Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 20:22:10 (3582)

1999-12-20 20:22:10# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[20:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem talaði áðan fyrir prýðilega ræðu. Það kom fram í máli hv. þm. að hann mun nú senn yfirgefa okkur og ég vil af því tilefni segja að ég vona að hv. þm. eigi afturkvæmt hingað undir öðrum kringumstæðum en nú því að ég tel að hann eigi sannarlega erindi í hóp okkar og þó að ég að vísu hafi gerst sekur um það, eins og hv. þm. vinstri grænna, að hafa farið í það verk að safna undirskriftum, finnst mér það ágætt þegar hingað kemur inn hress varaþingmaður og segir okkur til syndanna. Eins og fram hefur komið, herra forseti, þá hvessir auðvitað stundum hér og ekkert óeðlilegt er við það. Það hefur hvesst hér á síðustu dögum og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er bara partur af lýðræðinu. Ég segi að mér finnst það til fyrirmyndar hjá hv. þingmönnum vinstri grænna að hafa tekið þátt í því að safna þessum undirskriftum en um það getum við deilt eins og svo margt annað og það er bara partur af lýðræðinu. Ég vænti þess síðan að þessi hv. þm. fari héðan með ekki allt of bitrar minningar úr þessum sölum og komi nú að því að þegar hann snýr hingað aftur verði hann ekki kalinn á hjarta.

Herra forseti. Þessi umræða sem hér hefur staðið linnulítið í tvo daga og á kannski eftir að standa svolítið lengur hefur um margt verið ákaflega fróðleg. Ég held að alveg sé hægt að fullyrða það að hlutverkin hafa skipst gersamlega frá því í fyrri umræðu. Við fyrri umræðu málsins þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins tóku til máls hver um annan þveran voru þeir fullir af sjálfstrausti og það einnkenndi þá og þeir geisluðu af þeirri vissu að málið væri mjög gott. Mér kom það ekki á óvart, herra forseti. Ég taldi sjálfur þegar umræðan hófst um þáltill. hæstv. iðnrh. að það mál sem stjórnin hefði í höndum væri a.m.k. frá sjónarhóli þeirra ekki aðfinnsluvert að því marki sem nú liggur fyrir. Ég taldi t.d. í ljósi þeirra miklu og digru yfirlýsinga alls konar manna á vegum Landsvirkjunar, á vegum stjórnarflokkanna beggja og ýmissa stofnana sem hafa komið að málinu að það væri alveg ljóst að rannsóknarhluti málsins væri óaðfinnanlegur. Ég taldi einfaldlega að það sem við mundum gera hér, herra forseti, væri að vegast á um pólitík málsins eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði. Stjórnarliðið hefur tekið pólitíska ákvörðun um að málið skuli í gegn. Ég gat út af fyrir sig skilið þá ákvörðun og ég gat skilið það sem að baki lá og ég taldi þess vegna, herra forseti, að umræðan mundi engu skila. Ég var þeirrar skoðunar að menn mundu vegast á með tiltölulega hefðbundnum vopnum og víglínan væri skýr. En í gegnum umræðuna hafa viðhorf mín að þessu leyti algerlega breyst. Ég átti á dauða mínum von fremur en því að sitja í umhvn. í nokkra daga og hlýða þar yfir bæði talsmönnum Landsvirkjunar, iðnrn. en ekki síst ýmsum hlutlausum rannsóknarstofnunum íslenska ríkisins sem hver um aðra þvera drógu fram sínar fræðilegu kanónur og skutu stór göt á skútu ríkisstjórnarinnar í málinu.

Eftir þessa yfirferð, herra forseti, liggur alveg ljóst fyrir að málabúnaðurinn af hálfu ríkisstjórnarinnar, einkum og sér í lagi það sem varðar rannsóknir á hinu umdeilda virkjanasvæði, er gríðarlega áfátt. Fram hefur komið eins og ég mun rekja síðar í ræðu minni að það virðist sem Landsvirkjun hafi vísvitandi reynt að blekkja þingmenn. Ég hef áður látið þessa getið í fjölmiðlum, en ég mun, herra forseti, nota þetta tækifæri til þess að reifa þetta viðhorf mitt í miklu ítarlegra máli í þessum ræðustól.

Fyrst verð ég að segja það, herra forseti, að ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að mér þykir gott að hæstv. forseti hefur gefið tóm til þess að iðnn. mætti funda um það umdeilda mál sem hér hefur einkennt umræðuna síðustu daga. Þar á ég við hinar dæmalausu ásakanir hv. þm. Hjálmars Árnasonar í garð fjarstadds embættismanns. Stjórnarandstaðan óskaði ákaflega eindregið eftir því að iðnn. fengi tóm til þess að funda um málið og ég ítreka þakkir mínar til hæstv. forseta að hafa orðið við því og sömuleiðis þrátt fyrir þær deilur sem ég hef átt við hv. þm. Hjálmar Árnason finnst mér það a.m.k. drengilegt af honum að hafa tekið málið til umræðu.

Það kann að vera ákaflega erfitt að játa á sig að manni hafi orðið á mistök, það hafa flest okkar þurft að gera einhvern tíma, og ég tel að af hálfu Framsfl. a.m.k. sé búið að hreinsa þetta mál upp. Þó að hv. þm. Hjálmar Árnason skirrist skiljanlega við að koma hingað og stíga skrefið til fulls og biðjast afsökunar á ummælum sínum, er alveg ljóst að einn af ráðherrum Framsfl., hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir, hefur lýst því yfir eftir að hafa skoðað málið að starfsmenn Skipulagsstofnunar hafi með rökum sett fram þá skoðun sína að með engu móti hafi menn vísvitandi verið að leyna upplýsingum fyrir iðnn. og hún hefur jafnframt lýst því yfir úr þessum stóli að hún hafi enga ástæðu til þess að efast um það. Mér þykir þetta drengilega mælt af hæstv. ráðherra og mér finnst rétt af Framsfl. að hreinsa málið upp með þeim hætti og lít svo á að það sé úr sögunni og það sé hv. þm. Hjálmars Árnasonar að gera það upp við sjálfan sig í einrúmi hvernig hann e.t.v. hefði átt að bregðast við þessu.

Það sem ég vildi segja, herra forseti, í upphafi máls míns er að minna á það hvernig þingmönnum var fengið þetta mál til umfjöllunar. Það var í andstöðu við flesta hygg ég, jafnvel marga þingmenn stjórnarliðsins að málinu var ýtt með þeim hætti sem raun bar vitni hingað inn í þingið. Við fengum það hlutverk að gerast eins konar umhverfismatsmenn. Mér fannst fráleitt að láta þingið gegna slíku hlutverki og lét þess oft getið. Ég sagði jafnframt að með vissum rökum væri hægt að fallast á að þetta væri ekki alröng aðferð. Ég átti þar við, herra forseti, að ég teldi ákaflega nauðsynlegt að þegnarnir, hinir íslensku borgarar, ættu einhvers konar tök á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Því var lofað hátt og í hljóði af hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem og hæstv. iðnrh. að gerður yrði reki að því að borgararnir gætu komið athugasemdum sínum á framfæri. M.a. efndi hv. þm. Hjálmar Árnason til sérstaks blaðamannafundar þar sem hann lýsti opnun vefsíðu iðnn. sem átti að gera borgurunum kleift að koma athugasemdum sínum á framfæri. Það reyndist þegar upp var staðið talsverður hópur manna sem notfærðu sér það.

