Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:19:31 (3457)

1999-12-18 16:19:31# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. og því gera sér allir grein fyrir að hér er um umdeilt mál að ræða. Það sem þingið stendur frammi fyrir er að taka ákvörðun í málinu, hvort framkvæmdum skuli haldið áfram eða ekki. Þar skiptast menn í fylkingar eftir því hvar menn standa í pólitík.

Ég ætla ekkert að fara að rifja upp fortíðina í þeim efnum hvað menn vildu gera áður, það skiptir ekki höfuðmáli. Hins vegar skiptir það mjög miklu máli þegar menn setja mál sitt fram í umræðunni að öllum forsendum sé haldið til haga, og ekki er ég að brigsla hv. þm. um að það hafi ekki verið gert.

Ég tók eftir einum þætti í ræðu hv. þm. sem mér finnst rétt að taka hér upp í andsvari og það er um arðsemismatið af framkvæmdinni. Enginn deilir um að það er mjög mikill þjóðhagslegur ávinningur af framkvæmdunum. Hér er á ferðinni mjög stórt byggðamál, sem mun hafa afgerandi áhrif, ekki bara fyrir Austurland heldur fyrir landið í heild sinni og hér er líka um viðkvæmt umhverfislegt mál að ræða.

Þegar málið er skoðað í heild skiptir auðvitað höfuðmáli hver verður arðurinn af orkusölunni. Af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vitnaði til eins virts hagfræðings á því sviði, Sigurðar Jóhannessonar, hefur það verið gert opinbert og upplýst að þær forsendur sem hv. þm. gefur sér í útreikniningum sínum eru rangar. Það er þrennt sem er rangt.

Í fyrsta lagi gefur hv. þm. sér ranga forsendu sem snýr að afkastagetu virkjunarinnar sem gengur út á 1.250 gwst. en afkastagetan er 1.400 gwst. Í öðru lagi eru afkastavextir eða reiknivextir virkjunarinnar líka rangir, sem hv. þm. gengur út frá, sem er 6%, en reynslan er sú að Landsvirkjun hefur verið að fá vexti sem eru allt upp í 4,8%. (Forseti hringir.)

En stærsti þátturinn er þessi, með leyfi forseta, aðeins eitt orð. Það er orkuverðið. Um það hefur ekki verið samið og þegar tekjurnar eru ekki ljósar og gjöldin eru nokkurn veginn ljós þá er ekki hægt að reikna út arðsemismat.