk Hydro má allt eins ætla að ef deilurnar um umhverfisþátt málsins verða enn harðari kippi þeir að sér hendinni. Þá er málið allt í uppnámi því að fyrirtæki sem annt er um orðspor sitt, ekki síst þau sem þurfa á góðu orðspori að halda í umhverfimálum, munu ekki koma að máli sem komið er í slíkan hnút. Það er því mjög ámælisvert að stjórnarflokkarnir skyldu vanrækja undirbúning málsins svo sem raun ber vitni og þeim ekki til málsbóta að réttlæta það klúður sitt á byggðaforsendum. Ef raunverulegur vilji var til að koma til móts við væntingar Austfirðinga áttu stjórnvöld að vanda undirbúninginn, ekki að tefla málinu í tvísýnu eins og orðið er. Það er ámælisvert.

Hver er arðsemi þessa verkefnis sem leitað er stuðnings Alþingis við? Arðsemismat verkefnisins er vægast sagt umdeild. Ég ætla að eins að víkja að því örfáum orðum, herra forseti.

Ef tekið er mið af þeim forsendum sem stjórnarmeirihlutinn hefur gefið sér í málinu er rétt að benda á að fram hafa komið alvarlegar athugasemdir við arðsemismat virkjunarinnar. Í grein Sigurðar Jóhannessonar hagfræðings í tímaritinu Frjáls verslun kom m.a. fram að allt að 13 milljarða kr. tap gæti orðið af Fljótsdalsvirkjun miðað við tilteknar forsendur. Þá hafa fleiri sérfræðingar fært rök fyrir því með útreikningum að virkjun sem þessi geti aldrei orðið arðbær. Þar sem forsendur eru ekki allar þekktar stærðir hlýtur þetta að vekja menn til umhugsunar um hvort málið hafi fengið nægilega skoðun.

Í þessu stóra máli er afstaða Norsk Hydro sér kafli. Eins og fram kemur í áliti 2. minni hluta umhverfisnefndar telja íslensk stjórnvöld ekki á það hættandi að vinna málið lengur eða betur, hvað þá að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat.

Í allri umræðunni hefur stjórnarmeirihlutinn hafnað lögformlegu umhverfismati, m.a. vegna þess að standa þurfi við allar dagsetningar gangvart Norsk Hydro. Yfirlýsingar Norsk Hydro síðustu vikur hafa hins vegar verið afar misvísandi. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins lýsti því efnislega yfir á fundi á dögunum með fulltrúum World Wide Fund for Nature að fyrirtækið vildi að tímaáætlunin sem gerð hefði verið stæðist. Það mundi hins vegar ekki þýða að fyrirtækið missti áhugann á að reisa álver ef Alþingi ákvæði að fram skyldi fara lög formlegt mat á umhverfisáhrifum.

Daginn eftir kom hins vegar önnur yfirlýsing frá fyrirtækinu þar sem sagði að tafir á byggingu fyrirhugaðrar álverksmiðju á Reyðarfirði mundu, hvort sem þær stöfuðu af aðstæðum á alþjóðaálmarkaði eða einhverju öðru, auka hættuna á að ekkert yrði úr verkefninu. Nokkrum dögum síðar sagði aðalforstjóri Norsk Hydro, Egil Myklebust, m.a. í viðtali við dagblaðið Dagens Næringsliv að fyrirtækið ætlaði sjálft að meta umhverfisþættina og það yrði gert á fyrri helmingi næsta árs.

[16:15]

Margir skoða þau ummæli í því ljósi að nú þyki Norsk Hydro heppilegt að hafa sett fram einhver varúðarorð til að eiga möguleika á að fara út úr málinu ef það verður pólitískt of heitt annaðhvort á Íslandi eða í Noregi. Við skulum ekki gleyma því að Norsk Hydro liggur undir ámæli heima fyrir fyrir það að ár hafa liðið frá því að þau lofuðu að endurgera, lagfæra eða endurbyggja þau álver sem eru farin að úreldast í viðkvæmum byggðarlögum út frá byggðasjónarmiði í Noregi.

Vegna alls þessa er afar nauðsynlegt að fá fram afstöðu Norsk Hydro. Bæði í umhvn. og iðnn. voru lagðar fram formlegar óskir um að fá fulltrúa Norsk Hydro til fundar en því var hafnað í umhvn. sökum tímaskorts en í iðnn. var ekki talin ástæða til að kalla þessa aðila á fund. Þar hefði verið nægur tími.

Herra forseti. Í áliti Samfylkingarinnar hafa rök fyrir umhverfismati verið reifuð og bent hefur verið á að verulega skorti á rannsóknir á gróðurfari og dýralífi á Eyjabakkasvæðinu. Engin skýr áætlun um mótvægisaðgerðir á svæðinu liggur fyrir, aðeins ómótaðar hugmyndir. Þá hefur sérstaklega verið bent á að skipulagsþáttur málsins sé umdeildur og óviss og sama er að segja um lagalega hlið málsins almennt. Nefnt hefur verið að aðrir virkjunarmöguleikar hafi ekki verið kannaðir til hlítar og einnig hefur verið bent á að arðsemismat sé umdeilt og ekki talið að nægilega hafi verið farið ofan í saumana á því. Jafnframt hafa byggðasjónarmið verið reifuð. Samfylkingin gagnrýnir málsmeðferðina á Alþingi sérstaklega, ekki síst að á það var ekki fallist að fulltrúar Norsk Hydro kæmu til fundar við umhvn. og iðnn. þrátt fyrir ítekaðar óskir þar að lútandi.

Ljóst er að í umræðunni hér mun þeim álitaefnum sem ég hef hér gert grein fyrir í framsögu minni fyrir nál. Samfylkingarinnar verða fylgt eftir af þingmönnum Samfylkingarinnar sem hér munu tala og ef þörf verður á mun ég jafnframt sjálf fylgja þeim eftir í síðari ræðu.

Herra forseti. Þetta er ein umdeildasta ákvörðun síðari ára. Menn greinir á um verðmætamatið sem felst í ákvörðun um að virkja án þess að ákveða fyrst hvaða svæði verði varðveitt fyrir komandi kynslóðir. Deilurnar sem rísa nú sem hæst eru um þá ákvörðun stjórnvalda að virkja án þess að framkvæma lögformlegt umhverfismat. Þekking almennings á miðhálendi Íslands og náttúruperlum þar er allt önnur en fyrir 10 árum, hvað þá fyrir nær 20 árum frá því virkjunarleyfið var veitt. Þess vegna, herra forseti, vísa ég allri ábyrgð á þessu máli á hendur ríkisstjórnar. Hún hafnar þeim leiðum sem að bestu manna yfirsýn mundu kalla fram haldbæra þekkingu og rök sem hægt væri að byggja rétta ákvörðun á. Hún þvingar Alþingi, skammtar þekkingu, upplýsingar og rök og knýr á með offorsi sem á enga stoð. Hún sýnir náttúruverðmætum fullkomna lítilsvirðingu og óbornum kynslóðum landsins algjört virðingarleysi.

Ég bið alla landsmenn að hlusta. Við eigum ekki að ráða ráðum okkar í þessu afdrifaríka máli á svo frumstæðan hátt. Sjálfsvirðing þjóðar okkar er í húfi en hana hefur ríkisstjórn Davíðs Oddsson að engu og það er Davíð Oddsson, forsrh. þessa lands, sem ber ábyrgð á málinu.