Sömuleiðis voru ýmsir sem höfðu skilið mál hv. formanns iðnn. með sama hætti og ég að það væri hægt í gegnum netið að óska eftir því að ná fundi iðnn. til þess að koma sjónarmiðum á framfæri. Þegar upp er staðið er reyndin sú að ekki var staðið við þetta. Athugasemdir sem bárust í gegnum netið voru ekki einu sinni lagðar fram sem málsskjöl og ég verð auðvitað að gera ágreining, herra forseti, við forsetadæmið um þetta efni því að hér er ekki að sakast við hv. formann iðnn. eða aðra þá sem hér eru kjörnir til starfa heldur var þetta úrskurður forseta þingsins að þannig skyldi farið með aðsendar athugasemdir. Ég tel það ákaflega miður. Hins vegar áfellist ég auðvitað meiri hluta iðnn. fyrir að hafna þeim tilmælum sem bárust í gegnum netið um að ná fundi nefndarinnar. Það var með engu móti hægt að fallast á slíkt.

[20:30]

Herra forseti. Ég dreg sérstaklega fram að í umræðunni um starfstilhögunina var aftur og aftur vísað til starfa heilbrn. að frv. um miðlægan gagnagrunn. Þar var aftur og aftur sagt að sú nefnd hefði getað náð því að tala við alla sem vildu koma til nefndarinnar og með sama hætti var sagt að iðnn., og eftir atvikum umhvn., gætu þá rætt við þá sem vildu ná fundi nefndanna. Þarna voru menn leiddir á villigötur því að þegar upp var staðið var þetta ekki leyft. Þetta var auðvitað partur af þessum blekkingaleik sem ég skil núna að átti bara að verða til þess að fá þingið til að stimpla þetta mál og keyra það síðan hljóðalítið í gegn. Vafalítið hefði það tekist ef ekki hefði verið þessi staða sem ég lýsti, herra forseti, að hvað eftir annað komu í ljós ákaflega alvarlegir skafankar á þessu máli.

Ég hlýt líka að áfellast meiri hlutann fyrir að hafa ekki gefið umhvn. meiri tíma. Við sinntum þessari vinnu eins vel og af eins mikilli kostgæfni og okkur var kostur. En það var merkilegt að í nefndaviku skyldi umhvn. einungis fá tvo, þrjá daga mætti kannski segja, til að starfa að þessu máli. Það lá ljóst fyrir að þetta yrði umdeildasta og erfiðasta mál þingins og það hefði ekkert verið skrýtið þó að þessar tvær nefndir, fyrst umhvn. og síðan iðnn. hefðu í rauninni fengið forgang á þennan tíma, eins og sumir hv. þingmanna tóku undir í nefndunum. En við fengum einungis tvo eða þrjá daga til að skoða þetta mál. Það má auðvitað vera að meiri hlutinn hafi talið að málið væri svo þaulrannsakað að þetta lægi borðleggjandi fyrir eins og ég taldi líka í upphafi, þ.e. að hér væri einungis um pólitískan ágreining að ræða en ekki faglegan eins og raunin síðan varð.

Maður veltir því fyrir sér hvernig í ósköpunum standi á því að hv. þingmenn meiri hlutans halda svona á málinu. Ég vil í fyllstu vinsemd segja að ég tel að þetta hafi skemmt málabúnaðinn allan verulega fyrir þá. Við í umhvn. hefðum varla þurft nema svona kannski fjóra, fimm daga til viðbótar til þess að geta sagt að við hefðum skoðað málið ákaflega vel. Við vorum komin vel á veg með það. Við höfðum rætt við flestar þær stofnanir sem við vildum. Eigi að síður voru ákveðnir þættir algerlega ókannaðir. Ég vísa sérstaklega til, herra forseti, þeirra miklu umræðna sem hér hafa orðið um lagalega óvissu í málinu, sem var ókannað af okkar hálfu.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted hafði að sönnu sýnt lofsvert frumkvæði að því að afla álitsgerðar frá útlöndum frá fyrrverandi lögfræðingi umhvrn. sem nú sérmenntar sig í umhverfisrétti. Þetta álit, eins og ítarlega var rakið í fjölmiðlum, opnaði nýja hlið á málinu. Þar var sýnt fram á og ákaflega vel rökstutt að það var álitaefni, sem við höfðum áður talið liggja ljóst fyrir, hvort þessi umdeilda framkvæmd félli undir bráðabirgðaákvæði II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 1993.

Við áttum þess ekki kost, herra forseti, að kveðja til okkar t.d. fulltrúa Lagastofnunar Háskólans eða sérstaka fulltrúa lagadeildar Háskólans til þess að ræða þetta eitt og sér. Við fengum ákveðin álit frá mönnum, eins og dr. Katli Sigurjónssyni, sem komu til fundar við nefndina og afhentu að eigin frumkvæði gögn sem bentu til þess að þarna væri um alvarlegri veilur að ræða en við höfðum talið.

Herra forseti. Ég nefni líka að mikilvæg samtök sem við höfðum vænst að geta fengið þokkalega leiðbeiningu frá töldu sig ekki hafa ráðrúm til þess að skila álitsgerð sökum tímaskorts. Ég nefni sérstaklega Landvernd sem gegnir þeirri sérstöðu að vera frjáls félagasamtök. Það hefði auðvitað verið mikill akkur og fengur að því fyrir okkur að fá fram viðhorf þeirra samtaka sér í lagi vegna þess að þau gegna mikilvægu hlutverki við pólitíska stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli þar sem þeim hefur verið falin útfærsla á framkvæmdaþætti svokallaðrar rammaáætlunar um nýtingu fallvatna og víðerna. Ég held þess vegna að það hafi skaðað þetta mál ákaflega mikið að umhvn. fékk ekki rýmri tíma. Ég verð líka segja að mér urðu það ákveðin vonbrigði að við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhvn. höfðum ekki tök á því að kalla sérstaklega fyrir einn einasta gest, þ.e. sá gestalisti sem kom fyrir nefndina og segja má með ágætum rökum að hafi verið giska langur, var allur að frumkvæði þingmanna úr stjórnarliðinu, en við fulltrúar Samfylkingarinnar lögðum aldrei fram okkar gestalista. Það var ekki fyrr en á síðasta fundinum þegar það rann upp fyrir mönnum að standa átti við hina upphaflegu dagsetningu um skiladaginn 6. desember að þingmenn Samfylkingarinnar létu það uppi að þeir hefðu ákveðinn lista yfir gesti sem þeir vildu gjarnan kalla til. En það er alveg ljóst að formaður nefndarinnar ætlaði sér að hlíta þeirri dagsetningu sem hann hefði fengið og við því var ekkert að gera, herra forseti.

