Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 11:05:24 (3517)

1999-12-20 11:05:24# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[11:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða hér hvort heimila eigi áframhaldandi virkjunarframkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Afstaða Samfylkingarinnar er skýr. Við viljum að fram fari umhverfismat og ekki verði haldið áfram nema að jákvætt mat hafi komið fram í garð þess að virkjað verði.

Eins og fram kemur í nál. okkar samfylkingarþingmanna í iðnn. höfum við lagt fram tvö mál í þinginu til að leggja áherslu á þá afstöðu okkar. Annars vegar erum við með brtt. við þál. um að fram fari umhverfismat og menn verða að taka afstöðu til þess í atkvæðagreiðslu í þinginu hvort fram skuli fara umhverfismat áður en haldið verður áfram, ef það verður niðurstaðan.

Við höfum einnig lagt fram frv. um að öll virkjunarleyfi skuli háð umhverfismati, óháð bráðabirgðaákvæðinu sem ríkisstjórnin hangir í til að koma í veg fyrir að þessi virkjun fari í umhverfismat.

Við erum búin að ræða þetta mál í heilan dag og höldum nú áfram. Í umræðunni hefur komið fram mjög hörð gagnrýni á vinnubrögðin og á málsmeðferðina hér í þinginu. Frá þeim sem hafa fjallað um umhverfisþáttinn hafa komið fram gild rök fyrir því að hér skorti rannsóknir á svæðinu o.fl.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði ítarlega grein fyrir afstöðu okkar er hún mælti fyrir nál. iðnn. Ég ætla því ekki að endurtaka það sem hún sagði hér. Sömuleiðis hyggst ég ekki fara ítarlega yfir umhverfisþáttinn þar sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður umhvn., hélt ítarlega og yfirgripsmikla ræðu á laugardaginn þar sem hann fór yfir fjölmörg rök fyrir nauðsyn þess að fram fari umhverfismat áður en ákvarðanir um frekari virkjunarframkvæmdir yrðu teknar.

Herra forseti. Alvarlegast í allri þessari umræðu er hvernig stjórnvöld skella skollaeyrum við athugasemdum lærðra hagfræðinga um þetta mál. Að minnsta kosti þrír hagfræðingar hafa fullyrt í fjölmiðlum, í greinum og tímaritum, að virkjun í Fljótsdal geti ekki skilað hagnaði. Af henni verði milljarðatap hvernig sem á það er litið. Þetta er mjög mikið alvörumál, herra forseti.

Upplýsa verður almenning, sem við vitum að mun borga brúsann, um það hvort hér er verið að fara út í bullandi taprekstur á virkjun sem í ofanálag mun leiða til gífurlegra umhverfisspjalla og leiða af sér óbætanlegt tjón fyrir íslenska náttúru. Ég get ekki séð annað, herra forseti, en að við verðum að krefjast þess að óháðir aðilar reikni út arðsemismatið og þingið fari fram á það áður en menn taka afstöðu til málsins að fram fari útreikningar á arðsemismatinu, þ.e. arðsemismati óháðra aðila, því að ef í ljós kemur að ekki er hægt að reka þessa virkjun öðruvísi en með tapi verður auðvitað ekki farið út í þetta ævintýri.

Það er með ólíkindum að stjórnvöld ætli að hunsa útreikninga þeirra hagfræðinga sem hafa með ólíkum aðferðum og á mismunandi forsendum allir komist að sömu niðurstöðu, þeirri niðurstöðu að á þessari virkjun verði milljarða taprekstur. Það gengur ekki að hlusta aðeins á hagfræðinga Landsvirkjunar sem er hagsmunaaðili í málinu.

Nú er ég ekki neinn sérfræðingur í efnahagsmálum, lærði reyndar smávegis í þjóðhagfræði og rekstrarhagfræði hjá virtum prófessor við Háskóla Íslands, fyrrv. þingmanni Sjálfstfl., dr. Ólafi Björnssyni, þegar ég var þar við nám. En ég tel mig ekki vera þá fagmanneskju að geta metið þessa útreikninga á þeim upplýsingum sem liggja fyrir, hvort þeir eru réttir eða rangir. En þó, af þeirri litlu þekkingu sem ég hef, get ég ekki séð annað en að þarna sé verið að fara með nokkuð sannfærandi rök fyrir málinu. Og ég hef ekki orðið vör við það, herra forseti, að þeir sem hafa komið að málinu og reynt að hrekja staðhæfingar þessara hagfræðinga hafi á nokkurn hátt hrakið þær niðurstöður sem þeir hafa komist að.

