Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 17:53:58 (3568)

1999-12-20 17:53:58# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[17:53]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Maður heldur áfram að máttleysast í þessu máli og vonleysið er að ná yfirtökum. En ég ætla samt að upplýsa hv. þm. Ögmund Jónasson, sem var búinn að leggja mikið á sig við að skýra fyrir okkur þetta reikningsdæmi allt saman, að það er ein tala í dæminu sem ég get boðið í betur. Það er talan um losunarkvótann og kostnaðinn við losunarkvótann. Ég hef komist í skýrslu ráðgjafarnefndar sem vann undir stjórn Friðriks M. Baldurssonar og skilaði niðurstöðu 21. apríl 1999. Samkvæmt þeirri skýrslu er verð á losunarkvóta á alþjóðamarkaði 2.000 kr. á koltvíildið, ígildistonn losað frá verksmiðju á ári. 2.000 en ekki 1.000 eins og hv. þm. var með í dæmi sínu.

Það er annað sem ég get líka upplýst í sambandi við þetta sem vantaði einnig inn í útreikninga hv. þm., það er kostnaðurinn við að binda koltvíildi í skógrækt eða landgræðslu. Kostnaðurinn við að binda eitt koltvíldistonn á Íslandi er 20.455 kr. Þá getur þingmaðurinn reiknað út frá þeirri gífurlegu losun sem hann hafði í dæmi sínu.

En það eru enn kostnaðarliðir sem ég get nefnt sem vantar í dæmi hv. þm., það er kostnaður við endurheimt á votlendi og öðru gróðurlendi sem tapast vegna lóns og annarra mannvirkja, það er kostnaður við líkindi á aukinni tíðni sjúkdóma í tengslum við mengun frá álveri, m.a. hærri tíðni á lungnakrabbameini hjá starfsmönnum og hærri tíðni astma hjá börnum. Frummatsskýrslan um álver á Reyðarfirði sýnir að slík áhætta er fyrir hendi. Hér eru fleiri kostnaðarliðir sem vantar inn í dæmi hv. þm. og geta þá þingmenn reiknað hver fyrir sig og ég sé að iðnrh. er byrjaður.