Það sýnir síðan líka hvernig stjórnarliðið gekk að þessu máli að ekki var nokkur leið að fá kvadda til fundar við umhvn., og að því er mér skilst ekki heldur við iðnn., fulltrúa þess fyrirtækis sem hefur ritað undir yfirlýsingu um byggingu álvers á Reyðarfirði, þ.e. Norsk Hydro. Það var sérdeilis slæmt, herra forseti. Norsk Hydro gaf út ákaflega merkilegar yfirlýsingar tvisvar sinnum á meðan á skoðun okkar á þessu máli stóð. Fyrri yfirlýsingin fjallaði um það að fyrirtækið hefði ekkert á móti því þó að málið tefðist vegna þess að það þyrfti að fara með það í mat á umhverfisáhrifum. Þetta kom ekki á óvart sökum þess að fyrirtækið hefur á síðasta áratug reynt eftir megni að fylgja almennum alþjóðlegum reglum sem hafa verið að skapast um umgengni við umhverfið. Þetta var sérlega mikilvægt, herra forseti, vegna þess að í röksemdafærslunni sem kemur fram í greinargerð hæstv. iðnrh. eru bara tvenn rök nefnd fyrir því hvers vegna nauðsynlegt sé að keyra þetta mál í gegn án umhverfismats.

Hið fyrra er miklu léttvægara og varðar meinta skaðabótaábyrgð sem það gæti bakað ríkinu gagnvart stofnun sem það á að vísu meiri hluta í, Landsvirkjun, ef tafir yrðu á verkinu eða ef hætt yrði við það vegna niðurstöðu á mati á umhverfisáhrifum.

Hitt var samkomulagið frá því í júní við Norsk Hydro. Það voru meginrökin. Sagt var ítrekað í greinargerð hæstv. iðrnh., aftur og aftur í umræðum, og alltaf var hangið á því þegar hæstv. ráðherrar hafa varið málið í fjölmiðlum, að það væri ekki hægt að taka þann tíma sem þyrfti til þess að fara í mat á umhverfisáhrifum vegna þess að þá væri hætta á að Norsk Hydro gengi úr skaftinu. Síðan gerist það sem sagt að Norsk Hydro gefur yfirlýsingu um að fyrirtækið muni ekki taka það illa upp, þrátt fyrir það samkomulag sem undirritað var 29. júní, þó að tekinn yrði tími til þess að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Degi síðar kom önnur yfirlýsing eftir að hæstv. ráðherrar, sér í lagi hæstv. iðnrh., höfðu auðvitað legið grenjandi í símanum til Norsk Hydro. Það má vera að fleiri ráðherrar hafi komið að því máli eins og sagan á væntanlega eftir að leiða í ljós og vonandi fyrr en síðar. En a.m.k. var nauðsynlegt að ganga úr skugga um það, herra forseti, hvort Norsk Hydro væri reiðubúið til þess að standa við þessi orð, ekki síst í ljósi þess að seinni yfirlýsing fyrirtækisins dró í engu til baka yfirlýsinguna sem áður hafði komið. Þetta var þess vegna ákaflega mikilvægt, herra forseti. En það verður að segjast eins og er að meiri hlutinn lagðist gegn þessu, væntanlega vegna þess, eins og kemur reyndar fram á 1. bls. í greinargerð hæstv. iðnrh., að það er engu líkara en iðnrn. hafi gefið sér það að ef farið yrði í mat á umhverfisáhrifum, þá mundi framkvæmdin ekki standast það mat.

Herra forseti. Ég verð að segja að eftir því sem þessari rannsókn þingsins á málinu hefur undið fram, þá er ég þeirrar skoðunar að þetta sé rétt mat hjá hæstv. iðnrh. Ég tel að á því séu ákaflega litlar líkur. Miðað við þær fábrotnu upplýsingar sem liggja fyrir og nýjar upplýsingar sem ekki er að finna í skýrslunni finnst mér ólíklegt að þessi framkvæmd yrði heimiluð. Það liggur einfaldlega fyrir að þær upplýsingar sem hægt hefur verið að draga fram úr ýmsum áttum og ekki er að finna í þessari skýrslu Landsvirkjunar, benda í vaxandi mæli til þess að sérstaða Eyjabakka og sér í lagi lónstæðisins sé slík að varla sé á þetta hættandi. Ég vil eigi að síður, herra forseti, segja það alveg skýrt, m.a. út af ummælum nokkurra hv. þingmanna hér, og ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég er þeirrar skoðunar að mat á umhverfisáhrifum sé þær leikreglur sem við höfum sett okkur og ég er þeirrar skoðunar að ef því yrði beitt á þessa framkvæmd og niðurstaðan yrði sú að ásættanlegt væri að leggja í framkvæmdina, þá mundi ég styðja það en ekki leggjast gegn því. Þetta vil ég að sé algjörlega ljóst, herra forseti.

Stærsti gallinn sem komið hefur fram við rannsókn þessa máls blasir auðvitað við þegar maður ber saman annars vegar framkvæmdina, Fljótsdalsvirkjun sjálfa, og hins vegar það álver sem fyrirhugað er að reisa á Reyðarfirði. Við erum í þessu tiltekna þingmáli, herra forseti, að slást fyrir því að í mat á umhverfisáhrifum verði sett virkjun sem dugar ekki nema til þess að framleiða 100 þúsund tonn af áli. Á sama tíma er verið að meta umhverfisáhrif stóriðjuvers á Reyðarfirði sem á hins vegar ekki að framleiða 100 þúsund tonn heldur 480 þúsund tonn. Þá er óhjákvæmilegt að menn spyrji: Hvaðan á öll þessi mikla orka að koma? Það liggur auðvitað ljóst fyrir að uppi eru miklar hugmyndir um stóriðju á svæðinu norðaustan Vatnajökuls. Fyrir utan Fljótsdalsvirkjun eru menn að ræða um stækkaða Fljótsdalsvirkjun. Menn eru að ræða um Hraunaveitur, Hraunavirkjun. Menn eru að ræða um Kárahnúkavirkjun og menn eru auðvitað ekki að öllu leyti búnir að varpa fyrir róða hinum skelfilegum hugmyndum um að virkja Jökulsá á Fjöllum og setja krana á Dettifoss.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt, ef menn ætla að hafa eitthvert skipulag eða yfirsýn yfir þetta mál, að geta gert grein fyrir því hvaðan orkan eigi að koma til þess að standa undir þeim 380 þúsundum tonna sem orkan úr Fljótsdalsvirkjun dugar ekki til að knýja. Engin svör hafa komið við því, herra forseti. En það liggur alveg ljóst fyrir að stefnt er að því að fara í Kárahnúkavirkjun og ef menn tækju saman mat á Fljótsdalsvirkjun og Kárahnúkavirkjun eins og hefði auðvitað verið eðlilegt, þá blasti auðvitað við allt önnur niðurstaða varðandi ýmis mikilvæg atriði eins og t.d. gæsina, en kannski fyrst og fremst hreindýr. Þá er t.d. alveg ljóst að mikilvægir bithagar hreindýra sem sagt er að ættu að nægja þeim í Kringilsárrana, mundu fara undir vatn. En annað mundi líka gerast, svo að ég taki dæmi um hvers vegna þarf að meta þetta saman. Það allra sérstæðasta í landslagi og jarðmyndunum sem er að finna á áhrifasvæði Fljótsdalsvirkjunar eru hraukarnir á Eyjabökkum. Hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa varið förgun þeirra sem er óhjákvæmileg eins og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur samviskusamlega gengist við. Þeir hafa varið það með því að vísa á töðuhraukana í Kringilsárrana.

