Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 17:28:11 (3487)

1999-12-18 17:28:11# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Þeir sem knýja hér fram þá þáltill. sem liggur fyrir um framhald Fljótsdalsvirkjunar án umhverfismats bera sinn þunga bagga á þunnum ís yfir dimm og djúp vötn og þeir eru ekki öfundsverðir af sinni vegferð því að öll rök mæla með því að staldrað verði við og farið með þessa mikilsverðu og óafturkræfu aðgerð í mat á umhverfisáhrifum. Það er sáttaboð sem lagt hefur verið fram bæði af stjórnmálamönnum, embættismönnum og þjóðinni að stórum hluta. Með því að hafna því er slegið á þessa útréttu hönd.

Það liggur ljóst fyrir að náttúruverðmæti sem um er að tefla eru ekki aðeins mæld á mælikvarða Austfjarða eða Austfirðinga og ekki heldur á mælikvarða Íslendinga eða Íslands heldur er hér um náttúruverndargildi að ræða á heimsvísu. Við Íslendingar berum að þessu leyti ábyrgð gagnvart öðrum þjóðum og við eigum svo mikið undir virðingu annarra og samstarfi við aðra í umhverfismálum að við eigum ekki að höggva þegar við viljum að hlíft sé þegar við erum annars vegar.

[17:30]

Við Íslendingar eigum gríðarlega mikið undir samkomulagi um verndun gegn mengun hafsins. Við eigum jafnvel lífsafkomu okkar þar undir. Vaxandi mengun þekkja allir, vegna þungmálma og þrávirkra lífrænna efna. Við eigum mikið undir því að loftslag haldist stöðugt en hér verði ekki röskun á slíku, hvorki með efnum né breyttu hitafari. Þarna eigum við samleið með norrænum þjóðum og þurfum sem fyrst að gera nákvæman samning við aðrar þjóðir um þetta. Þá þurfum við að geta sýnt að við berum ábyrgð á því sem okkur er til trúað. Með því að fórna Eyjabakkasvæðinu án þess að geta sýnt fram á að við höfum farið í þann lögformlega gjörning sem alls staðar í nágrannalöndum og raunar hér hjá okkur sjálfum er viðurkenndur, erum við að sýna öðrum þjóðum og almennum viðhorfum lítilsvirðingu og við getum ekki ætlast til þess að okkur sé hlíft þegar við biðjum um grið.

Ósnortið land er takmörkuð auðlind og mun verða takmarkaðri eftir því sem lengra dregur. Manngerður heimur, náttúra sem hefur verið snortin, umturnað, eða raskað með einhverjum hætti, þau svæði fara vaxandi. Nægir að minna á eitt af okkar sáru tilvikum hér á Íslandi. Við hugsum e.t.v. ekki til þess þegar við göngum í gegnum Almannagjá að Drekkingarhylur var einu sinni allt öðruvísi en hann er nú. Hann var sprengdur upp á sínum tíma, þ.e. kletturinn þar sem hinar óhugnanlegu aftökur fóru fram. Síst vil ég halda minningu þeirra á lofti öðruvísi en að viðurkenna það að þarna er um sögulegan stað að ræða, stað sem sýnir það myrkur sem Íslendingar bjuggu við. Vegurinn er sömuleiðis sár í Almannagjá. En þarna var Drekkingarhylur eyðilagður til þess að koma þarna fyrir brú og vegi. Hversu gjarnan vildum við ekki að Drekkingarhylur væri ósnortinn? Hversu gjarnan vildum við ekki að gljúfrin í Soginu væru ósnortin? Þannig gæti ég haldið lengi áfram að telja. Manngert umhverfi er að vaxa á kostnað hins ósnortna. Þarna eigum við Íslendingar gimstein sem okkur er tiltrúað. Það kann að vera að við eigum að fórna honum vegna þess vanda sem menn telja að steðji að í byggðamálum. En að gera það án þess að þar fari fram mat eins og best gerist, er virðingarleysi sem okkur er ekki samboðið.

Umhvn. hafði afar stuttan tíma til að vinna sitt verk. Um leið og við neituðum að fara með málið í lögformlegt ferli og tókum það úr höndum þjóðar, skipulagsyfirvalda og úr hinu lögformlega ferli, með því að nýta okkur þær undanþágur sem virkjunin hefur, þá vorum við líka að taka á okkur ákveðna ábyrgð hér í þinginu, ábyrgð til að vinna sómasamlega og vel að málinu. Og svo sannarlega höfum við lagt okkur fram, öll sem eitt. En því miður er málið stærra og flóknara og umfangsmeira að vöxtum en svo að við getum sagt við verklok hér í dag að við höfum unnið fullnægjandi og gott verk. Því fer víðsfjarri. Þó hafa rannsóknargögn okkar, rannsóknarferð og gestir sem til okkar hafa komið, upplýst eitt sem er óyggjandi. Hér er um gríðarlega verðmikil náttúruverðmæti að ræða sem hefðu þurft að fá mun meiri rannsókn. Annað hefur líka komið fram á þessum skamma tíma, þ.e. rannsóknirnar eru hvergi nærri nægar til þess að byggja hina afdrifaríku ákvörðun á sem hér verður tekin núna að nokkrum dögum liðnum, hvergi nærri. Við getum deilt að sjálfsögðu. Átti að rannsaka meira eða minna eins og það er orðað? Alltaf má rannsaka meira. En þetta á ekkert skylt við einhverja löngun mína eða vísindamanna eða embættismanna til að rannsaka í hið óendanlega. Það er ómótmælanlegt að fram hefur komið að rannsóknirnar standa hvergi undir hvorki þeim rannsóknum sem við teljum okkur sæma hér í þinginu né heldur því sem mundi vera viðurkennt í matinu á umhverfisáhrifum ef þetta hefði farið í þann gjörning. Þetta undirstrikar ekki endilega það að ég hafi rétt fyrir mér eða aðrir hafi rangt fyrir sér um hvort þarna eigi að virkja eða ekki. Það sýnir aðeins eitt sem er ómótmælanlegt, þetta mál þarf meiri tíma, þetta mál þarf meiri rannsókn. Við erum að hrapa hér að ákvörðun sem aldrei verður aftur tekin án þess að geta afsakað það með nokkrum hætti miðað við þær skömmu og fáu og gloppóttu rannsóknir sem fyrir liggja.

Umhvn. fékk röska viku ef í virkum dögum er talið til þess að fara yfir gögn málsins, fá gesti til sín og ræða málið. Umhvn. fór inn á Eyjabakka til þess að skoða málið og skoðaði það sömuleiðis með mönnum fyrir austan. Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að það hafi eingöngu verið gert vegna væntanlegrar þáltill. sem hér er verið að ræða. Það var gert m.a. vegna þáltill. sem ekki hefur enn verið afgreidd í umhvn., þ.e. að Fljótsdalsvirkjun færi í mat á umhverfisáhrifum.

En lítum aðeins á hvernig málið var unnið í umhvn. Lítum aðeins á gögnin. Mjög viðamikil gögn bárust. Engu að síður kom fram fjöldi ábendinga og reyndar framlagðar skýrslur sem enginn leið var að lesa eða engin leið var að afla. Ég nefni aðeins eina. Skýrsla um hreindýrastofninn lá ekki fyrir í nefndinni fyrr en undir það síðasta þegar engin tök voru á að kynna sér hana með neinum hætti eða bera hana saman við fyrirliggjandi rannsóknir.

