Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:04:41 (3467)

1999-12-18 17:04:41# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var makalaus ræða og minnti helst á ræðu Lása kokks sem vildi láta flytja Esjuna af því hún byrgði fyrir útsýnið. En, herra forseti, hv. þm. fór rétt með það sem segir í bréfi Skipulagsstofnunar frá því í ágúst 1998. En í nóvember sama ár sagði skipulagsstjóri í bréfi til umhvn., með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun telur að í ljósi breyttra viðhorfa og löggjafar í umhverfismálum sé eðlilegt að fram fari formlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem háðar eru mati skv. 5. gr. laga nr. 63/1993 þrátt fyrir að þær falli undir bráðabirgðaákvæði II.``

Þetta vil ég að komi fram, herra forseti, þannig að það sé alveg ljóst hvaða álit skipulagsstjóri hefur á þessu máli. Síðan vil ég segja að það er þakkarvert að hv. þm. vill búa til manngerða hólma og skapa skjól fyrir gæsum en ég spyr hann: Ætlar hann ekki líka að slá niður stálþili í kringum hraukana? Einhvern tíma heyrði ég þá ágætu kenningu úr liði stjórnarinnar. Hvers vegna stígur hann bara ekki skrefið til fulls og byggir glerhýsi yfir þetta svæði?