Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 12:55:56 (3536)

1999-12-20 12:55:56# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[12:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lýsti afstöðu sinni til málsins og kom þar skýrt fram að þingmaðurinn er andsvígur því að virkja í Fljótsdal. Ég gat ekki betur heyrt líka en hún væri andvíg því að byggja álver á Reyðarfirði þannig að það liggur þá fyrir sem afstaða. Um það er ekkert frekar að segja af minni hálfu þó ég sé ekki sammála þeirri afstöðu.

En mig langar að benda á tvennt. Þingmaðurinn fer fram á að Alþingi samþykki umhverfismat, það ferli, áður en lengra verður haldið, en er sjálfur þegar andvígur framkvæmdunum sem meta á. Mun þingmaðurinn halda áfram að vera andvígur virkjun jafnvel þótt niðurstaða umhverfismats yrði að lokum sú að heimila framkvæmdina? Mun þingmaðurinn þá styðja framkvæmdina?

Í öðru lagi vefengdi þingmaðurinn gagnsemi þessara framkvæmda fyrir byggð á Austurlandi. En ég heyrði ekkert í ræðu hv. þm. um hvað hún legði til. Ég gat ekki betur heyrt en þingmaðurinn væri sammála því að það væri vandi uppi í byggðamálum fyrir austan. En ég heyrði engar tillögur frá þingmanninum um hvað gera ætti til að bregðast við. Er það kannski, sem mér býður í grun, afstaða Samfylkingarinnar að ekki eigi að gera neitt?