Við hefðum viljað fá mun fleiri gesti og ég vil nefna nokkra. Norsk Hydro er örlagavaldur hér í þessari umræðu. Það er vegna yfirlýsinga fyrirtækisins sem við stöndum hér og erum að afgreiða mál með þessum hraða sem mér hefur þó heyrst á ýmsum forsvarsmönnum virkjunarmála að þeir hefðu gjarnan viljað vera lausir við og viljað fara í mat á umhverfisáhrifum, en það hefði ekki verið hægt vegna þess að menn vilja ekki taka þá áhættu sem gæti skapast af því að biðja Norsk Hydro um að bíða. Þetta er að sjálfsögðu áhrifavaldur og örlagavaldur hér í þessari umræðu. Auðvitað áttum við að fá Norsk Hydro hingað til viðræðna við okkur alveg eins og hverja aðra. Og ég er ekki sammála þeim viðhorfum að þar með séum við að knékrjúpa fyrir þessu fyrirtæki, hvorki fyrir Norðmönnum né Norsk Hydro. Við erum Alþingi Íslendinga, elsta löggjafarvald í heimi. Við erum hér sjálfstætt fólk sem getum fengið hvern og einn sem okkur sýnist til viðtals ef okkur þykir svo henta, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Þar erum við ekki á neinum biðilsbuxum eða á hnjánum, heldur erum við í fullum rétti að biðja um upplýsingar.

Við hefðum viljað spyrja Norsk Hydro um tvennt.

Í fyrsta lagi: Hvernig eigum við að skilja misvísandi yfirlýsingar fyrirtækisins þegar fyrri yfirlýsing fyrirtækisins er ekki dregin til baka?

Í öðru lagi hefðum við viljað spyrja Norsk Hydro um umhverfisstefnu fyrirtækisins, hvaða umhverfisstefnu fyrirtækið reki í sínu heimalandi og öðrum löndum og hvort fyrirtækið telji að rétt af því að taka þátt í slíku verkefni sem hér er um að ræða án þess að umhverfisstefna þess komi þar nokkuð nálægt. Og við hefðum viljað spyrja fyrirtækið hvort verið geti að það líti svo á að hér sé um tvær ólíkar aðgerðir að ræða, þ.e. annars vegar virkjunina og hins vegar álverið.

Ég hef kynnt mér þessi mál, hvernig með þetta er farið í öðrum löndum, í nágrannalöndum okkar. Þar er litið á þetta mál í heild sinni, þ.e. álverið og virkjunina sem heild. Norsk Hydro ber hér ábyrgð. Norsk Hydro getur ekki komið hingað til Íslands og rekið hér einhverja gamaldags nýlendustefnu, þvegið hendur sínar og firrt sig allri ábyrgð í þessu og bent á íslensk stjórnvöld og Alþingi til endanlegrar ákvörðunar, eins og það komi hvergi nærri, á sama tíma og þeir sem eru í tengslum við fyrirtækið fara undan í flæmingi um að láta fyrirtækið svara hér fyrir afstöðu sína.

Þetta náðist ekki og framhaldið þekkja allir. Iðnn. neitaði málinu. Við hefðum sömuleiðis viljað fá til okkar Þjóðhagsstofnun, ekki endilega vegna þess að við hefðum viljað rannsaka til hlítar arðsemisútreikninga. Við hefðum viljað spyrja Þjóðhagsstofnun um hvernig meta ætti náttúrufarsþátt málsins, hvernig meta ætti landið sem fer undir virkjunina og hvernig meta ætti auðlindina. Í fyrirvara sem Þjóðhagsstofnun gerir í málinu þegar hún fjallar um það, kemur fram í einni af fyrstu setningunum að undanskilinn sé náttúrufars- eða umhverfiskostnaður sem ég skil að sé fórnarkostnaður við náttúruna, þ.e. landið og auðlindin sjálf. Við hefðum viljað spyrja Þjóðhagsstofnun um þessi mál því að nú þegar, eins og allir vita, eru til aðferðir sem gera mönnum kleift að gera útreikninga af þessu tagi. Líka hefði mátt reyna að átta sig á hvað annað eða hvers konar önnur verðmæti mætti hafa á þessu svæði, ef því hefði verið þyrmt og það notað til annarra þátta. Til þessa vannst ekki tími.

Við hefðum sömuleiðis viljað fá til okkar grasa- og plöntufræðinginn Ágúst H. Bjarnason sem var fulltrúi Landsvirkjunar og fékk það vandasama og ábyrgðarmikla verkefni að endurmeta þær fyrirliggjandi rannsóknir sem til eru og gera viðbótarrannsóknir til þess að styrkja gróðurfarsrannsóknirnar. Í skýrslu hans kemur hvorki fram í rannsóknargögnum né í almennum niðurstöðum að hann hafi komist inn á Eyjabakkasvæðið, enda segir hann það í skýrslu sinni. Hann hefur hins vegar látið koma fram að hann hafi komist inn á svæðið og það þykir mér ánægjulegt að heyra enda þó þess hafi ekki verið getið í skýrslunni. Við hefðum viljað vita hver viðhorf hans væru um þau efni og ég tek þann mann fyllilega trúanlegan og hefði gjarnan viljað heyra sjónarmið hans um þessi efni. Það vannst ekki tími til að gera þetta.

Það hefur varpað óvissu og vafa í huga okkar umhverfisnefndarmanna, a.m.k. þeirra sem standa hér að 2. minnihlutaáliti, um lagastoð fyrir þessum gjörningi sem hér stendur til að afgreiða. Annars vegar höfum við mat skipulagsstjóra, sem er einhver veigamesta stofnun umhverfismála á Íslandi, og það er stutt með áliti í greinargerð iðnrh. sem öllum er kunnugt um og ég mun koma að á eftir. Lögfræðingar umhvrn. eru hins vegar á annarri skoðun. Þar að auki hefur vafa verið komið á framfæri um lögmæti þessa gjörnings miðað við Evróputilskipanir og samninga sem við höfum þar undirgengist.

Nú ætlum við, herra forseti, að ganga hér til atkvæða um mál sem lagaóvissa ríkir um. Getum við farið í slíkan gjörning? Við vildum fá úr þessu skorið með því að fá til okkar gesti sem gætu eitthvað frekar um þetta sagt. Við vorum ekki að taka neina afstöðu í málinu, en við vildum fá óháða aðila sem gætu komið úr hvaða átt sem svo sem væri, óháða lögfræðinga. Háskóli Íslands hefur t.d. verið nefndur. Það var ekki hægt að gera þetta. Ég gæti haldið áfram lengi að telja, gögn, gesti og annað sem vantaði til þess að þetta mál væri unnið sómasamlega á þessari rösku viku sem við tókum í það. Herra forseti. Við þykjumst ætla að taka að okkur einhvers konar umhverfismat fyrir hönd þjóðarinnar á röskri viku. En til þess vannst ekki tími. Og þegar þessi tími var úti þá var enginn tími til ráðstöfunar til þess að fara í efnislega umræðu í nefndinni. Tíminn var úti.

Eins og menn sjá á þeim ályktunum sem hér hafa komið fram frá umhvn., þá voru skiptar skoðanir um þetta. Engin tækifæri gáfust til þess að fara í djúpa umræðu um þann ágreining sem var á milli manna um málið.

