Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 11:43:56 (3518)

1999-12-20 11:43:56# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. iðnrh. er kominn í salinn. Ég hefði ekki beðið um orðið nema vegna þess að hv. þm. var að spyrja um arðsemi virkjunarinnar og arðsemi þessara framkvæmda. Að sjálfsögðu er ekki hægt að reikna arðsemina út, alveg sama hvaða hagfræðing hv. þm. fær til þess, nema það liggi hvert verðið er á rafmagninu til álversins. Hv. þm. sagði að það væri alveg sama hvaða forsendur menn gæfu sér, það kæmi alltaf út tap. Það er skrýtin hagfræði sem hv. þm. hefur lært, enda þarf ekki neinn hagfræðing til þess að reikna þetta út.

Þetta mun að sjálfsögðu ráðast í samningum. Menn semja ekki fyrir fram í þessu máli. Ég veit ekki hvernig hv. þm. reiknar með almennt að samningar eigi sér stað, að hægt sé að upplýsa um það á þessari stundu hver verði niðurstaða þessara samninga. En að sjálfsögðu er miðað við að bæði virkjunin og álverið skili arði.

[11:45]

Hv. þm. hafði sérstakar áhyggjur af lífeyrissjóðunum í þessu sambandi, ef verðið á rafmagninu yrði nú lágt. Ég veit ekki betur en að lífeyrissjóðirnir hafi hugsað sér að fjárfesta í álverinu. Og ef rafmagnsverðið verður mjög hagstætt og lágt, eins og hv. þm. óttast, þá hljóta lífeyrissjóðirnir fyrst og fremst að hagnast á því.

Mér finnst þetta svo augljóst, hv. þm., að það ætti ekki að þurfa að ræða það. Ég bið hv. þm. að fara yfir sögu samninga í svipuðum málum og þá ætti þetta að liggja alveg augljóst fyrir hv. þm. Þar að auki liggur það náttúrlega alveg ljóst fyrir að ef við ætlum að reka okkar samfélag og halda uppi okkar velferðarkerfi, sem hv. þm. er alltaf að tala um, þá er nauðsynlegt að það sé atvinna í þessu landi.