Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:18:58 (3479)

1999-12-18 17:18:58# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:18]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson styður það að Fljótsdalsvirkjun fari ekki í umhverfismat þó að mörg rök og staðreyndir styðji að virkjunin fari í gegnum það vinnuferli, m.a. vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á hönnun virkjunarinnar frá því að hún var heimiluð. Þetta eru jákvæðar breytingar en breytingar samt. Hann lýsir hér, upp úr bréfi frá Landsvirkjun, mótvægisaðgerðum sem Landsvirkjun mundi vilja fara í til þess að draga úr þeim áhrifum á umhverfið sem virkjunin mundi hafa. Allt eru það jákvæðar aðgerðir. En með því að setja virkjunina í mat á umhverfisáhrifum er með eðlilegu vinnuferli hægt að draga þetta fram og finna bestu lausnir. Ég skil því ekki þau vinnubrögð að á sama tíma og tekið er undir það að leita að mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifunum er jafnframt sagt nei við eðlilegu ferli.