[17:45]

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða kröfur menn gera hér til sjálfs sín. En ég get ekki sagt að ég hafi unnið þetta verk þannig að ég geti horft í augu þjóðarinnar, í augu kjósenda, í augu þess almennings sem hefur verið sviptur tækifærum að hafa hér lögbundin áhrif. Ég get ekki horft í augu sérfræðinga, manna sem ég veit að eru margir á heimsmælikvarða sem betur fer, og sagt við þá: Við tókum þetta af ykkur. Þið verðið að sætta ykkur við það. En við unnum þetta mál þannig að það er fullunnið og við getum tekið ákvörðun um það með afdrifaríkum hætti í Alþingi. Ég treysti mér ekki þess til að gefa slíka yfirlýsingu. Og ég undrast metnaðarleysi þingmanna, hæstv. forseti, sem telja að þetta verk sé vel unnið. Það er hvorki vel unnið með þeim rannsóknum og gögnum sem liggja fyrir og það er ekki vel unnið hér í Alþingi. Ég harma að málið skuli tekið hér til endanlegrar afgreiðslu í þessum búningi. Við höfum múrað okkur hér inni, innan við hina þykku veggi Alþingis. Úti stendur almenningur og vill fá að komast að þessu máli. En honum er haldið fyrir utan málið. Við gætum afsakað það ef við gætum gengið hér út og sagt að við höfum unnið þetta vel. En það getum við ekki.

Allt þetta sem ég hef nú rakið þurfa menn ekki endilega að taka sem rök um að ekki eigi að virkja. En allir sem sitja hér og eru sanngjarnir og horfa með tærum huga til málsins, vita að ég er að mæla sannleika. Þetta mál er ekki í þeim búningi að við getum afgreitt það. Mál á að fara í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt hinum lögformlega gjörningi.

Virðulegi forseti. Þáltill. þessi er fyrst og fremst byggð á skýrslu Landsvirkjunar sem heitir Fljótsdalsvirkjun -- Umhverfi og umhverfisáhrif, enda er til þess vitnað. Sú skýrsla er unnin annars vegar á grunni fyrri rannsókna og síðan á rannsóknum sem gerðar voru í nokkurri skyndingu. Skýrslan er um margt prýðilega gerð og vil ég þar sérstaklega nefna kaflana sem snúa að mannvirkjagerðinni og jarðfræðikaflann. Þeir sýnast mér að séu allvel og jafnvel prýðilega vel unnir. En því miður er kaflinn um dýralíf og gróðurfar, kaflinn sem er mikilsverðastur, kaflinn sem hinn stóri styr stendur um, þar sem við erum einmitt að biðja um að sé þyrmt, vægt og skoðað, slakastur í skýrslu Landsvirkjunar. Þar er stærsta gatið í þessu máli í þeim búningi sem það er fært hér inn í þingið og það er svo alvarlegur hlutur að mat á umhverfisáhrifum hlýtur að vera hið eina svar.

Meginmálflutningur allra þeirra stofnana sem komu til nefndarinnar og þau álit sem bárust frá sérfræðingum þar sem við báðum um að menn tækju afstöðu til efnislegra atriða í skýrslunni og skýrslunnar í heild, var sá að þessi skýrsla og ýmis efnistök hennar fullnægðu ekki þeim kröfum sem þyrfti að gera til þess að málið teldist fullmetið og stæðist ekki þær kröfur sem menn gera um mat á umhverfisáhrifum. Þar á meðal voru sérfræðingar og stofnanir á borð við skipulagsstjóra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruvernd, Náttúruverndarráð. Til nefndarinnar komu félagasamtök sem mönnuð voru sérfræðingum, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Umhverfisverndarsamtök Íslands, Samtök útivistarfélaga og fleiri mætti telja. Hér er ekki tækifæri til þess að geta um öll þessi atriði enda koma þau fram í áliti 2. minni hluta umhvn. En ég vil aðeins tæpa á nokkrum atriðum.

Skipulagsstjóri segir að það vanti framkvæmdaleyfi, deiliskipulag liggi ekki fyrir og byggingarleyfi liggi ekki fyrir. Þetta eru ekki léttvægir hlutir þegar skipulagsstjóri ríkisins kveður upp úr með þessum hætti. Skipulagsstjóri talar ekki aðeins um þessi leyfisatriði málsins heldur kemur að ýmsum efnisþáttum öðrum, svo sem að efnistöku og dreifingu efnis eru ekki gerð fullnægjandi skil í skýrslunni. Ekki er fullnægjandi grein gerð fyrir því hvar og yfir hvers konar land eigi að dreifa gíðarlegu miklu efni og þetta efni er tíu sinnum það magn, þ.e. það lágmark sem krefst mats á umhverfisáhrifum, tíu sinnum meira. Ekki er orð um það hvar á að dreifa því eða yfir hvaða land. Á hvað kallar þetta? Þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum og þetta segir ekki einhver maður sem hefur dottið þetta í hug af illgirni, þetta er skipulagsstjóri ríkisins sem ég ætla að skjóta hér skildi fyrir. Ég hef unnið með skipulagsstjóra ríkisins í fimm ár og átt samstarf við hann um setningu flókinna laga, svo sem skipulags- og byggingarlaga, og ég fullyrði að þar fer vandaður embættismaður sem hefur yfirburðaþekkingu, er sanngjarn og sýnir embættisheiður að öllu leyti í sínum störfum. Og þau orð sem hafa fallið hér í dag eru í engu samræmi við samstarf mitt við þennan ágæta embættismann.

Í máli og gögnum skipulagsstjóra kemur einnig fram að náttúrufarsrannsóknir eru ónógar og umsögn hans fellur í sömu átt og ég gat um áðan um dýralíf og gróður. Þá kemur einnig fram í máli og gögnum skipulagsstjóra að valkostir eru ekki reiknaðir út. Ef farið hefði verið í mat á umhverfisáhrifum þá hefðu að sjálfsögðu verið skýrðir ýmsir valkostir, aðrir kostir sem hefðu hlíft náttúrunni meir en Fljótsdalsvirkjun gerir í þeim búningi sem hún er núna. Í skýrslu Landsvirkjunar eru engir útreikningar sem sýna slíka valkosti. Þetta er mjög miður og sýnir muninn á hinum þrönga búningi sem málið kemur í til okkar og þeim búningi sem það hefði farið í ef það hefði farið í mat á umhverfisáhrifum, þar sem á að sjálfsögðu að bera saman valkosti. Allt kallar þetta á mat á umhverfisáhrifum. Allt kallar þetta á að staldrað sé við þannig að við önum ekki út í fenið nema vita hvar fast er undir fæti og hvað við getum leyft okkur.

Herra forseti. Án þess að ég vitni sérstaklega til sérfræðinga, en slíkt er hægt bæði með þeim gögnum sem fyrir liggja og í því áliti sem ég tala hér fyrir, þá vil ég koma að dýralífsþættinum.

Dýralífsþátturinn snertir annars vegar hreindýr og hins vegar fugla að langstærstum hluta. Þetta eru stærstu dýrastofnar sem eiga griðland á Eyjabökkum. Almennt má segja um dýralífsrannsóknirnar að þær eru að meginstofni til gamlar og grunnur þeirra er gamall og að því leyti sem rannsóknirnar hafa verið endurnýjaðar þá eru þær stopular og þær eru ekki gerðar samkvæmt þeim aðferðum eða með þau markmið í huga sem fullnægja þeim kröfum sem við gerum hér til þess að afgreiða þetta mál.