Ég ætla mér ekki að fara ofan í útreikninga þessara aðila í smáatriðum. En ég tel mig bera ábyrgð gagnvart því fólki sem kaus mig á þing og ég get ekki séð að þingmenn, hvorki ég né aðrir, geti tekið afstöðu til áframhaldandi virkjanaframkvæmda í Fljótsdal nema það sé á hreinu hvort af henni verður tap eða ekki. Þess vegna þurfum við að fá óháð arðsemismat til að geta metið það hvort við getum samþykkt það hér í þessum sal að haldið verði áfram við þessar framkvæmdir. Það er það fyrsta sem við verðum að gera og það sem er mest aðkallandi í málinu núna eftir þær upplýsingar sem komið hafa frá þessum fræðimönnum og sérfræðingum í efnahagsmálum.

Allir útreikningar þessara þriggja manna á mismunandi forsendum, byggðir á mismunandi forsendum og aðferðum, leiða í ljós sömu niðurstöðu. Þetta eru hagfræðingarnir Sigurður Jóhannesson, Þorsteinn Siglaugsson og nú síðast Guðmundur Ólafsson. Og ef óháð mat kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé taprekstur og verði aldrei annað, þá þurfum við ekki að ræða hér einu sinni um umhverfismat því að það væri óðs manns æði að fara út í slíka fjárfestingu og dytti varla nokkrum heilvita manni í hug. Og þá er það skylda Alþingis að stöðva slíkt fjármálaævintýri.

Við eigum að láta þetta okkur varða. Hv. þm. Gunnar Ingi Gunnarsson, sem talaði á undan mér, fór yfir söguna í virkjanamálum Íslendinga. Ég ætla ekki að fara að endurtaka hana hér. Við eigum að láta reynsluna vera okkur víti til varnaðar og ganga þessi skref hægt. Við viljum ekki fleiri Kröfluævintýri, herra forseti.

Þeir hagfræðingar sem hafa með ólíkum aðferðum reiknað út að þetta verði aldrei annað en tap eru allir virtir fræðimenn. Og ég minni á, herra forseti, að þessir menn gera aldrei ráð fyrir að verið sé að greiða neitt fyrir þá náttúru sem þarna er til staðar, sem menn hafa bent á að eðlilegt væri og taka með í reikninginn.

[11:15]

Og ég velti fyrir mér, herra forseti, hvernig standi á því að ráðamenn treysta ekki frænda sínum, Sigurði Jóhannessyni, sem kemst að þeirri niðurstöðu, hvernig sem hann reiknar, að tap verði á þessu. Ég minni á að ... (HjÁ: Frændi hverra?) Það kemur að því, fyrst kallað er hér úr sal hver sé frændi hvers í þessum efnum, þá minni ég á að þeir frændur úr Viðey, Björn Bjarnason og Halldór Blöndal, hafa ekki sparað það að leita til þeirra frænda sinna, Sigurðar og Benedikts Jóhannessonar úr Talnakönnun þegar leita hefur átt álita á ýmsum málum sem snúa að efnahagslífi þjóðarinnar. Og þeir hafa ekki efast um þá útreikninga og þá fagvinnu sem þeir hafa unnið á fjármálasviði og hafa ekki séð ástæðu til þess að rengja neitt útreikninga þeirra og fagmennsku. (Gripið fram í: Hvernig eru þeir skyldir?) Þessir menn eru systkinabörn, en það á auðvitað ekki að skipta máli. Þeir hafa treyst þeim mönnum í útreikningum og ég efast ekki um að þeir eru traustsins verðir. (KPál: Þú dregur þetta inn í málið.) Ég dreg það inn í málið vegna þess að þeim hefur verið treyst, þeir hafa verið fengnir til að vinna fyrir ríkisstjórnina og það er hægt að treysta þeim að mínu mati og þeirra sem hafa fengið þá til að vinna fyrir sig.

