Fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:12:10 (3578)

1999-12-20 20:12:10# 125. lþ. 50.93 fundur 244#B fundur í iðnn. með skipulagsstjóra ríkisins# (um fundarstjórn), KHG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:12]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel alveg morgunljóst að það er fullkomlega fráleit fullyrðing eins og hér kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að gera þyrfti einhverja sérstaka grein fyrir fundahöldum í iðnn. undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Það eru engin rök fyrir þeirri skoðun, þau hafa ekki komið fram og ég á ekki von á því að þau muni koma fram því að jafnvel þótt sá þingmaður sé nokkuð fimur í röksemdafærslu, þá held ég að honum takist ekki að búa til nein rök sem styðja það.

Hafi menn einhverjar meiningar um þetta mál eiga þeir auðvitað að bera þær fram í ræðum sínum undir dagskrárefninu. Ræða formanns iðnn. var flutt í umræðuefninu undir dagskrárliðnum og það er eðlilegt að menn bregðist þá við henni á sama vettvangi eða í umræðunum. Mig furðar dálítið hvað stjórnarandstaðan veigrar sér við því að ræða málið efnislega undir dagskrárliðnum heldur stendur fyrir uppþoti og fundahöldum til að slá ryki að því er virðist í augu manna um aðalatriði málsins. Það verður fróðlegt að heyra það sem fram kemur í máli stjórnarandstæðinga þegar þeir fást til þess að ræða það efnislega á réttum vettvangi. En ég vil lýsa yfir fullu trausti við forseta og ...

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. er ekki að ræða um fundarstjórn forseta. Nú er nóg komið.)