Ef hv. þm. Hjálmar Árnason heyrir mál mitt, þá vil ég spyrja hann eftirfarandi spurningar: Er það ekki rétt skilið hjá mér að ef virkjað verður í Kárahnúkum þá fara þeir undir vatn? Það er nauðsynlegt að svona liggi fyrir, herra forseti, því að ekki dugar að segja í þessari umræðu eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði í sinni ræðu þegar hann mælti fyrir áliti meiri hluta iðnn., að þó að hraukarnir á Eyjabökkum færu undir vatn þá yrðu menn að horfa til þess að til væru svipaðar jarðmyndanir, að vísu ekki alveg eins en svipaðar eins og hv. þm. sagði, og að við hefðum þá þó töðuhraukana í Kringilsárrana eftir. En er ekki alveg ljóst, herra forseti, að töðuhraukarnir mundu tapast ef farið yrði í Kárahnúkavirkjun? Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason vegna þess að hann nefndi þetta sérsaklega: Er hann tilbúinn til að lýsa því yfir að til þess að vernda þessar sérstöku landmyndanir þá verði ekki farið í þá virkjun? Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða, herra forseti. Því tel ég að það sé hárrétt hjá hinum vandaða embættismanni, skipulagsstjóra, þegar hann gaf út álit sitt við frumathugun á álverinu á Reyðarfirði að það hefði auðvitað verið æskilegra að fara í heildarmat á þessu öllu saman, þ.e. 480 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði og öllum þeim virkjunum sem þarf að ráðast í til þess að afla orku til þess að standa undir því. Það hefði verið æskilegt og það hefði verið sanngjarnt. En eins og bent er á, herra forseti, (KHG: Hefði það verið heildar ...?) þá er ólíklegt að lagaheimildir séu fyrir því. (Gripið fram í.)

[20:45]

Herra forseti. Hér kallar fram í hv. þm. Kristján Pálsson: ,,Hvað með Dimmugljúfur?`` Hann er mikill áhangandi þeirra alveg eins og þjóðin veit af frábærri grein sem hann skrifaði í fyrra. Hann er líka mikill aðdáandi Eyjabakka og hefur sagt að hann vilji margt og mikið á sig leggja til að vernda þá. En hvað með Dimmugljúfur? Þetta er auðvitað allt saman orpið undir þessa leikreglu sem ég nefndi áðan. Ef það er niðurstaða, herra forseti, mats á umhverfisáhrifum samkvæmt þeim lögum sem við höfum sett okkur að verjanlegt sé að sökkva þeim eða þurrka þá eftir atvikum, þá tel ég einfaldlega að ekki sé hægt að mæla gegn því. Þá tel ég að menn hafi komist að því eftir að hafa metið allt sviðið að hægt sé að verja það og það er nákvæmlega það sama og ég segi fyrir mína parta um Eyjabakka. Ef eftir yfirferð allra málsatvika er hægt að segja: Við getum varið það að því svæði verði sökkt, t.d. með vísun til þess að önnur svæði viðlíka muni ekki glatast, þá er það orðið ásættanlegt.

Herra forseti. Af því að hv. þm. Kristján Pálsson er staddur í salnum og af því að hann hefur verið einna virkastur þeirra þingmanna stjórnarliðsins sem tekið hafa þátt í umræðunum hérna, þá þætti mér fengur að því að fá frá honum frekari skýringar á þeim mótvægisaðgerðum sem hann hefur einmitt lagt inn í þessa umræðu. Hv. þm. sem er e.t.v. sérstakur vinur forustu Landsvirkjunar gerðist a.m.k. málflutningsmaður hennar fyrr í umræðunni og sagðist hafa heimild til þess að leggja fram ákveðnar hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Ég nefni þetta sérstaklega, herra forseti, vegna þess að ég varð þess áskynja, án þess að ég ætli að fara að rekja hér samtöl sem áttu sér stað innan umhvn., að sá partur af skýrslu Landsvirkjunar um umhverfi og umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar sem augljóslega sætti mestri gagnrýni af hálfu stjórnarliða voru þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir.

Eitt af því sem mat á umhverfisáhrifum á að leiða til er einmitt að finna aðgerðir sem gætu með einhverju móti dregið úr þeim skaða sem tiltekin framkvæmd sem er undir mati leiðir til. Getum við einhvern veginn gripið til einhverra aðgerða sem draga úr þessum skaða? Ég nefni dæmi, herra forseti: Eyjabakkar eru augljóslega merkilegt votlendi á hálendissvæði. Ef það fer forgörðum, er þá mögulegt á einhvern hátt að endurheimta votlendi í svipaðri hæð? Er einhvern veginn hægt að finna aðferðir til þess að binda koltvíildi, en ákveðnir möguleikar til þess glatast þegar menn sökkva votlendinu á Eyjabökkum? Ég spyr hv. þm. Kristján Pálsson vegna þess að hann hefur fært þetta inn í umræðuna: Hvernig sér hann möguleika á því t.d. að grípa til aðgerða til þess að endurheimta votlendi? Mér þætti líka gaman að vita, ef slíkar hugmyndir eru uppi, hvort hann telji þá ekki að réttara hefði verið af Landsvirkjun að geta þeirra ítarlega í sinni skýrslu?

Það er nefnilega þannig að það sem hv. þingmenn Sjálfstfl. í umhvn., og ekki sá fulltrúi flokksins sem hefur farið gegn flokknum í þessu máli, höfðu fyrst og fremst gegn þessari skýrslu var skortur á útfærslu þessara mótvægisaðgerða. Ég bendi líka á að hv. þm. Kristján Pálsson hefur lýst því hér og sagst hafa heimild til þess að gera það fyrir hönd Landsvirkjunar að eitt af því sem menn vildu freista að gera væri að búa til hólma. Hann telur með öðrum orðum í fullri alvöru að manngerðir hólmar í hinu fyrirhugaða lóni séu mótvægisaðgerð sem hægt er að tala um sem raunverulega.