En allt í einu fer ríkisstjórnin að efast um þessa útreikninga. (KPál: Hvenær fer skyldleikinn að hafa áhrif?) Og þegar Sigurður kemst að þeirri niðurstöðu, hvernig sem hann reiknar, að hér verður aldrei nema um tap að ræða lokar ríkisstjórnin bæði augum og eyrum, þegar sú niðurstaða sem þessir virtu fræðimenn komast að er ekki ríkisstjórninni í vil.

Það má geta þess að Sigurður Jóhannesson hefur hrakið öll rök sem komið hafa fram frá virkjunarsinnum og Landsvirkjun sem hafa verið að reyna að hrekja niðurstöðu hans. Og eftir að þeir bentu honum á að forsendur hans væru ekki réttar --- reyndar notaði hann forsendur sem Landsvirkjun gaf upp sjálf --- og hann leiðrétti útreikninga sína kom enn út tap og milljarðatap.

Það er sama hvernig reiknað er. Það er útilokað annað en að tap verði á Fljótsdalsvirkjun, verði hún reist, miðað við það verð sem viðgengst á mörkuðum í þessum iðnaði.

Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri í Stokkhólmi, hefur einnig sýnt fram á það með hagfræðilegum og mjög sannfærandi rökum að tapið verði frá 4 að 20 milljörðum að gefnum mismunandi forsendum. Og ekki er hægt að tala um það að Þorsteinn sé andstæðingur ríkisstjórnarinnar eða baráttumaður gegn stóriðjustefnu, það er hann vissulega ekki. Þorsteinn er mætur sjálfstæðismaður og mikill frjálshyggjumaður, sagði hann mér sjálfur, fyrrverandi ritstjóri Stefnis og stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann telur einnig að Fljótsdalsvirkjun sé ólögleg, verði hún reist og rekin með tapi. Það kom fram í grein hans í Morgunblaðinu nýverið og væri full ástæða til að fara ofan í saumana á því, einnig hér í þessari umræðu. (Gripið fram í: Ólögleg með hvaða hætti?) Ólöglegt er að reka með tapi og láta almenning greiða niður tap á rekstri til stóriðju samkvæmt lögum um Landsvirkjun.

Og síðast vil ég nefna þann þriðja hagfræðing sem hefur verið að gera sig gildandi í umræðunni um arðsemismál Landsvirkjunar og það er Guðmundur Ólafsson, lektor við Háskóla Íslands, sem er mikill virkjanasinni og, herra forseti, stóð í miklum deilum á netinu við þá sem voru á móti virkjuninni um það að fara ætti í þessa virkjun. Og herra forseti getur kannað það á skjánum hjá sér, ég sé að hann er mjög iðinn við að skoða sinn tölvuskjá, og gæti farið inn á heimasíðu Guðmundar Ólafssonar og kynnt sér hvernig hann barðist fyrir því að menn færu í Fljótsdalsvirkjun.

Þegar Guðmundur Ólafsson hagfræðingur fór síðan að reikna út máli sínu til stuðnings að fara ætti í þá virkjun og notaði allar fræðikenningar í hagfræðinni til að reikna þetta út var honum heldur betur brugðið. (KPál: Þá var hann búinn að reikna út Samfylkinguna.) Og það var sama hvernig hann reiknaði, ekki var nokkur leið að fá hagnað út úr þessu fyrirtæki, hvorki af rekstri virkjunarinnar né af fé því sem til hennar færi.

Og, herra forseti, vegna frammíkalls Kristjáns Pálssonar verð ég að segja að það er furðulegt að stjórnvöld skuli ekki hlusta á virkjanasinnann Guðmund Ólafsson. Hann þótti nefnilega ekki slæmur pappír, hvorki í herbúðum Framsfl. né Sjálfstfl., fyrr á árinu, fyrir kosningar. Þá var hægt að vitna í hann út og suður. Þá voru útreikningar hans og skoðanir í góðu gildi, herra forseti.

(Forseti (ÍGP): Ég vil minna hv. ræðumann á að það ber að ávarpa þingmenn í þriðju persónu.)

Herra forseti. Þingmaðurinn var að tala við forseta í máli sínu, eins og kom fram í lok setningarinnar.