Lítum aðeins á hreindýrin. Hreindýrarannsóknir voru gerðar fyrir nær 20 árum, en síðan hafa talningar yfirleitt farið fram einu sinni á ári, en nú undir hið síðasta einu sinni til þrisvar á ári. Og hvers vegna hafa þessar talningar verið gerðar? Þetta eru stofntalningar, talningar vegna veiði, vegna veiðiálags. En, virðulegi forseti, engar ferlirannsóknir hafa verið gerðar. Engar ferlirannsóknir um það hvaðan dýrin koma, hvert þau fara og hvernig þau hreyfa sig, hversu lengi þau staldra við á Eyjabökkum. Engar beitarrannsóknir hafa heldur verið gerðar. Síðasta sumar fór algjörlega forgörðum. Það var algjörlega vannýtt til rannsókna. Hefði nú ekki átt að ganga í það með GPS-mælingum að fylgjast með dýrunum þetta síðasta sumar sem hægt var að fylgjast með þeim? Það sýnir andvaraleysi framkvæmdaraðilans að slíkt skuli ekki hafa verið gert. Þessar aðferðir eru núna þekktar og auðveldar. Ég vil ekki segja að þær séu ódýrar. En miðað við þau ósköp sem við stöndum hér í, þá hefðu þær verið sjálfsagðar. Nú er verið að gera slíkar rannsóknir með GPS-tækjum á dýrum, m.a. á Hornströndum, þ.e. refarannsóknirnar, og fleira mætti telja. Fylgst er með farfuglum sem koma til landsins. Þessar rannsóknir með GPS-tækjum þekkja allir. En þetta var ekki gert. Þetta sýnir andvaraleysi. Ég ætla ekki að ásaka Landsvirkjun fyrir að þetta sé í illu skyni gert því Landsvirkjun hefur svo sannarlega margt vel unnið og gengið á undan með góðu fordæmi í frágangi mannvirkja og með mörgum hætti í umhverfismálum. En kröfurnar eru bara orðnar meiri núna. Kröfurnar eru orðnar meiri núna heldur en að menn geti nýtt sér gamlar rannsóknir sem gerðar eru með stofntalningum og að sumarið sé látið líða án þess að gera ferlirannsóknir. Virðulegi forseti. Af því ég tala um hreindýrin og það blasir við að virkjunum verður fjölgað á Austurlandi og á hálendinu upp af Austurlandi, þá vita allir að nærtækasta virkjunin verður Kárahnúkavirkjun. Og þá eru ekki aðeins farnir Eyjabakkar og beitilandið þar sem einn fjórði til einn þriðji hluti stofnsins hefur aðsetur og beit, heldur er burðarsvæðið líka farið, svæðið fyrir ofan Kárahnúka. Fróðir menn, sérfræðingar sem ég hef talað við, taka svo djúpt í árinni að þeir segja að við getum búist við því að þessi stofn sem lifir við jaðaraðstæður, ef ég má nota það orð, muni falla að stórum hluta, jafnvel hverfa alveg úr höndum okkar. Og þá erum við Íslendingar fátækari en áður.

Ekkert af þessu var rannsakað núna í sumar. Það er metnaðarleysi að koma síðan með þessar rannsóknir hingað inn í þingið og metnaðarleysi hjá þingmönnum sem telja að þetta séu nægar upplýsingar til þess að taka ákvörðun. Þetta eru ekki nægar upplýsingar til þess að fara í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögformlegum gjörningi þó að sérfræðingar mundu skerast í málið, hvað þá að því er varðar okkur sem erum fæst sérfræðingar á sviði náttúrufars og dýralífs sem þó eru hér til í þessum sal. Þá er þetta hvergi nærri fullnægjandi. Þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum. Það liggur í augum uppi. Við getum deilt um það fram og til baka hvort hreindýrin voru tíu fleiri eða færri, hvort þau hefðu farið yfir Eyjabakkana á lengri eða skemmri tíma eða bitið þar lengur eða skemur. Við vitum þetta ekki. Við hreinlega vitum þetta ekki. Við eigum þess vegna að fara með þetta í mat á umhverfisáhrifum.

Ég vil þá koma að heiðargæsinni. Menn tala stundum af mikilli óvirðingu, ekki endilega í þessum þingsal, í almennum orðum í þjóðfélagsumræðunni, um gæsir með svona heldur léttvægum tón en átta sig ekki á því, a.m.k. mætti það af orðum dæma, að heiðargæsin er mjög sérstakur og verðmætur fugl. Þetta er verðmætur fugl. Þetta er verðmætur dýrastofn sem við Íslendingar berum meiri ábyrgð á heldur en flestar aðrar þjóðir. Allir vita, og óþarfi er að tala um það úr þessum ræðustól, að heiðargæsin fellir fjaðrir á Eyjabökkum og hún þarf alveg sérstakar aðstæður til þess að fella fjaðrir. Þær eru taldar upp í skýrslu Landsvirkjunar þar sem vitnað er væntanlega í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Landið þarf að hafa nokkur skilyrði sem gera það að kjörlendi sem fellistað fyrir gæsina. Í fyrsta lagi þarf að vera greiður aðgangur að vatni því gæsirnar fella ávallt fjaðrir í grennd við vatn og leita þangað við aðsteðjandi hættur. Gæsin þarf að hafa víðsýni. Gæsin þarf að geta séð óvini sína á löngu færi og hingað til hefur óvinur gæsarinnar fyrst og fremst verið refurinn. Refnum hefur nú borist nokkur liðsauki úr öðrum áttum og ætla ég ekki að vera með neinar samlíkingar á því sviði. Gæsin þarf að hafa næg beitarlönd þar sem prótínrík fæða er til staðar. Þessa prótínríku fæðu er ekki alls staðar að hafa. Hana er einmitt að hafa á Eyjabökkum þar sem landið kemur seint undan snjó og grasið fær kjarna sinn og safa þegar áliðið er sumars einmitt þegar gæsin kemur og er í sárum og þarf því að hafa beitarland sitt á Eyjabökkunum. Þetta búum við ekki til. Gæsin þarf að hafa afskekkt svæði þar sem mannaferðir eru ekki tíðar á fellitímanum í júlí. En þá segja menn: ,,Ef þetta er orðið svona mikið ferðamannasvæði þá verður það að sjálfsögðu eyðilagt og á þá að banna ferðamönnum að koma þarna og þar fram eftir götunum? Eru menn ekki orðnir tvísaga í málinu?`` Er mönnum ekki ljóst að á viðkvæmum varpsvæðum fugla, eins og t.d. við Mývatn, eru mannaferðir takmarkaðar þegar fuglinn þarf helst á friði að halda? Þurfa menn að vera nokkuð hissa á því þó að mannaferðir yrðu þá takmarkaðar um skamman tíma á Eyjabökkum? Það þýðir ekki það sama og að við ætlum ekki að hleypa nokkrum manni þangað. Að sjálfsögðu þyrfti að taka tillit til þeirrar viðkvæmu náttúru sem þar er á þeim skamma tíma sem gæsin er þarna.

[18:00]

Það má hafa langt mál um gæsina. Enginn veit hvað verður um gæsina og gæsastofninn þegar þessu landi verður fórnað undir vatn. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á slíku. Til eru aðferðir sem náttúrufræðingar hafa sagt mér frá sem eru áhætturannsóknir þegar náttúrufari er raskað, það hafa engar slíkar rannsóknir verið gerðar og enginn tími til slíks. Allt kallar þetta á mat á umhverfisáhrifum. Ég vil að það komi fram í umræðunni að fellistaðir gæsanna sem uppfylla þessi skilyrði um kjörlendi, sem ég var að lesa hér upp, eru takmörkuð auðlind. Hv. þm. Kristján Pálsson kom hér og talaði um að að gæsin hefði marga staði á hálendinu. Það er rétt að því leyti að gæsin hefur mjög marga varpstaði, heiðagæsin hefur mjög marga varpstaði, verpir mjög víða, en fellistaðirnir eru fáir. Það er takmörkuð auðlind. Eyjabakkarnir eru einstakir hvað þetta varðar og allt gáleysislegt tal um heiðagæs eins og einhvern ómerkilegan dýrastofn hæfir ekki umræðunni.