Herra forseti. Ég vek líka eftirtekt á því að því hefur verið kastað fram í umræðunni, að vísu ekki í þessum sal en hins vegar af hálfu stjórnarliðsins, drepið hefur verið á það í samtölum við fjölmiðla, að það kunni að vera gerlegt að vernda hraukana sem ég hef áður nefnt í þessari tölu minni eða hluta þeirra með því að reka niður stálþil í kringum þá. Mér finnst þetta auðvitað víðáttuheimskuleg hugmynd en hún hefur eigi að síður verið rædd, m.a. hefur verið drepið á hana innan umhvn. Látum það nú vera hversu heimskuleg mér kann að þykja slík hugmynd en, herra forseti, ég hefði verulega gaman af því að heyra skoðun hv. þm. Kristjáns Pálssonar á því sem sérstaks áhugamanns um mótvægisaðgerðirnar, hvort ekki hefði verið miklu vitlegra af Landsvirkjun að koma fram með þessar hugmyndir í sinni skýrslu.

Herra forseti. Ég velti því upp hvort skýring kunni að vera á þessu. Gæti verið að þessar aðgerðir, til að mynda endurheimt votlendis, væru það erfiðar og dýrar að Landsvirkjun væri að reyna að skjóta sér undan þeim? Ástæðan fyrir því að ég segi þetta, herra forseti, er að ég finn ekki í þessari skýrslu hérna neinar mótvægisaðgerðir kynntar sem eiga beinlínis að vega upp á móti eyðingu votlendis og gróðurs á Eyjabökkum. Á bls. 120 er sagt, með leyfi forseta:

,,Ekki er ljóst hvort virkjanaframkvæmdir í Fljótsdal falla undir þessi ákvæði, þ.e. hvort Landsvirkjun sé skylt að bæta með einhverjum hætti þá tæplega 30 km2 af grónu landi, sem fara undir mannvirki Fljótsdalsvirkjunar.``

Þarna er verið að vísa til 17. gr. landgræðslulaganna þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Land skal nytja svo, að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Sá, sem landspjöllum veldur með mannvirkjagerð eða á annan hátt, er skyldur að bæta þau.``

Það er alveg ljóst hvað landgræðslulögin segja um þetta. Það er alveg ljóst samkvæmt þessu að ef ráðist er í þessa framkvæmd, þá ber Landsvirkjun að reyna með einhverjum hætti að bæta fyrir það tap á gróðri og þau landspjöll sem þarna verða. En jafnljóst er að á bls. 120 er Landsvirkjun greinilega meðvitað að reyna að skjóta sér undan þessari ábyrgð. Ég trúi varla að Landsvirkjunarforustan hafi verið svo full af hroka þegar hún lagðist í þetta verk sem birtist okkur í þessari skýrslu að hún hafi haldið að hún kæmist upp með að senda þetta í gegn rétt sisona án þess að menn ræddu þetta í þinginu og bentu á að hún er þarna bersýnilega að skjóta sér undan þeirri skyldu að benda á mótvægisaðgerðir.

Ég held því fram, herra forseti, að þarna sé á ferðinni einfaldlega meðvituð tilraun Landsvirkjunar til þess að skjóta sér undan þeim kostnaði sem hlýst af þessum aðgerðum og ég held, því miður, að hún telji sig hafa ráð þingmeirihlutans svo í hendi sér að henni verði kápan úr því klæðinu. Ég verð hins vegar að segja hæstv. umhvrh. og forvera hennar til hróss að Framsfl. hefur þó lagt ákveðið fordæmi um þetta tiltekna efni, herra forseti. Ég vísa til þess að umhvrh. hefur í mati á umhverfisáhrifum í tilteknu máli úrskurðað að í stað votlendis sem eyðist við framkvæmdir skuli endurheimta jafnríkt votlendi. Hins vegar eru engar tillögur um þetta í skýrslu Landsvirkjunar heldur segir Landsvirkjun miklu fremur á síðunni á undan þeirri sem ég var að vitna í áðan, bls. 119, með leyfi forseta:

,,Umhverfisráðuneytið hefur ekki gert slíkar kröfur varðandi virkjanaframkvæmdir í Fljótsdal, e.t.v. af því að framkvæmdaleyfi stjórnvalda er frá árinu 1991. Ekki liggur fyrir hvaða svæði ... taka mætti til endurheimtu í staðinn fyrir votlendið á Eyjabökkum.``

Af því að hæstv. umhvrh. er staddur í salnum, þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki að það sé óhjákvæmilegt að umhvrn. geri a.m.k. kröfu um að votlendi sem telja má sambærilegt því sem er að finna á Eyjabökkum verði endurheimt ef ráðist verður í þessa framkvæmd. Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Hefur einhver vinna farið fram innan ráðuneytisins til þess að hægt sé að ráðast í slíkar framkvæmdir? Er með öðrum orðum búið að finna landsvæði eða kann að vera, eins og prófessor Eyþór Einarsson telur og reyndar prófessor Þóra Ellen Þórhallsdóttir, að ekki sé hægt að finna neitt landsvæði í þessari hæð, þ.e. 650 m yfir sjávarmáli, sem mætti nota til þess að endurheimta votlendi? Ef svo er þætti mér vænt um að hæstv. umhvrh. svaraði eftirfarandi spurningu: Telur hún þá gerlegt og verjanlegt að ráðast í þessa framkvæmd?

Herra forseti. Ég sagði áðan að það sem er langverst við þessa skýrslu Landsvirkjunar er sá þáttur sem varðar rannsóknir á gróðri, dýralífi og almennu náttúrufari á Eyjabakkasvæðinu. Til þess að það sé enginn vafi á því hvaða kröfur beri að gera til þessarar skýrslu, þá er rétt að greina frá því að bæði í formála skýrslunnar og í fjölmörgum bréfum sem Landsvirkjun sendi ýmsum aðilum sem tengjast málinu með einum eða öðrum hætti kemur fram eftirfarandi tilgangur með skýrslunni, eins og segir t.d. í bréfi Landsvirkjunar til sveitarstjórnar Norður-Héraðs sem dagsett er 31. júlí. Þar er greint frá eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Þó svo að Landsvirkjun hafi fullar heimildir fyrir byggingu Fljótsdalsvirkjunar og sé ekki skylt lögum samkvæmt að vinna mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hefur stjórn fyrirtækisins eigi að síður ákveðið að láta gera slíkt mat fyrir virkjunina. Með matinu og tengdum rannsóknum er ætlunin að leiða í ljós raunveruleg umhverfisáhrif virkjunarinnar og hvaða leiðir séu færar til að draga úr þeim.``

Tilgangurinn, herra forseti, er með öðrum orðum algerlega ljós og það kemur einnig fram að fjölmargar stofnanir svara þessu bréfi, lýsa yfir ánægju sinni með þetta og lýsa jafnframt yfir að þær eru reiðubúnar til þess að aðstoða Landsvirkjun við þetta.