Herra forseti. Ég gæti farið í löngu máli yfir útreikninga þessara fræðimanna. Nóg hafa þeir skrifað undanfarið. En eins og ég kom að áðan er ég ekki sérfræðingur í efnahagsmálum og ég er ekki viss um að margir slíkir séu hér í salnum. Þess vegna tel ég fullkomlega eðlilegt og fullkomlega réttmæta kröfu að gert verði óháð arðsemismat á þessum framkvæmdum áður en þáltill. fer í atkvæðagreiðslu í þinginu. Það er óþolandi fyrir almenning, sem á að standa straum af kostnaði við þá virkjun og álverinu, sem mun koma í kjölfarið, ef hann þarf að bera tap af henni og þeim framkvæmdum. Það mun auðvitað lenda á almenningi, bæði með aukinni skattheimtu og skertum lífeyri ef lífeyrissjóðirnir fara í þessar fjárfestingar. Þess vegna er nauðsynlegt að fá það fram hér hver hefur á réttu að standa, Landsvirkjunarfræðingarnir, sem hafa hag af því að framkvæma, eða fræðimennirnir/hagfræðingarnir sem allir hafa komist að sömu niðurstöðu um milljarðatap.

Ég tel líka annað vera alvörumál og það er að bæði þingmönnum og almenningi eru leyndar upplýsingar, við fáum ekki upplýsingar um hverjar forsendurnar eru t.d. á verði raforkunnar. Þingmenn sem eiga að taka afstöðu til þessa máls fá ekki upplýsingar um það á hvaða forsendum útreikningarnir eru sem liggja fyrir. Og ég krefst þess að fá upplýsingar um það. Á hvaða verði ætla menn að selja raforkuna? Á hvaða verði ætla menn að selja þá raforku sem kemur úr þessari virkjun, verði hún reist?

Og hvaða leyndarmál eru þetta? Er ekki ljóst annars staðar hvaða raforkuverð viðgengst í þessum iðnaði, til orkufreks iðnaðar? Ég tel vera skyldu stjórnvalda að upplýsa okkur, sem eigum að taka afstöðu til þessa máls, um það hvaða verð eigi að vera fyrir þessa raforku.

Menn hafa verið að tala um, og síðast í fjölmiðlum um helgina, 1,30 fyrir kwst. Hæsta verð sem viðgengst í þessum iðnaði er um 1,20 kr. Hæst hafa þeir reyndar farið í 1,50 kr. og það mundi skila 2% arði, sem er allt of lágt. Ég bendi á að verðið til nýjustu álveranna, sem eru reist í þriðja heiminum, í Mósambík, Malasíu og Kína, er langt undir þeim upphæðum sem ér er að nefna hér.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég er hissa á því að stjórnarþingmennirnir, sem virðast nú ætla að samþykkja áframhaldandi framkvæmdir í Fljótsdal, skuli ekki kalla eftir upplýsingum um þetta, um forsendurnar, um arðsemina. Hafa þeir ekki áhuga á að vita hið sanna í málinu? Ætla þeir að treysta blindandi á hagfræðinga Landsvirkjunar, sem hafa enn þá ekkert gefið upp um hverjar forsendur útreikninganna eru eða verða?

Ég minni á að ef illa fer og ef hætt verður við virkjunina, þá er það auðvitað hagsmunamál fyrir Landsvirkjun að haldið verði áfram að virkja og farið verði í þessa virkjun, það er hagsmunamál þeirra manna sem eru að gefa okkur þær upplýsingar að allt verði í fínu lagi. Það er hagsmunamál þeirra að virkjað verði annars missa þeir vinnuna, án þess að ég sé að efast um eða leggja mat á hvort útreikningar þeirra séu réttir. Við verðum að fá óháða aðila til að reikna þetta út og við verðum að fá upplýsingar um á hvaða verði á að selja þetta rafmagn.

Herra forseti. Hér hafa verið allmiklar upphrópanir vegna meintra upplýsinga sem haldið hefur verið frá þingmönnum í iðnn., reyndar upplýsingum sem koma þessu máli ekkert við. En hér er vísvitandi verið að halda upplýsingum frá þingmönnum hvert verðið eigi að vera fyrir þessa orku og það eru nauðsynlegar upplýsingar til þess að við getum tekið afstöðu til málsins. Ekki að við tökum þannig afstöðu til málsins á grunni umhverfismats heldur á grunni arðsemismats, og það verður auðvitað að liggja hér fyrir. Það ætti að gefast tími til að reikna það út. Þó menn gefi sér það í allri þessari umræðu að menn hafi engan tíma til að gera nokkurn skapaðan hlut til að upplýsa um neitt sem varðar þessa virkjun, þá ætti að vera tími til þess, herra forseti, að fara í óháð arðsemismat á þessum framkvæmdum.