Því miður hef ég miklar efasemdir um þær upplýsingar að gæsin geti sætt sig við manngerð lón. Ég efast um að þar sé farið með rétt mál. Varðandi þær hugmyndir sem hafa komið fram um manngerða hólma þar sem gæsin á að taka sér bólfestu er hugsanlegt að þessir manngerður hólmar gætu nýst gæsinni til varps en sáralítið gætu þessir hólmar orðið fellistaður fyrir gæsina. Því miður. Ég hef kannað þetta hjá tveimur virtum náttúrufræðingum hérna og því miður er einfalt að segja það að ekki er hægt að binda vonir við þessa hólma. Kemur þar margt til, bæði stærðin og hið safaríka og prótínríka gras er ekki eins og húsagarður, þarna er um náttúrufarslegt ferli að ræða sem við eigum ekki auðvelt með að lífga með höndum okkar. Þar að auki eru allar líkur á því að rof verði gríðarlega mikið við þessa hólma þegar vatnsstaða er lág. Fleira gæti ég talið til sem náttúrufræðingar hafa sagt mér að muni að öllum líkindum verða þessari hugmynd að fjörtjóni. Í því bréfi og svari sem hv. þm. Kristján Pálsson las upp kemur fram hinn góði ásetningur, sem ég met hjá Landsvirkjun að gera tilraunir með þetta, en Landsvirkjun hefur ekkert fast í hendi og hvað þá heldur um að þarna takist að ná góðum árangri. Ég ætla ekki að fara neinum gáleysislegum eða kersknislegum orðum um þessar hugmyndir, ég held að þar liggi einlægur hugur að baki, bæði hjá þeim sem sett hafa þessar hugmyndir fram og eins líka hjá Landsvirkjum í þeim svörum. Maðurinn getur því miður ekki sagt gæsinni fyrir verkum, mönnum datt það síðast í hug þegar átti að sökkva Þjórsárverum hvort gæsin vildi ekki gjöra svo vel og færa sig á svæði sem átti að vera annars staðar en hurfu frá þeim hugmyndum.

Hvernig eru gæsarannsóknirnar gerðar? Gæsarannsóknirnar eru að stofni til gamlar. Þær gæsarannsóknir sem hafa verið gerðar eru byggðar á talningum að stofni til einu sinni á ári, þó svo þær hafi verið styrktar í nokkur skipti og þær hafa verið gerðar eins og sá sem það gerði sagði, ég stalst til að gera þær um leið og ég taldi hreindýrin. Þetta er talning á stofninum, dagspart, einu sinni, tvisvar eða þrisvar á sumrin eftir atvikum, yfirleitt einu sinni á sumri. Dagspartur einu sinni til tvisvar til þrisvar á sumri. Engar beitarrannsóknir. Samt hefur stofninn stækkað stórlega. Talað er um að þarna séu nauðbitin svæði, engar rannsóknir á beitinni. Engar rannsóknir. Engar ferlirannsóknir. Engar rannsóknir á hvenær gæsin kemur, hvert hún fer, og ekkert áhættumat sett fram um hvað muni gerast. Þetta er stofn sem við berum ábyrgð á. Hvað kallar þetta á? Þetta kallar að sjálfsögðu á mat á umhverfisáhrifum. En þingmenn ætla að sætta sig við þessa algjöru eyðu um svo ábyrgðarmikið mál og greiða atkvæði án þess að virkjunin fari í mat á umhverfisáhrifum og telja rúma viku í rannsókn umhvn. vera næga til þess að taka þessa ákvörðun.

Virðulegi forseti. Fleiri vafaatriði komu fram í umhvn. frá virtum sérfræðingum, sérfræðingum sem enginn efast um, hvorki umhvn. né annars staðar, og vil ég þar nefna eitt nafn --- Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands --- enginn efast um orð hennar og heiðarleika. Hún kom með margar ábendingar til nefndarinnar. Ein af þeim ábendingum sem prófessorinn kom með til okkar var að ekki væri með fullnægjandi hætti sýnt fram á í skýrslu Landsvirkjunar hvaða áhrif rof og fok gæti haft á Eyjabökkum. Þar er annars vegar byggt á nokkrum rannsóknum á Íslandi og sömuleiðis á bandarísku módeli en prófessorinn lagði fram skýr rök og gögn þess eðlis að við hljótum að efast um málið. Hvað kallar þetta á? Þetta kallar á rannsóknir, þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum. Ég ætla aðeins að draga fram eina mynd, hún er ekki tekin upp til þess að vera með slagorð eða hrakspár. En, virðulegi forseti, í þurrum árum fara saman tveir áhættuþættir. Það fara saman tveir áhættuþættir, vatnsstaðan í lóninu verður lág og landið er þurrt sem kemur undan vatningu, eða þornar fljótt. Þetta eru kjöraðstæður fyrir rofi og fok. Hverjar eru ríkjandi vindáttir við þessar aðstæður? Það er suðvestanáttin sem kemur þurr og hlý og oft nokkuð hvöss yfir Vatnajökul og hvert ber hún leirinn og sandinn nema að sjálfsögðu niður eftir gróðurhulunni í átt til byggðarinnar? Við erum að tala um gjörólíkar aðstæður því sem við værum að tala um ef þetta land væri lægra en ekki í 650 metra hæð. Hérna erum við með jaðarsvæði sem hefur að sjálfsögðu teygt sig til hins ýtrasta. Halda menn að röskun á þessu jafnvægi hafi engin áhrif? Ég er ekki að spá því sem kann þó að gerast að þarna teygi sig sandtunga úr botni uppistöðulónsins niður eftir hinu gróna svæði. Þar segir einhvers staðar í góðum kafla eða í góðum gögnum, sem ég kem ekki fyrir mig að vitna í með fullri vissu á þessu augnabliki að þá sé hægt eða þá verði að grípa til mótvægisaðgerða og bregðast við. Því miður, hæstv. forseti, eru aðstæður við Eyjabakka þannig að mjög erfitt er að bregðast við með nokkrum hætti. Innan við lónið er jökullinn og það er mjög erfitt að bregðast við uppblæstri og foki við þessar aðstæður.

Það er öllum kunnugt, sem hafa komið nálægt þessu máli að lónið fer allt niður í átta ferkílómetra og allir vita þá hverjar aðstæðurnar eru. Hafa þingmenn ekki komið að jökuljarðvegi, jökulleir, hafa þingmenn ekki séð þetta? Ég er alinn upp á svæði sem er ekkert langt frá slíkum svæðum, ég hef haft þetta fyrir augunum, ég veit alveg um hvað við erum að tala. Við erum að tala um gríðarlega áhættu á jaðarsvæði sem við eigum e.t.v. ekki kost á að takast neitt á við. Þó að af öðrum ástæðum sé og aðrar aðstæður ætla ég að minna menn á það hvernig hefur mönnum gengið að takast á við sandfokið við Dimmuborgir. Og hefur þó verið eytt býsna miklum peningum þar. Það er að vísu við aðrar aðstæður að etja en menn sjá það þegar jaðarsvæðin inn við Eyjabakka fara að rofna, þá er voðinn vís. Hvað kallar þetta á? Þetta kallar á frekari rannsóknir og mat á umhverfisáhrifum. Við höfum ekki þá þekkingu sem réttlætir svo afdrifaríka ákvörðun.