Sér í lagi finnst mér nauðsynlegt að draga fram bréf frá Náttúruvernd ríkisins sem Árni Bragason forstjóri skrifar undir og er dagsett 9. september á þessu ári. Þar er vísað í bréf frá Landsvirkjun þar sem óskað er eftir ábendingu frá Náttúruvernd ríkisins. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem fram hefur komið í samtölum milli Landsvirkjunar og Náttúruverndar ríkisins að leggja eigi framangreinda matsskýrslu fyrir Alþingi veitir Náttúruvernd ríkisins fúslega ábendingar við vinnslu skýrslunnar.``

Fleiri stofnanir sem vinna að náttúrufræði Íslands bjóða fram þessa aðstoð. Hvað blasir svo við, herra forseti? Það blasir við þegar við höfum þessa skýrslu í höndunum að það er deginum ljósara að enginn líffræðingur hefur komið að endanlegri gerð skýrslunnar, enginn líffræðingur hefur lesið skýrsluna yfir og engin af þeim stofnunum sem sjálfviljugar buðu fram aðstoð sína hefur verið fengin til þess að lesa hana yfir. Fyrir vikið stöndum við uppi með hrákasmíð þar sem eru beinlínis settar fram villandi staðreyndir, rangar staðreyndir, þar sem augljóslega vantar rannsóknir, bæði rannsóknir sem ekki hafa verið gerðar en hefði verið hægt að gera en jafnframt vantar niðurstöður rannsókna sem þó eru til í landinu. Það var ákaflega undarlegt að lesa bréf forstjóra Náttúrufræðistofnunar þar sem hann harmar það hvernig gögn frá stofnuninni hafa verið notuð af höfundum skýrslunnar og segir jafnframt að verulegir gallar séu á tilteknum þáttum, t.d. varðandi rof og fok frá væntanlegu lóni, en segir að fyrir liggi rannsóknir í landinu í opinberum skýrslum sem hefði verið hægt að nota til þess að svara mjög áleitnum spurningum um þau tilteknu efni. Herra forseti. Þetta er auðvitað ákaflega ámælisvert og má þar með segja að ill hafi gangan fyrsta verið af hálfu Landsvirkjunar varðandi náttúrufarsþáttinn. En ekki batnaði hún þegar á leið.

Það er óhætt að fullyrða að allir sem hafa lesið náttúrufars\-kafla skýrslu Landsvirkjunar hafa gagnrýnt hana ákaflega harkalega. Við rannsókn okkar hv. þm. umhvn. á málinu rann smám saman upp fyrir mönnum að þær rannsóknir, sem lýst var svo fallega og stóryrt við fyrri umræðu málsins og talsmenn Landsvirkjunar í þessum sal og utan þingsins höfðu sagt að búið væri að gera, höfðu einfaldlega ekki verið framkvæmdar. Ég rifja það upp að einn hv. þm. sem sæti á í iðnn. af hálfu meiri hlutans, ríkisstjórnarinnar, sagði í ræðu sinni við fyrri umræðu málsins að enginn lófastór blettur á landinu væri jafn vel rannsakaður og Eyjabakkar og það þarf ekki, herra forseti, að rifja upp hin stóru orð hæstv. forsrh. sem talaði þungt mál og lét stór orð falla við fyrri umræðu málsins og sagði aftur og aftur að ekkert svæði á landinu væri jafn vel rannsakað og Eyjabakkasvæðið.

[21:00]

Þessu trúði ég auðvitað, herra forseti. En þegar ég les þessa skýrslu og ber saman við frumheimildirnar þá sé ég að enginn líffræðingur, vistfræðingur eða náttúrufræðingur hefur komið að samningu skýrslunnar. Rétt er að það komi fram að við spurðum þá sem komu að þessu fyrir hönd Landsvirkjunar og iðnrn. Það var ekki hægt að benda á nokkurn einasta náttúrufræðing sem lesið hafði þessa skýrslu yfir. Mikil skelfing held ég að þeir Austfirðingar sem helst hafa talað fyrir þessari framkvæmd verði óhressir með þátt Landsvirkjunar í málinu þegar upp verður staðið. Allur sá vandi sem stjórnarmeirihlutinn á núna við að glíma og stóru holurnar í málinu eru vegna afglapa hjá forustu Landsvirkjunar. Það er með ólíkindum að setja fram skýrslu þar sem vitað var að mesta og harðasta gagnrýnin mundi beinast að náttúrufarsþáttum en enginn sérfræðingur hafi verið fenginn til að lesa þetta. Það er auðvitað með ólíkindum.

Herra forseti. Í þessari skýrslu um áhrif Fljótsdalsvirkjunar á umhverfi virkjunarsvæðisins þá fullyrðir Landsvirkjun t.d. að byggt sé á athugunum á gróðurfari Eyjabakka sem ljóst er að aldrei voru gerðar. Forusta Landsvirkjunar hefur lagt fram skýrslu þar sem vísað er til rannsókna á gróðurfari árið 1998 sem sannarlega voru ekki gerðar, eins og ég mun rekja í máli mínu. Sömuleiðis liggur fyrir að staðhæfingar Landsvirkjunar í skýrslunni um að rannsóknir á dýralífi svæðisins hafi verið gerðar eins í hartnær 30 ár eru sömuleiðis ákaflega grófar ýkjur. Í skýrslunni segir, herra forseti, á bls. 66 um athuganir á gróðurfari Eyjabakkasvæðisins, með leyfi forseta:

,,Sumarið 1998 gerði Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur athuganir á svæðinu.`` Einnig er fullyrt að, með leyfi forseta: ,,... ítarlegar rannsóknir vegna virkjunaráforma hófust 1975 og hafa þær staðið yfir með hléum síðan.`` Þetta er, herra forseti, hvort tveggja ósatt. Af a.m.k. hluta þessara röngu staðhæfinga hljóta sérfræðingar Landsvirkjunar að hafa vitað ef þeir hafa lesið skýrslu grasafræðingsins sem þessi þáttur á að byggja á.

Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur skilaði greinargerð sinni til Landsvirkjunar í mars á þessu ári. Hún tók yfir athuganir sem hann gerði sumarið 1998. Þar segir orðrétt, herra forseti, og nú þætti mér vænt um að hv. þm. Kristján Pálsson hlýddi á orð mín vegna þess að hann gerði þetta að umræðuefni fyrr í dag. En í skýrslunni segir orðrétt, herra forseti:

,,Vegna vatnavaxta varð ekki komist út í Þóriseyjar eða að hraukum og er þar byggt á fyrri athugunum.`` Niðurstaðan er sem sagt sú að grasafræðingurinn komst ekki út í Eyjabakka eins og hann gerir Landsvirkjun skilmerkilega grein fyrir. Þess vegna er það ekki satt hjá Landsvirkjun þegar hún segir að skýrslan byggi á athugunum á gróðurfari Eyjabakka sumarið 1998. Það er ákaflega athyglisvert, herra forseti, að í hnausþykku fylgiriti sem hv. þm. fengu, með flestum skjölum málsins og að ég held öllum þeim greinargerðum sem varða náttúrufar og sendar voru til Landsvirkjunar um rannsóknir á náttúrufari vegna þessa máls, þá vantar bara eina skýrslu. Það er skýrsla grasafræðingsins Ágústs H. Bjarnasonar.

Maður veltir því fyrir sér hvernig á því stendur að engir vísindamenn vissu um þessa skýrslu fyrr en langt var liðið á rannsókn málsins, það hafði enginn séð hana. Grasafræðiprófessor sem fann hana loks á bókasafni Landsvirkjunar kom henni í hendur þingmanna. Það skiptir í sjálfu sér engu máli. Það sem skiptir máli er hvað í henni stendur. Herra forseti. Hvaða ítarlegu gróðurrannsóknir eru það svo sem stóðu á Eyjabökkum með hléum frá árinu 1975? Að beiðni umhvn. kannaði Náttúrufræðistofnun hvaða rannsóknir hefðu verið gerðar á gróðri Eyjabakka. Niðurstaðan varð þessi: Árið 1975 var gróður kannaður í 7 daga. Árið 1997 var gróður kannaður í 10 daga. Orðrétt segir í bréfi Náttúrufræðistofnunar til umhvn., með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ekki vitneskju um aðrar gróðurrannsóknir á þessu svæði fyrir utan rannsóknir Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum árið 1935.``

Landsvirkjun leyfir sér að halda því fram gagnvart Alþingi Íslendinga að rannsóknir sem stóðu samtals í 17 daga fyrir 22 árum séu ítarlega rannsóknir sem með hléum hafi spannað aldarfjórðung. Herra forseti. Hvað heitir þetta? Ef hv. þm. Kristján Pálsson vill t.d. spyrja mig eins og hann spurði annan þingmann í dag: Hvað þýðir þetta? Þá segi ég: Þetta þýðir einungis eitt. Landsvirkjun er að segja ósatt. Hún felur skýrslu þar sem grasafræðingur segir skilmerkilega að hann hafi aldrei farið út í Eyjabakka. (KPál: Hann segir það annars staðar.) Hv. þm. Kristján Pálsson segir að hann segi það annars staðar. Það er ekki rétt. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að Ágúst H. Bjarnason haldi því fram annars staðar að hann hafi farið út í Eyjabakka. Hið rétta í þessu máli er það hins vegar að höfundar skýrslunnar segja í grein, svari við grein minni í Morgunblaðinu, að þó hann hefði að sönnu ekki komist í Þóriseyjar, sem eru hjarta Eyjabakkanna, þá hafi hann eigi að síður farið, ég vitna í svar höfundanna, með leyfi forseta: ,,um lónsstæðið vestan Jökulsár, alveg frá stíflustæði og inn undir jökul. Hann kannaði gróður á Hafursárufs, í Snæfellsnesi, undir Hálsi og í Þjófagilsflóa til samanburðar við eldri rannsóknir.``

Gott og vel, herra forseti. Segjum svo að grasafræðingurinn hafi farið þarna um. Gallinn er sá að hvergi í greinargerðinni er stakt orð að finna um athuganir á þessu svæði. Ef hv. þm. Kristján Pálsson eða einhverjir aðrir hv. þm. úr hópi hans eru sammála Landsvirkjun um að ég hafi ekki alls kostar farið með rétt mál þegar ég hélt því fram að grasafræðingur stofnunarinnar hafi ekki farið inn á Eyjabakka þá vil ég taka af allan vafa um þetta mál. Ég tel rétt að upplýsa það hér, herra forseti, að Ágúst H. Bjarnason hefur sjálfur staðfest það skriflega í bréfi til mín að hann hafi gert athuganir á gróðurfélögum á þremur lónstæðum og við aðkomugöng en ekki á Eyjabökkum. Ég held, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Kristjáni Pálssyni, að grasafræðingurinn sé betur að því kominn að segja til um sínar eigin ferðir en hann og veit ég þó að hv. þm. Kristján Pálsson veit margt og mikið.

Herra forseti. Ég hef undir höndum bréf sem mig minnir að sé frá 4. desember, sent í tölvupósti til mín frá grasafræðingnum Ágústi H. Bjarnasyni. Hann segir þar alveg klárt og kvitt að hann hafi gert athuganir á gróðurfélögum á þremur lónstæðum og við aðkomugöng en ekki á Eyjabökkum. Það liggur þess vegna ljóst fyrir að þessi tiltekni vísindamaður hefur staðfest að hann fór ekki inn á Eyjabakka, bara svo það sé alveg klárt. Þó það væri rétt sem kemur fram hjá fjórmenningunum sem skrifuðu greinargerð í Morgunblaðið og lýstu því hvert hann fór þá er hins vegar ljóst að ekki eitt einasta orð er að finna um það í greinargerð hans.

Í skýrslu Landsvirkjunar segir líka á bls. 133, með leyfi forseta:

,,... rannsóknir á dýralífi við Eyjabakka hafa nú staðið yfir í hartnær 30 ár ...`` Þetta er eins og ég sagði áðan ekkert annað en grófar ýkjur. Hið sanna er að þessar rannsóknir stóðu aðeins yfir sumrin 1989--1981 auk einnar viku sumarið 1975. Síðan hafa að vísu gæsir og hreindýr verið talin dagpart á sumri hverju. Þetta, herra forseti, er einnig staðfest í öðru bréfi frá Náttúrufræðistofnun Íslands til umhvn. Alþingis. Við báðum Náttúrufræðistofnun um að fara yfir þetta mál og þetta er niðurstaðan.

