Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:13:16 (3543)

1999-12-20 15:13:16# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. sem ég vil gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi varðandi skipulagsmálin þar sem dregið var fram að framkvæmdin þyrfti framkvæmdaleyfi og væri þess vegna ekki komin með öll leyfi. Við létum skoða þetta sérstaklega í umhvrn. og þau gögn hafa verið send umhvn. Alþingis. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, aðeins upp úr því bréfi sem kom frá lögfræðingum umhvrn. En þar segir:

,,Skipulagsstofnun telur að þær framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun sem ekki eru byggingarleyfisskyldar séu framkvæmdaleyfisskyldar skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þessa skoðun byggir Skipulagsstofnun á því að skipulags- og byggingarlög, sem tóku gildi þann 1. jan. 1998, eigi við um Fljótsdalsvirkjun þótt stofnunin telji í greinargerð sinni að fyrir liggi leyfi til framkvæmda sem undanþiggur virkjunina mati á umhverfisáhrifum. Þessi niðurstaða Skipulagsstofnunar, um að skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, eigi við, samræmist ekki þeirri meginreglu íslensks réttar um bann við afturvirkni laga, sérstaklega þegar um íþyngjandi ákvæði eins og í þessu tilviki er að ræða, nema lög mæli sérstaklega fyrir um slíkt.``

Ég vildi draga fram að það er skoðun lögfræðinga umhvrn. að ekki þurfi framkvæmdaleyfi fyrir þessa framkvæmd. Aðalatriðið er að Skipulagsstofnun og umhvrn. eru sammála um að lagalega þurfi ekki mat á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmdina. Þar eru menn sammála.

Svo vildi ég líka koma inn á þá spurningu sem var beint sérstaklega til mín um endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það var ekki alveg rétt, sem kom fram, að við ættum að setja hana inn í lög í vor heldur áttum við að setja hana inn í lög núna í haust, en það er hárrétt að við erum tiltölulega sein í því máli en það frv. er núna á lokastigi og er í undirbúningi að það komi inn í þingið.