Fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:05:34 (3573)

1999-12-20 20:05:34# 125. lþ. 50.93 fundur 244#B fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins# (um fundarstjórn), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við hefjum nú aftur umræður um þetta dagskrárefni, (KHG: Nei, þú ert að ræða um fundarstjórn forseta.) já, já, og ég vil taka undir þakkir fyrir að gert var hlé á þingstörfum til þess að geta fundað í iðnn. vegna mjög alvarlegra ummæla sem komu fram á laugardaginn í garð embættismanns sem ekki gat varið sig hér úr ræðustól Alþingis. Embættismaðurinn kom á fund nefndarinnar til að skýra mál sitt.

Það var alveg ljóst, eins og reyndar okkur þingmönnum Samfylkingarinnar hefur verið ljóst frá upphafi að ekki var verið að leyna nefndina nokkrum upplýsingum, herra forseti. (KHG: Það kom ekki fram.) Það kom fram og ég vil taka það fram hér að ekki komu beinar spurningar á fundi nefndarinnar í þá veru sem hv. þm. Hjálmar Árnason fullyrti úr þessum ræðustóli. (KHG: Þær upplýsingar komu ekki fram. Ætlar þingmaðurinn að halda því fram að það sé ósatt?) Ég verð að segja það, herra forseti, miðað við óróleikann hjá stjórnarþingmönnum vegna þessa máls, að þeir hafa greinilega vondan málstað að verja. (KHG: Ætlar þingmaðurinn að halda því fram að það sé ósatt?) Þeir geta ekki sætt sig við að það var úrskurður skipulagsstjóra að taka allt álverið í Reyðarfirði ...

(Forseti (GuðjG): Forseti verður enn að minna á að hér er verið að ræða fundarstjórn forseta en ekki efnisatriði dagskrármálsins.)

Herra forseti. Ég vona að allir haldi ró sinni í þessari umræðu. Ég hefði gjarnan viljað koma athugasemdum mínum að vegna þessa fundar sem haldinn var í fundarhléi og mér þykir það leitt að menn skuli ekki geta viðurkennt mistök sín í umræðunni, herra forseti, en vissulega munum við koma að þessu máli síðar.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þingmenn að ræða þetta undir dagskrárliðnum sem verður á dagskrá í allt kvöld og fram á nótt.)