Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:15:04 (3476)

1999-12-18 17:15:04# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það ósköp vel að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson viti ekki hvort hann eigi að hlæja eða gráta. En það er náttúrlega alveg ljóst að við höfum ekki komist að raun um það enn þá hvort hægt sé að rækta upp gróður á þessu svæði sem nýtist gæsum eða því dýralífi sem þarna er, sem eru fyrst og fremst þessir fuglar, gæsir í fjaðrafelli. Ég veit ekki betur, herra forseti, en að þessi fugl sé úti um allt land, á láglendi og úti um allar heiðar að éta gróður og það hefur ekki verið sannað að sá próteinríki gróður sem hv. þm. er að tala um sé sá eini sem að geti gagnast.

Herra forseti. Ég bind miklar vonir við að hægt sé að byggja þarna upp svæði með góðum vilja sem nýtist því dýralífi sem þarna hefur verið því að ekkert hefur sýnt okkur að það sé ekki hægt.