Herra forseti. Ég hef lagt mitt til að minnismerki um hraukana hafi verið reist í þingtíðindum og þingskjölum. Hraukarnir eru jökulmyndanir eða áhrif jökuls sem eru einstæðir á heimsmælikvarða. Þeir mynduðust við þær aðstæður að undir lok síðustu aldar gekk jökullinn mjög hratt fram í gróið land. Þar urðu til hraukarnir, nokkurs konar jökulgarðar eða bylgjuhreyfing, sem er jafnvel hvergi að finna í allri veröldinni. Fregnir hafa borist án tilvitnana um að slíkir hraukar eða sambærilegir séu á Svalbarða. Engin gögn hafa verið lögð fram um það. Mér er sagt af náttúrufræðingum að hraukarnir á Íslandi séu annarrar gerðar. Mikið er lítillæti okkar þingmannanna og lítillæti okkar Íslendinga um leið og við eyðileggjum hraukana að við getum hallað okkur á hliðina og sofnað rólega og sagt: Við skulum nú ekki hafa áhyggjur af þessu, hraukarnir eru til á Svalbarða. Það er meira lítillæti en ég get sætt mig við. Þessu á að fórna, ekkert mat á umhverfisáhrifum, engin tilraun gerð til að athuga hvort hugsanlegt væri að hafa lónið minna og reyna að verja 4--5 innstu kílómetrana sem eru verðmætastir. Ég ætla ekki að taka upp hina bráðsnjöllu og kersknislegu hugmynd hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að reka stálhlið niður inn við hraukana en það er von að hv. þm. hafi komið með slíka hugmynd í framhaldi af náttúrufræðifyrirlestrum sem hér hafa verið haldnir í þinginu. (Gripið fram í.) Þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum.

[18:15]

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi rakið hér hvert atriðið á fætur öðru sem snertir viðkvæm og verðmæt náttúrueinkenni sem ekki eru rannsökuð þá er það þó ótalið sem verst er. Það eru gróðurfarsrannsóknirnar. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að mér brá mjög í brún á þeirri rúmu viku sem við höfðum málið til umfjöllunar í umhvn., að sjá hversu gloppóttar þær rannsóknir eru. Mér fannst alltaf að dýralífsrannsóknirnar væru það sem mestar áhyggjur þyrfti að hafa af. Ég vissi eins og ég hef rakið hér að þær eru gloppóttar en mér kom aldrei til hugar að svæðið hefði verið jafnlítið rannsakað frá gróðurfarslegu sjónarmiði og raun ber vitni.

Ég ætla ekki að vera með neinar ásakanir. Ég efast ekki um að þeir sem gerðu rannsóknirnar hafi gert þær af heiðarleika og vandvirkni. Þar á meðal voru færustu sérfræðinga okkar og ég geri ekki lítið úr vilja Landsvirkjunar til þess að gera þær rannsóknir sem best úr garði. En virðulegi forseti, við skulum tala hér sannleika málsins. Grunnurinn í þessum rannsóknum er 20 ára gamall. Þar eru fyrst og fremst grunnrannsóknir sem byggja á tegundatalningum sem fram hafa farið og staðháttalýsing en engar vistfræðilegar rannsóknir eru gerðar og þær hafa ekki verið endurnýjaðar.

Landsvirkjun fékk ágætan grasa- og plöntufræðing, Ágúst H. Bjarnason, til að meta fyrri rannsóknir og gera ítarlegri rannsóknir. Ég met þessa tilraun Landsvirkjunar mikils en skelfilegt er að vita til að við skulum ekki hafa ítarlegri rannsóknir frá síðasta sumri um Eyjabakkana, ekki síst verðmætasta svæði Eyjabakkanna, hið innsta og hraukana og eyjarnar. Það er hörmulegt að síðasta sumarið sem þessi gróður fær að lifa með nokkurri vissu án þess að nærri komi vinnuvélar hafi ekki verið notað betur, a.m.k. af náttúrufars- og sögulegum ástæðum ef ég má orða það svo. Ef Landsvirkjun hefði notað þetta sumar og ekki látið vatnavexti í einhverja daga koma í veg fyrir það að kortleggja þetta svæði og gert þarna rannsóknir, ekki með einum manni heldur með nokkrum vísindamönnum sem hefðu tekið svæðið rækilega til rannsókna, ef þá hefði komið í ljós að þetta svæði og gróðurfar væri eins og fyrir 20 árum, þó það væru ekki vistfræðirannsóknir heldur fyrst og fremst tegundatalningar, þá stæðum við betur. En, herra forseti, við erum tómhent. Okkur vantar upplýsingar um Eyjabakkana.

Ég spyr hv. þingmenn: Treysta þeir sér til að styðja á hnapp og taka ákvörðun sem varðar svo mikilsvert svæði án þess að hafa ítarlegri gögn um gróðurfarið á Eyjabökkum en raun ber vitni? Hvað kallar þetta á? Þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum. Ég held því ekki fram að það eigi ekki að virkja þarna en við ættum aðeins að gera það á grundvelli bestu þekkingar og með bestu aðferðum. Það er ekki gert.

Niðurstaða okkar, virðulegi forseti, sem stöndum að 2. minnihlutaáliti umhvn. er því að Fljótsdalsvirkjun eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er meginniðurstaða okkar og sú efnislega niðurstaða er studd af þremur öðrum þingmönnum. Þessir fimm þingmenn eru efnislega samhljóða um sitt álit. Þessir fimm þingmenn eru að sjálfsögðu fleiri en hinir sem skrifa á 1. minnihlutaálitið. Það er hin mikilvæga niðurstaða. Í nefndinni eru fleiri þingmenn sem standa saman um þetta. Ég harma að menn hafi komið hér hvað eftir annað og reynt að tortryggja þessa niðurstöðu. Ég harma það að hv. þm. Kristján Pálsson hefur ítrekað komið í ræðustól og látið að því liggja að ég hafi með einhverjum hætti látið afstöðu mína í ljós á fundi með iðnn. þegar báðar þær nefndir hittust, umhvn. og iðnn. Það eru ósannindi og ósæmandi bera í þingsal, að bera upp á menn orð sem ekki hafa verið látin falla. (KPál: Hver er afstaða þingmannsins?) Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson kallar enn eftir afstöðu minni hér í þingsalnum. Mér finnst að með þessu sýni hann vanstillingu í þessu efni. Mín afstaða mun birtast þegar þar að kemur. (Gripið fram í: Er hún feimnismál?)

Virðulegi forseti. Fundur umhvn. og iðnn. var mjög ánægjulegur. Þar fluttu menn mál sitt af rökfestu og tilfinningu. Það var ánægjulegt og ég vil þakka hv. iðnn. og formanni hennar, hv. þm. Hjálmari Árnasyni, fyrir þann fund. En að slíkur fundur væri upplýsingafundur um atkvæði manna, jafnvel þó einhver slík orð hafi fallið, og þau orð ætti að bera inn í þingsalinn sem afstöðu þingmanna eru vinnubrögð sem ég kannast ekki við í þinghaldinu. Ég frábið mér þennan málflutning.