Við verðum líka að auka eftirlit með þeim sem eru að fara með fé annarra, fé sem þeir eiga ekki, menn sem eru í rauninni ekki að taka neina fjárhagslega áhættu sjálfir. Þetta er ekki þeirra fé, þetta er fé almennings og það er almenningur sem mun þurfa að borga tapið ef það verður. Og þetta veltir upp þeirri spurningu hvort ekki sé full ástæða til að gera Landsvirkjun að hlutafélagi þannig að það sé rekið eins og önnur fyrirtæki á markaði. Ég held að það sé full ástæða til þess að við veltum því fyrir okkur í þessari umræðu. Sporin í íslenskri virkjanasögu hræða vissulega, herra forseti, eins og hv. þm. Gunnar Ingi Gunnarsson benti á í máli sínu og rakti ítarlega og ég ætla ekki að fara út í.

Herra forseti. Fyrst hæstv. ráðherrar úr Framsfl. eru til staðar vil ég spyrja þá: Á hvaða verði ætla menn að selja rafmagnið til stóriðjunnar frá þessari virkjun? Ég óska eftir því að fá svör við því hér. Hvers vegna er verið að halda því leyndu? Ég spyr einnig, herra forseti: Eru skattgreiðendur að borga með því rafmagni? Er eitthvað til í því --- af því það kom fram í grein frá hagfræðingum Landsvirkjunar rétt fyrir helgi að verðið yrði lægra í upphafi --- að menn séu ekkert að borga fyrir orkuna í upphafi þegar fara á hér út í virkjanir, eins og heyrst hefur? Eru menn að fá þetta fyrir ekki neitt í upphafi þegar þeir eru að byrja að reka stóriðjuver?

Ég trúi því ekki að svo sé, en það hefur heyrst manna á meðal að verið sé að borga nánast ekki neitt fyrir raforkuna í upphafi rekstrar á stóriðju og er þá vísað til Grundartanga.

[11:30]

Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvað er hér á ferðinni. Hvaða kostakjör er verið að bjóða Norsk Hydro sem ætlar varla að setja nokkurn pening í allt þetta ævintýri? Ekki er ólíklegt, eins og komið hefur fram í umræðunni, að Norsk Hydro hafi farið í að reikna út arðsemismatið --- eins og hagfræðingarnir sem ég hef vísað til hér --- og komist að þeirri niðurstöðu að það væri alls ekki arðbært að fara að setja peninga í þetta ævintýri.

Nú er svo komið að Íslendingar eiga að bera alla fjárhagslega áhættu af þessu álveri, þessari virkjun. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér líst ekki á blikuna að eiga að hætta lífeyrissparnaði launafólks, ef lífeyrissjóðirnir fara út í þessa fjárfestingu, og það án þess að nokkur óháður aðili hafi reiknað út hvort hér sé hagnaðarvon eða ekki. Ég tel að við þingmenn berum ákveðna ábyrgð. Við berum ábyrgð í umræðunni og okkur ber að kalla fram upplýsingar í málinu þannig að hægt sé að taka afstöðu á raunhæfum forsendum. Ég er á því, herra forseti, að það sé tími til þess. Það er tími til þess.

Herra forseti. Ég vil benda á að höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins nú um helgina er á sömu skoðun. Hann bendir á það í Reykjavíkurbréfinu að það ætti að vera tími til þess að skoða málið betur. Aðalatriðið núna er arðsemismatið. Hvernig stendur á því að Norsk Hydro ætlar ekki að eiga nema takmarkaðan hluta af álverinu í Reyðarfirði? Hvernig stendur á því, herra forseti?

