Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 17:45:01 (3563)

1999-12-20 17:45:01# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að vonast til að geta treyst félögum mínum hér á þingi, samþingmönnum, þar á meðal Pétri H. Blöndal, sem hefur ekkert málefnalegt að leggja til þessara mála. Ekkert annað en fáfengilega útúrsnúninga. Ég bíð eftir því að heyra hv. þm. koma upp og ræða þessi mál og reyna að hrekja þær staðreyndir sem ég setti fram.

Opinber rekstur hefur kosti og hefur líka galla. Einkarekstur hefur kosti og galla. Það er hlutverk okkar að reyna að finna á skyniborinn hátt kosti og galla á hverjum tíma. Ég hef verið að benda á galla í þessu, ég hef verið að gera það. Þó er ég hlynntur því og frábið mér að reynt sé að snúa út úr því, ég er hlynntur því að Landsvirkjun sé í eigu almennings. En ég er líka hlynntur því að farið sé fram af einhverri skynsemi í þessu máli og menn færi rök fyrir máli sínu og skýri reikningslegar forsendur sínar. Ég lýsi undrun minni á því að hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem kemur ítrekað í ræðustól og gefur sig út fyrir að vera maður skynseminnar og arðseminnar, frjálshyggjunnar og samkeppninnar, hefur ekkert til málanna að leggja. Þetta kemur okkur ekki við, segir hv. þm. Hvílík málefnafátækt. Það er í skjóli þessa sem hæstv. iðnrh. Finnur Ingólfsson getur farið fram með þessa dellu, þetta efnahagslega fúsk, vegna þess að hann fær enga viðspyrnu neins staðar, ekki úr Landsvirkjun, ekki úr Þjóðhagsstofnun, ekki innan ráðuneytis síns og við höfum heyrt hvernig fylgismenn hans á þingi haga sér.