Gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 10:17:18 (3513)

1999-12-20 10:17:18# 125. lþ. 50.91 fundur 242#B gagnrýni formanns iðnn. á skipulagsstjóra ríkisins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[10:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Forseti hlýtur að sjá að ekki er hægt að halda áfram með umræðuna með þá togstreitu í salnum um hver sagði hvað. Mér hefur heyrst að hv. þm. séu allan tímann að tala um hvernig Hollustuvernd vilji bregðast við þeim 13 atriðum í niðurlagsorðum úrskurðar skipulagsstjóra sem eru ástæða þess að hann telur að fara þurfi í frekara umhverfismat með álverið. En hv. þm. er alltaf að hamra á því að skipulagsstjóri hafi ekki viljað auglýsa 120 þúsund tonna álver.

Herra forseti. Það var vegna þessarar togstreitu sem endurspeglaðist á fundi í iðnn. sem ég óskaði sérstaklega eftir að meginatriði sem þar var lýst af hálfu Skipulagsstofnunar yrðu send mér á tölvupósti og ég vísaði því til þess, með orðum Skipulagsstofnunar sjálfrar á fundi okkar fyrir helgi, að það væri nákvæmlega þannig sem skipulagsstjóri lagði til að farið yrði í málið. Skipulagsstjóri lagði til við framkvæmdaraðila, Landsvirkjun, að kynnt yrði 120 þúsund tonna álver með heimildum til stækkunar. Það var framkvæmdaraðilinn sem ákvað að kynnt yrði 480 þúsund tonn álver. Þannig stendur málið. Mér líst ekki á að við reynum að leysa þetta mál í ræðustól Alþingis og legg til að forseti verði við þeirri ósk, sem ég hef sett fram, að iðnn. komi saman, hitti fulltrúa Skipulagsstofnunar og leysi þetta mál.