Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:08:11 (3508)

1999-12-20 10:08:11# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:08]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fyrst vegna ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að hér sé verið að veitast að persónu, þá kemur það ekkert á óvart að hann skuli taka þannig til máls, enda er honum það sjálfsagt nokkuð tamt úr þessum ræðustóli. Hins vegar hefur aldrei verið veist að persónu. Hér er verið að fjalla um embættisfærslur og menn geta haft skoðanir á því og eiga að hafa þær.

Málið snýst í rauninni um tvennt, herra forseti. Það snýst annars vegar um þá fullyrðingu sem fram kemur í skýrslunni, og eru engar dylgjur, að framkvæmdaraðilar hafi ekki fallist á þá skoðun skipulagsstjóra að taka umhverfismat álvers í Reyðarfirði í áföngum og miða við 120 þús. tonna álver til að byrja með. Það hefur komið fram, herra forseti, að framkvæmdaraðili óskar eftir því. Það kemur jafnframt fram í skýrslunni, úrskurðarskýrslu skipulagsstjóra, að Náttúruvernd ríkisins mælir með því, Veðurstofan mælir með því og síðar hefur komið í ljós að Hollustuvernd ríkisins mælir með því.

Herra forseti. Ég gekk mjög eftir þessu á umræddum fundi hv. iðnn. með skipulagsstjóra og var að leita eftir afstöðu Hollustuverndar ríkisins. Hún kom ekki fram, en fram kom það mat skipulagsstjóra að hann teldi ekki hægt að áfangaskipta umhverfismatinu. Það kemur síðan í ljós, herra forseti, í bréfi frá Hollustuvernd ríkisins að mælt er með því að hafin verði vinna við útgáfu starfsleyfisins. Hollustuvernd treystir sér til þess. Níu af 13 úrskurðaratriðum fjalla einmitt um þætti sem snerta Hollustuverndina. Það sem meira er, herra forseti, í sjálfri skýrslu skipulagsstjóra er hvergi minnst á þessa niðurstöðu í niðurlagi bréfs Hollustuverndar ríkisins til skipulagsstjóra 6. desember og það, herra forseti, finnst mér óeðlilegt og kalla að leyna upplýsingum.