Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 17:47:05 (3564)

1999-12-20 17:47:05# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ nú tækifæri til að svara hv. þm. nákvæmar en í þessu andsvari. En ég dáist að þeim reiknikúnstum sem hv. þm. var með í umræðunni áðan. Það var mjög margt til, hv. þm., eins og hann stillti máli sínu upp, í þessum útreikningum.

Ég ætla hins vegar, þegar upp verður staðið, að taka meira mark á útreikningum þeirra aðila, bæði erlendra sérfræðinga, innlendra sérfræðinga, þegar mat verður lagt á þann orkusölusamning sem gerður verður hverju hann muni skila en þeim tölum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var með. Ég skal alveg viðurkenna að ég hlustaði á hann með athygli og það var margt athyglisvert sem þar kom fram og ég get sagt hv. þm. það að hann var alveg á réttu róli. En stundum fór hann allverulega út af sporinu því það er aðeins eitt sem við erum orðnir sammála um, að afkastagetan er meiri en þær forsendur sem menn gáfu sér.

En ég ítreka að auðvitað er algjörlega útilokað að reikna út arðsemina fyrr en orkusölusamningurinn liggur fyrir. Þá geta menn gefið sér þær tölur sem hv. þm. var að burðast við að gefa sér til útreikninga en þá verður að taka tillit til allra þátta málsins, m.a. þess kostnaðar sem til fellur. Ég er ekki að staðfesta að þær tölur séu réttar en ég hafði gaman af því að mér fannst hv. þm. hafa oft verið miklu fjarri raunveruleikanum í umræðu sinni í þessu máli en í þeim tölum sem hann fór með þannig að ég tel að hann hafi verið að nokkru leyti á réttu róli.

En aðalatriðið er þetta, það undirstrika ég og það sagði ég á laugardaginn: Ekki verður samið um orku til nýs álvers frá Landsvirkjun nema sá orkusölusamningur skili 5--6% arðsemi eins og eigendur fyrirtækisins hafa lagt upp með. Ef það gengur eftir getum við lækkað orkuverð til landsmanna með samningnum og fleiri samningum sem þar koma inn um 20--30% á fyrsta áratug þessarar aldar. Það er markmiðið.