Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:12:24 (3510)

1999-12-20 10:12:24# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram tek ég undir þá kröfu að hv. iðnn. komi saman og fari yfir þau gögn sem hafa komið frá skipulagsstjóra ríkisins um það mál sem var til umræðu á laugardaginn og sérstaklega eftir málatilbúnað hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem er formaður nefndarinnar. Það er full ástæða til þess að nefndin komi saman og fari yfir þau gögn því að hér er verið að veitast mjög alvarlega að embættismanni. Í umræðunni á laugardaginn var ljóst að verið var að veitast að persónu skipulagsstjóra. Talað var um að skipulagsstjóri hefði leynt okkur gögnum á klukkutímalöngum fundi þar sem farið var yfir skýrslu skipulagsstjóra upp á tæpar 60 síður, sem þingmenn höfðu ekki séð áður, og farið yfir athugasemdir upp á 13 liði þar sem gerðar eru athugasemdir við umhverfismat vegna álvers í Reyðarfirði. Það var ekki verið að fara hægt yfir þetta, gefinn mjög skammur tími til að fara í þessa umræðu. Við sem sátum þennan fund urðum ekki vör við að verið væri að leyna nokkrum upplýsingum, eins og kom raunar fram í máli hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur.

Ég fer fram á það, herra forseti, að iðnn. komi saman og fari yfir þau gögn þannig að þessi mál verði öll skýr og vissulega á hv. þm. að biðja skipulagsstjóra afsökunar á því hvernig hann hefur komið fram og veist að honum í umræðu úr þessum ræðustóli þar sem hann er ekki til andsvara.