Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 18:45:49 (3489)

1999-12-18 18:45:49# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, mér er það ljúft að þakka hv. iðnn. fyrir ánægjulegt samstarf og sérstaklega fyrir ferðina góðu sem við fórum saman og höfðum mikið gagn af. Ég reyndi að haga orðum mínum svo áðan að það skildist að ég var að tala um þann tíma sem við höfðum til gagnaöflunar hér á þingstaðnum og til öflunar frekari gagna og til þess að fá til okkar gesti og síðan að meta þessi gögn. Ég geri ekki lítið úr að við höfðum skoðað málið frekar, það er rétt, en það var fjarri því nóg eins og ég rakti.

Hvað þarf langan tíma? Ég treysti mér ekki til þess að kveða upp úr um hversu langan tíma þarf til þess að leysa ýmis þau álitaefni sem krefjast svara og ég rakti bæði um náttúrufar og lagaóvissu. En sá tími er þess virði að honum sé eytt miðað við þá gríðarlegu hagsmuni og þær miklu deilur sem eru uppi í þjóðfélaginu um þetta mál. (Forseti hringir.)

Ég verð að svara þriðju spurninguni síðar.