Meginatriði í áliti okkar er eftirfarandi:

,,Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar telur 2. minni hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum hennar, samkvæmt gildandi lögum, svo að tryggt sé að bestu fáanlegu upplýsingar og rannsóknir liggi til grundvallar ákvörðuninni um að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Telur 2. minni hluti að skorti á að fullnægjandi rannsóknir séu fyrir hendi. Þá telur hann ekki síður mikilvægt að allri lagaóvissu varðandi framkvæmdirnar verði eytt.``

Þetta eru meginatriðin í niðurstöðu okkar. Nál. liggur hér fyrir stutt af þremur þingmönnum auk hv. þm. Katrínar Fjeldsted og þess sem hér stendur. Álitið hefur styrk af þeim stuðningi sem er efnislega samhljóða. Samstaðan sem í því birtist er í samræmi við umfjöllunina í nefndinni og niðurstöðu þeirra þingmanna í umræðunum við fyrri afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla hér ekki að ræða frekar en þegar hefur verið gert um lagaóvissu málsins. Það tengist ekki aðeins framkvæmdaleyfi, deiliskipulagi og byggingarleyfi. Það tengist líka tilskipunum frá Evrópusamstarfinu og ég hygg að hv. þm. Katrín Fjeldsted muni gera því ítarleg skil. Nál. okkar er ítarlegt. Að baki því liggja gögn og meginniðurstaðan er sú sem hér hefur margoft verið endurtekin: Málið er ekki fullbúið til afgreiðslu í þinginu og á að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Virðulegi forseti. Mig vantar gögn sem ég ætlaði að lesa. Á borðinu mínu liggja lögin um náttúruvernd, náttúruverndarlögin liggja hér á borði sessunautar míns, ef ég má biðja hv. þingmenn og forseta afsökunar meðan ég geri málhvíld.

(Forseti (HBl): Það er sjálfsagt að bera pappír til hv. þm.)

Mér þykir vænt um það. Starf einnar nefndar var í fjölmiðlum metið af einum hv. þm. í kílóum. Mér þótti það í stíl við margt sem við erum að gera hér. Rökin eru í kílóum.

Virðulegi forseti. Ég vil vitna í náttúruverndarlögin. Náttúruverndarlögin tóku gildi 1. júlí 1999. Í 37. gr. er fjallað um sérstaka vernd og þar er mörkuð stefnan varðandi landsvæði eins og Eyjabakkana, með leyfi forseta:

,,Eftirtaldar landslagsgerðir njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:``

Virðulegi forseti. Ég óska sérstaklega eftir því að hv. formaður iðnn. veiti því athygli (Gripið fram í: Hann hlustar.) sem ég segi hér núna.

(Forseti (HBl): Formaður iðnn. er óvenjuathugull maður.)

Þess nýt ég nú þegar ég les fyrir hann 37. gr. náttúruverndarlaganna sem við samþykktum. Það voru tímamótalög í umhverfismálum á Íslandi og mikill sómi að því að Alþingi samþykkti þau, en þar segir í 37. gr.:

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að ef prentað mál er lesið skal óska eftir heimild forseta.)

Virðulegi forseti. Ég óska eftir heimild til að lesa 37. gr. náttúruverndarlaganna en þar segir svo:

,,Eftirtaldar landslagsgerðir njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:

a. eldvörp, gervigígar og eldhraun,

b. stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri,`` --- þetta á við um Eyjabakkana.

,,c. mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri,`` --- þetta á líka við um Eyjabakkana.

,,d. fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri,

e. sjávarfitjar og leirur.``

Virðulegi forseti. Þetta hefur ekkert með afturvirkni laga um umhverfisáhrif að gera eða stöðu Fljótsdalsvirkjunar í því samhengi. Þetta hefur með hin bestu lög að gera. Þetta gildir um þennan gjörning og þá röskun sem þarna mun valdið hvað sem öllum virkjunar- og framkvæmdaleyfum líður. Við erum að ganga gegn því sem er einn af burðarásunum í náttúruverndinni. Ég vitna síðan aftur í lok 37. gr., með leyfi forseta:

,,Leita skal umsagnar Náttúruverndar ríkisins og náttúruverndarnefnda áður en veitt er framkvæmda- eða byggingarleyfi, sbr. 27. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun landslagsgerða skv. 1. mgr. nema fyrir liggi aðalskipulag samþykkt eftir gildistöku laga þessara þar sem umsögn skv. 33. gr. liggur fyrir.``

Virðulegi forseti. Ljóst er að aðalskipulag á Eyjabakkasvæðinu hefur ekki legið fyrir né liggur það fyrir nú. Við erum að ganga gegn náttúruverndarlögunum. Það ætla menn að gera blákalt. Ég vil ekki segja að menn geri það samviskulaust því ég veit að menn hafa ríkar ástæður og gera þetta ekki ógrátandi eða með glöðu geði. Það veit ég. En mat þeirra er annað en mitt, lífssýn þeirra önnur en mín. Þeir eru tilbúnir að samþykkja þessar framkvæmdir, þeir hv. þm., án þess að þær fari í mat á umhverfisáhrifum. Ég er ekki tilbúinn til þess.

[18:30]

Hæstv. forseti. Ég hef enn ekki komið að nokkru sem ég vil gera að umtalsefni varðandi Eyjabakka. Við höfum skrifað undir og tekið fulla ábyrgð á alþjóðlegum samningum um náttúruvernd og náttúrufar. Með því að fara í Fljótsdalsvirkjun án mats á umhverfisáhrifum erum við að brjóta þessa samninga. Hv. þm. geta yppt öxlum og sagt: Þetta eru ekki bindandi samningar og við getum gert það sem okkur sýnist. Engu að síður höfum við, siðferðilega og að mörgu leyti öðru, undirgengist að virða þessa samninga. Þarna er um að ræða, án þess að ég hafi farið nánar út í þá, svokallaðan Ramsar-sáttmála og Bernarsáttmálann. Við höfum tekið þátt í Ríó-ferlinu og ég hef áður getið um tengsl þessa máls við Evrópusamþykktir. Gegn öllu þessum ætlum við að ganga. Við ætlum ekki að taka þátt í því starfi sem við höfum undirgengist í samráði við aðrar siðmenntaðar þjóðir.

Ég er ekki að spá því að Íslendingar verði bannfærðir. Ég hef þó sótt nokkra fundi og ráðstefnur þar sem þetta mál hefur á einhvern hátt komið til umræðu. Furða manna er mikil og menn spyrja: Hvað dregur ykkur til þessa gjörnings án þess að fara í hið lögformlega mat? Hver er neyð ykkar Íslendinga? Knýr neyðin svo hart dyra hjá ykkur að þið verðið að beita þessum aðferðum? Mér hefur orðið fátt um svör.

Virðulegi forseti. Ég hef getið um að meta þurfi þessa framkvæmd alla í heild, bæði álverið og virkjunina. Ég hef undanfarið verið í sambandi við umhverfisfræðinga og umhverfisstofnanir í nágrannalöndum okkar. Það er samdóma álit þeirra að horfa eigi á þetta í heild sinni og einnig horfa til þeirra virkjana sem óhjákvæmilega munu koma í framhaldi af þessu. Ég vitna til þess að í lok hins fræga Hallormsstaðafundar, þar sem gengið var frá samkomulagi við Norsk Hydro, var viðtal í Morgunblaðinu við þáverandi ráðuneytisstjóra og aðalsamningamann Íslands, Þórð Friðjónsson, í Morgunblaðinu. Þar getur hann þess að arðsemi virkjunarinnar muni minnka á næstu 10 árum og þá verði þörf á að stækka hana til þess að hún standi undir þeim arðsemiskröfum sem gerðar eru. Af langri reynslu tek ég fullt mark á orðum Þórðar Friðjónssonar.

