Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:27:58 (3461)

1999-12-18 16:27:58# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lýstu þeir báðir yfir, hv. formaður iðnn. og hæstv. iðnrh., að allt yrði gert sem mögulegt væri til að auðvelda almenningi aðkomu að málinu. Ég lýsti því þá í ræðum mínum að þó að ég teldi að þetta væri ekki svona fullburða aðkoma borgaranna og þetta væri frekar veikburða andmælaréttur væri þetta betra en ekki neitt.

Eitt af því sem hv. formaður iðnn. lýsti einmitt í fjölmiðlum var að menn gætu komið athugasemdum og óskum á framfæri í gegnum netið. Ég spyr þess vegna hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur eftirfarandi spurningar:

Var það svo að einhverjir aðilar eða jafnvel fjöldi einstaklinga eða samtaka óskaði í gegnum netið eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar en fékk ekki?

Spurning mín grundvallast á því að í máli hv. þm. kom það fram sem mér var ekki kunnugt um áður að einhverjir hefðu óskað eftir fundi í gegnum netið en ekki fengið það. Það er mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að þetta er enn einn naglinn í þá líkkistu sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn er búinn að leggja þetta mál í, vegna þess að flest það sem þeir sögðu að mínu viti hefur ekki staðist varðandi hina lýðræðislegu aðkomu þegnanna.

Er það virkilega þannig að þrátt fyrir það sem hv. formaður iðnn. og hæstv. ráðherrar sögðu um að það ætti að veita andmælarétt í gegnum netið hafi menn sett fram óskir sem voru ekki uppfylltar? Það er ákaflega mikilvægt að þetta komi fram.