Ég bendi einnig á það, sem hefur komið fram í umræðunni og kom einnig fram í umræðunni þegar við vorum með þetta mál til 1. umr., að það eru fleiri kostir í stöðunni. Það eru fleiri kostir í stöðunni, það eru fleiri sem væru tilbúnir að koma til ef Norsk Hydro hverfur frá. Þess vegna eru ekki rök í málinu að það sé ekki hægt að fara í að skoða málið betur, bæði hvað varðar arðsemismatið og einnig hvað varðar umhverfismatið, að ekki sé tími til að fara í þær rannsóknir. Það er tími og við eigum fleiri kosti. Ég minni á að Columbian Venture hefur sýnt áhuga á því að koma inn í samningana og hefur áhuga á því að koma þarna til skjalanna til að byggja upp frekari stóriðju.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins bendir einnig á það hér, herra forseti, og ég ætla að vitna í Reykjavíkurbréfið, með leyfi forseta. Hann spyr:

,,Getur verið að í þessu þensluástandi sé beinlínis skynsamlegt og jafnvel mjög nauðsynlegt að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun í eitt ár til þess að fram komi ákveðinn slaki í efnahagsþenslunni, slaki, sem mundi m.a. stuðla að hóflegri kjarasamningum en ella?``

Ef menn fresta virkjun gefst auðvitað tími til að fara í allar þær rannsóknir sem hefur verið bent á æ ofan í æ í umræðunni að þarf að fara í. Ég verð að segja það, eftir að hafa skoðað rök allra þeirra sem eru að reyna að andmæla útreikningum þeirra hagfræðinga sem geta ekki fengið annað en tap út úr þessari virkjun, að þau rök eru ákaflega veik. Ég hef í rauninni ekki séð nein gild rök sem hrekja þá útreikninga. Þess vegna þurfum við auðvitað að fara í þá, þess vegna er skylda okkar þingmanna að láta reikna þetta út og fara í nánari athugun á málinu.

Herra forseti. Mig langar vegna nokkurrar umræðu um vinnubrögðin í þinginu við meðferð málsins aðeins að koma að nokkrum atriðum þar sem ég á sæti í hv. iðnn. Ég verð að segja að mér blöskrar hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur haldið á málum í nefndinni. Eins og fram hefur komið óskaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir eftir því í umhvn. að fulltrúar Norsk Hydro kæmu á fund nefndarinnar til að skýra mál sitt eftir mjög misvísandi upplýsingar frá þeim. Því var synjað. Það var á þeirri forsendu að ekki gæfist tími til að fá þá til fundar við nefndina.

Aftur á móti var aftur óskað eftir því í iðnn. að þeir kæmu á fund iðnn., sem hafði betri tíma og átti auðvitað að fá þessa menn til að skýra mál sitt og skýra misvísandi upplýsingar og fá á hreint hvort þeir eru tilbúnir að bíða eftir umhverfismati. Því var aftur synjað. Í tvígang fórum við fram á það í nefndinni að fá Norsk Hydro á fundinn, fyrst eftir að umhvn. hafði verið synjað að fá þá á sinn fund og síðar þegar komu enn nýjar upplýsingar frá Norsk Hydro um það hvort þeir væru tilbúnir að bíða og þeir mundu ekki falla frá yfirlýsingum sínum eða samningum um það að fara í þessar framkvæmdir. Þá var aftur synjað.

Herra forseti. Það virðist vera þannig að stjórnarliðið þori ekki að heyra hvað Norsk Hydro hefur að segja, það þori ekki að fá þá hingað til að svara þeim spurningum sem þingmenn vildu gjarnan leggja fyrir þá.

Ég gagnrýni þessi vinnubrögð. Ég gagnrýni hvernig menn voru plataðir í upphafi málsins og almenningi talin trú um að þeir gætu komið að málinu í vinnslunni í þinginu. Það er bara ekki rétt. Þau tvö hundruð eða á þriðja hundrað bréf sem nefndinni bárust voru aldrei tekin til neinnar umfjöllunar þó að þau hafi fengist bókuð eftir að ég óskaði eftir því í nefndinni að þau yrðu bókuð sem málsskjöl. Þau erindi sem komu frá almenningi í gegnum tölvupóst voru þannig, eftir að við fórum yfir þetta gaumgæfilega, að um 1/4 var með því að það væri virkjað þarna, en þorri hinna, um 3/4 voru á móti því. Auk þess tel ég það mjög ámælisvert í vinnubrögðum nefndarinnar að heimila ekki þeim þremur aðilum sem óskuðu eftir því í gegnum tölvupóst að fá að koma á fund nefndarinnar til að viðra viðhorf sín til málsins að koma á fund nefndarinnar þrátt fyrir að nefndarmenn í iðnn. óskuðu eftir því að fá þessa menn á fund sinn.