Þá hlýtur að verða spurt, jafnvel þó arðsemi virkjunarinnar færi ekki minnkandi: Hvar á að virkja næst? Það vita allir. Að öllum líkindum verður virkjað í Kárahnúkum. Að sjálfsögðu áttum við þá strax að horfa til enda þessa máls og meta Kárahnúkavirkjun líka. Við áttum að sjálfsögðu að klára Bjarnarflagið og línulögnina, allt í einu vinnuferli. Fram hjá þessu er líka gengið. Hvernig halda menn að staðan verði eftir 10 ár ef arðsemi virkjunarinnar dvínar? Hvar stöndum við þá, Íslendingar og íslenskir fjárfestar, ef jafnvel fé úr lífeyrissjóðum okkar er undir í málinu? Hvað halda menn að þá verði gert? Að sjálfsögðu verður ekki hægt að standa gegn því að fara í frekari virkjanir. Mat á umhverfisáhrifum mun sennilega litlu breyta þar um. Þá höfum við tekið tvo dýrmætustu hluta landslagsheildarinnar, Eyjabakkana annars vegar og Dimmugljúfur og Kárahnúkasvæðið hins vegar. Það er verulegur munur á lífsviðhorfum mínum --- ég vil þar telja mig í hópi allmargra þingmanna --- og viðhorfum annarra sem finnst manngert umhverfi sambærilegt og jafnvel eftirsóknarverðara en það ósnortna.

Ég vitna ekki í einkasamtöl. Ég veit að oft gera menn sér leik í léttri stríðni og gamansemi. En menn sem telja Dimmugljúfur fegurri og aðgengilegri þegar þau eru orðin þurr að mestu leyti, að ágætt sé að hafa þau þannig vegna þess að þá sé hægt að ganga inn þau, sjá náttúruna í allt öðru ljósi en ég. Menn sem sjá fossana þeim mun betri sé hægt að stýra þeim með einhverjum búnaði eins og krana sjá verðmæti ósnortins lands allt öðruvísi en ég.

Við þurfum að huga að þessu þegar farið er út í þessa framkvæmd. Við þurfum að huga að því að við erum að fara út í á þar sem við eigum ekki afturkvæmt til sama lands. Því miður er málatilbúnaðurinn þannig að menn eru komnir í dýpra vatn en stígvélin þola. Menn eiga ekki nokkra leið aðra en að koma sér út í álinn þar sem hann er enn dýpri. Ég spái því að menn verði býsna blautir og hraktir þegar þeir koma upp hinum megin, fátækari og kaldari en áður en þeir lögðu í þennan hörmulega leiðangur.

Allt þetta kallar á mat á umhverfisáhrifum.

Virðulegi forseti. Í samtölum okkar við sérfræðinga hefur orðið ,,landslagsheild`` verið notað hvað eftir annað, enda á það sér stoð í náttúruverndarlögum og í grunnhugsun um náttúruverndarmál. Einn sérfræðinganna sem heimsótti nefndina hefur orðað það svo að landslagsheildin við Eyjabakka hafi náttúruverndargildi á heimsmælikvarða. Nú er ég ekki að tala um fegurðarmat. Ég ætla ekki að rifja upp nein orð um fegurð í því samhengi. Hin ósnortnu víðerni, gróðurvana öræfin --- þó þar séu stingandi strá þó við sjáum þau ekki þegar við lítum yfir --- hin svarta heild, áin með gróðri sínum, jökulinn að baki og síðan hin ægifagra drottning Snæfellið ásamt gróðurþekjunni órofinni allt til sjávar, er landslagsheild sem án tilvísunar til fegurðar hefur náttúruverndargildi á heimsmælikvarða. Þó að ég viðurkenni að vatn sé ekki ljótt þá er virkjun og spjöll á þessari landslagsheild slíkt sár, slíkur skaði og missir fyrir okkur að við ættum að láta allar framkvæmdir á svæðinu fara í mat á umhverfisáhrifum.

Hæstv. forseti. Þó að ég hafi getið um landslagsheildina án tillits til fegurðar ætla ég undir lok máls míns að koma að fegurð svæðisins. Hvers virði er fegurðin okkur? Hefur fegurðin gildi? Er hún verðmæti? Hvernig metum við verðmæti? Við getum horft í huga okkar, til tilfinninga okkar, jafnvel til efnislegs mats okkar á ljóðum, höggmyndum, málverkum og útsýninu úr húsinu okkar o.s.frv. Flest af því sem ég nefni er einmitt hægt að verðleggja, listaverkin og útsýnið úr húsinu. Þegar við horfum til fortíðar, til bókmennta okkar, til ljóða skáldanna og finnum fyrir þeirri hrifningu, þeim tilfinningum sem þar koma fram og að þær tilfinningar eigi samsvörun í brjósti okkar, þá finnum við að þó að við getum ekki verðlagt ljóð Íslendinga þá hafa þau gildi. Fegurðin hefur gildi. Þau gildi hafa lengra líf og jafnvel meiri en hin efnislegu.

Menn hafa ekki viljað taka tilfinningar og fegurð inn í þetta vegna þess að yfirleitt er lítið gert úr þeim þáttum. En tilfinningar upplýstra og heilbrigðra manna eru ekki hugarórar heldur afrakstur heilbrigðrar skynsemi, heilbrigðs mats og heilbrigðrar hugsunar og samskipta manns við mann --- manns við náttúru. Með því að fara í þessa virkjun án þess að með nokkrum hætti sé litið til þessara atriða og án mats á umhverfisáhrifum er verið að gera lítið úr og vanvirða tilfinningar fólks.

Allir þekkja tilvitnanir um fegurðina úr bókum og ljóðum, sögum og kvæði um. Eitt af því sem okkur hefur öllum komið til hugar þó ég muni ekki eftir því að nein hafi haft það á orði er tilvitnun í Heimsljós Halldórs Laxness. Ég vil leyfa hv. þm. sem staddir eru í salnum og öðrum sem heyra mál mitt að rifja þau orð upp með mér. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt en jörðin fær hlutdeild í himninum. Þar búa ekki framar neinar sorgir og þess vegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.``

Það er einmitt, virðulegur forseti, þessi tilfinning sem maður fær þegar maður stendur á Eyjabökkum. Þar ber jökulinn við loft og maður finnur fyrir tilfinningum sem ekki verða verðlagðar með kílóvattstundum eða peningum sem boðnir eru í skiptum fyrir þær tilfinningar sem fyrir borð eru bornar með virkjunum.

Ég var á Eyjabökkum með iðnn. og umhvn. Ég hef reyndar komið þar áður. Ég hef oft og tíðum farið langar ferðir og verið einn úti í náttúrunni. Ég dró mig út úr hópnum á Eyjabökkum og hlustaði á náttúruna. Í því hef ég nokkuð langa reynslu og einmitt þessi þögn, óspillta víðátta og ósnortnu víðerni sem vekja hjá manni tilfinningu sem ég er ekki tilbúinn að selja nema svæðið verði metið og sýnd sú virðing sem því ber.

En eins og fegurðin ríkir ofar hverri kröfu á Eyjabökkum þá ríkir hér á Alþingi, ofar hverri kröfu sem sett er fram, virðingarleysi fyrir almenningi, virðingarleysi fyrir íslenskri náttúru, virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum og þeim kröfum sem við eigum að gera til sjálfra okkar, þegar við hrifsum réttinn til að klára lögformlegan gjörning úr höndum almennings. Ég get ekki afsakað það fyrir mér eða öðrum. Hv. þm. Kristján Pálsson og aðrir þingmenn munu komast að því hvernig ég greiði atkvæði þegar þar að kemur.