Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:10:35 (3509)

1999-12-20 10:10:35# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason tók ekki fram í ræðum sínum þegar hann veittist þrisvar sinnum að skipulagsstjóra og snoppungaði hann fjarstaddan á laugardaginn, að hann væri ekki að ráðast á persónu heldur á embætti. Það var ljóst að þetta var upphafið að skipulagðri aðför hv. þm. og e.t.v. einhverra félaga hans að þeim embættismanni vegna þess að þeir sættu sig ekki við tiltekinn úrskurð.

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. fór síðan að reifa efnislega er þannig vaxið að þessa umrædda bréfs er getið nokkrum sinnum í skýrslunni, greinargerðum og gögnum sem frá stofnuninni bárust til nefndarinnar og ekki bara það, heldur barst sérstakt bréf undirritað af starfsmanni Skipulagsstofnunar til nefndarinnar þar sem þetta er rakið. Mig minnir að það hafi verið dagsett 6. desember. Það var lesið upp af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Á mannorð embættismanns að gjalda fyrir það að hv. þm. Hjálmar Árnason nennir ekki að kynna sér gögnin?

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. kom hingað upp og sagði efnislega að starfsmenn Skipulagsstofnunar hefðu ekki leynt iðnn. gögnum og hæstv. ráðherra sagði: Ég hef enga ástæðu til að ætla að þeir fari með rangt mál. Herra forseti. Það þarf ekki að segja annað í þessu máli, hér er aðeins eitt eftir, herra forseti, og það er að hv. þm. Hjálmar Árnason sjái sóma sinn í því að koma hingað upp og biðja þennan embættismann afsökunar. Annað væri til skammar fyrir þingið og til skammar fyrir hann.