Ég man ekki til þess fyrr í þinginu að þingmönnum hafi verið synjað um að fá ákveðna aðila á fund nefndar til að hlusta á hver afstaða þeirra væri --- og sérstaklega þegar er um að ræða mjög umdeilt mál sem ríkir alls ekki sátt um í samfélaginu. Því frekar hefðum við átt að leyfa þessum aðilum að koma á fund nefndarinnar og hlusta á viðhorf þeirra.

Herra forseti. Stjórnarliðið vill hvorki heyra né sjá í þessu máli. Ég óttast helst að það ætli að greiða atkvæði með tillögunni með bundið fyrir augun.

Herra forseti. Það eru margir þættir sem væri full ástæða til þess að ræða hér, fara inn í umhverfisþættina, inn í mótvægisaðgerðirnar, alla þá þætti sem snúa að málinu. En ég ætla ekki að eyða tíma í það. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar og fyrsti ræðumaður okkar í málinu á laugardaginn, fór ítarlega yfir þessa þætti þegar hún kynnti nál. og ég tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það. En vegna umræðunnar um fund skipulagsstjóra hjá iðnn. get ég ekki orða bundist yfir því hvernig veist hefur verið að þeim ágæta embættismanni í umræðunni. Ég verð að segja að ég sat þennan umrædda fund og gestir nefndarinnar þar svöruðu hverri einustu spurningu sem fyrir þá var lögð og voru þeir með mikla og stóra skýrslu sem var upp á margar blaðsíður og höfðu þeir aðeins um klukkustund til þess að fara yfir þessa þætti.

Líka hefur verið bent á það í umræðunni að skipulagsstjóri var með 13 atriði sem hann taldi að þyrftu frekari skoðunar við. Við vitum ekki hve langan tíma tekur að skoða alla þá þætti sem snúa vissulega ekki allir að Hollustuvernd eins og kom fram í morgun. Þarna eru þættir sem snúa að Veðurstofunni og ýmsum öðrum aðilum sem þyrftu að koma með frekari gögn. Það getur verið að þau gögn liggi öll fyrir og menn geti afgreitt umhverfismatið á verksmiðjunni á stuttum tíma en það vitum við ekkert um. Við höfum ekki fengið upplýsingar um það þó að við óskuðum eftir því í nefndinni. Þar ætti einnig að gefast tími til að skoða aðeins út í hvað menn eru að fara með þessari framkvæmd allri.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mínu öllu lengri þó ég gæti farið ítarlegar út í arðsemismatsmálin sem ég hef látið hagfræðinga skoða fyrir mig og reikna út. Það er alveg sama hvaða forsendur hafa verið lagðar til grundvallar, ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að tap verði á þessari virkjun. Þess vegna krefst ég þess að farið verði með þingmönnum yfir útreikningana og málið verði ekki afgreitt út úr þinginu fyrr en óháðir aðilar verði búnir að reikna þetta út og iðnn. og öðrum þingmönnum verði kynntar þær niðurstöður. Ég tel það svo alvarlegt að menn ætli að horfa fram hjá þeim niðurstöðum sem þessir hagfræðingar hafa komist að, sem hafa lýst skoðun sinni í málinu, að mér finnst ekki hægt að fara frá málinu öðruvísi en að það verði skoðað.

Herra forseti. Ég ítreka að ég vil fá upplýsingar um það á hvað á að selja rafmagnið. Hvers vegna þessi leyndarmál með allt saman? Hvað er þarna á ferðinni og hvernig geta þingmenn tekið afstöðu til þessara framkvæmda án þess að hafa allar þessar upplýsingar fyrirliggjandi? Það er ekki hægt, herra forseti, og það er ábyrgðarhluti að ætla að fara að greiða atkvæði með áframhaldandi framkvæmd þegar ekki liggja fyrir útreikningar um að annað en tap á framkvæmdinni.