Það er líka athyglisvert, herra forseti, að Landsvirkjun segir að í greinargerð grasafræðingsins sé skilmerkilega greint frá fyrri gróðurrannsóknum á svæðinu. En hver er niðurstaða grasafræðingsins sjálfs? Í ályktunum greinargerðarinnar um gróður á svæði fyrirhugaðs Eyjabakkalóns segir, með leyfi forseta:

,,Meginþorri þeirra gróðurlýsinga, sem til eru af þessu svæði, eru almenns eðlis. Gróður á fyrirhuguðu svæði Eyjabakkalóns er því aðeins þekktur í stærstu megindráttum, þar sem fáar eða nær engar nákvæmar athuganir hafa verið gerðar.``

Ég spyr, herra forseti: Er þetta kannski ástæðan fyrir því að Landsvirkjun kinokaði sér við að láta greinargerð grasafræðingsins fylgja með riti sínu til okkar þingmanna? Hérna er því einfaldlega lýst heiðarlega yfir í skýrslunni af sjálfum grasafræðingi Landsvirkjunar að á Eyjabakkasvæðinu hafi því miður næstum engar nákvæmar rannsóknir verið gerðar. Ég spyr, herra forseti: Eru þeir menn í lagi sem andspænis þessum ályktunum grasafræðingsins Ágústs H. Bjarnasonar halda því fram að Eyjabakkasvæðið sé mest rannsakaða svæðið á landinu? Það er fullkomlega út í hött.

Það er líka rétt, herra forseti, að halda áfram að vitna frekar í greinargerð Ágústs H. Bjarnasonar. Hann segir að vísindamennirnir sem gerðu einu marktæku rannsóknirnar á Eyjabökkum, Hjörleifur Guttormsson, Kristbjörn Egilsson að ég held og einhverjir með honum, telji greinilega sjálfir að athuganir þeirra séu forathuganir. Þetta sést af eftirfarandi orðum grasafræðingsins þegar hann segir, með leyfi forseta:

,,Hafa skal í huga að höfundar setja sér ekkert tilgreint markmið, heldur ber lýsing þeirra með sér, að þeir líta svo á, að hér sé um undanfara nánari könnunar að ræða.``

Herra forseti. Ef sjálfur grasafræðingur Landsvirkjunar kemst að þessari niðurstöðu, þá spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum réðst Landsvirkjun aldrei í alvörurannsóknir? Ef það er ljóst af úttekt mannsins, sem sérstaklega var ráðinn af fyrirtækinu til að fara ofan í þær rannsóknir sem til voru, að endanlegar rannsóknir vantaði, hvers vegna gerði fyrirtækið þær ekki? Þessar upplýsingar tel ég lykilatriði í málinu. Það er lykilatriði að þingmenn og þjóðin geri sér grein fyrir því að Landsvirkjun hélt þessum upplýsingum frá alþingismönnum. Þetta var ekki að finna í fylgiritinu þó að þar væru allar aðrar greinargerðir sem vitnað er til í skýrslunni.

Herra forseti. Til hægðarauka fyrir hv. þm. Kristján Pálsson og til að létta lund hans í kvöld þá leyfi ég mér að segja honum að bréfið sem ég vísaði til áðan er dagsett 4. desember 1999 og þar segir, ég vitna orðrétt:

,,Í annan stað gerði ég athuganir á gróðurfélögum á þremur lónstæðum og við aðkomugöng en ekki á Eyjabökkum.`` Það liggur ljóst fyrir að miðað við þær upplýsingar sem umræddur vísindamaður hefur veitt mér skriflega í tölvupósti þá fór hann ekki inn á þetta svæði. Ef hv. þm. Kristján Pálsson hefur aðrar upplýsingar þá harma ég það og skil ekki hvernig á því stendur. Það skiptir þó ekki meginmáli vegna þess að í sjálfri greinargerð grasafræðingsins er ekkert að finna um athuganir hans á þessu svæði.

Landsvirkjun hefur reynt að svara þessum harkalegu staðhæfingum mínum og ásökunum á hendur henni sem ég hef sett fram bæði hér við fyrri umræður en líka opinberlega. Svipaðar staðhæfingar koma fram í álitum stjórnarandstæðinga í iðnn. Sömuleiðis hefur Landsvirkjun sent frá sér plagg, dagsett 10. desember, þar sem reynt er að svara ýmsum atriðum sem koma fram í áliti 2. minni hluta umhvn. Alþingis. Það sem þar segir, herra forseti, er ákaflega fróðlegt að lesa á eftir því sem ég hef lesið upp eftir grasafræðingi stofnunarinnar sjálfrar. Þar segir, m.a., með leyfi forseta:

,,Í skýrslunni og fylgiriti er mjög víða vitnað í innlendar og erlendar rannsóknir um áhrif virkjunarframkvæmda á náttúrufar á svæðinu. Hins vegar er engan veginn unnt að telja upp í skýrslunni aðrar skýrslur í fórum Landsvirkjunar og annarra aðila um þetta efni almennt sem eru margir hillumetrar.``

[21:15]

Herra forseti. Fyrir liggur að nánast engar athuganir hafa verið gerðar síðustu 20 árin. Það eru 22 ár síðan síðustu alvörurannsóknirnar voru gerðar en Landsvirkjun lætur að því liggja að svo mikið sé til af rannsóknum á náttúrufari áhrifasvæðis Fljótsdalsvirkjanir að það séu margir hillumetrar. En bara af því að margir þingmenn hafa auga fyrir því sem skondið er þá væri gaman að lesa fyrir þá það sem segir annars staðar í þessari greinargerð, með leyfi forseta: ,,Auðvitað er æskilegt að rannsaka gróðurfar sem mest en einhvers staðar verður að setja mörkin.`` Herra forseti. Hvar voru mörkin sett af Landsvirkjun? Þau voru sett áður en rannsóknirnar byrjuðu. Rannsóknirnar sem áttu að fara fram árið 1998 voru aldrei gerðar. Svo einfalt er þetta mál.

Mér þykir reyndar átakanlegt að þegar Landsvirkjun reyndi að svara staðhæfingum í nefndarálitum sem ég vísaði til og ýmsu í máli stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlum, þá var áberandi hversu lítinn skilning Landsvirkjun hafði þó á þeim staðreyndum sem fyrir lágu í málinu. Mér fannst áberandi hvernig fyrirtækið ruglaði saman ártölum og svæðum og það var stundum engu líkara en menn væru áfram að reyna að slá ryki í augu fólks. Auðvitað er það skiljanlegt í ljósi þess hversu herfilega útreið náttúrufarsparturinn af skýrslu Landsvirkjunar hefur fengið í þessum sölum og annars staðar í samfélaginu þar sem sérfræðingar sem vit hafa á hafa um það fjallað.

Það er athyglisvert að í svörum Landsvirkjunar hefur fyrirtækið m.a. vísað til þess að umfjöllun um dýralíf á svæðinu sé ófullburða, t.d. rannsóknir á gæsum, og það verið rakið til þess að þar liggi ekki fyrir gögn. Þannig hefur verið bent á að talningar á heiðagæsum sem fyrirtækið kostaði 1991--1992 séu ekki fullunnar og því umhendis að nota þær við þessa skýrslu. Því er borið við að skýrsla um þær rannsóknir sé enn þá í vinnslu og þar af leiðandi sé ekki hægt að nota hana. Tæknilega, herra forseti, er þetta alveg rétt. Hitt liggur eigi að síður fyrir eins og skýrsluhöfundar ættu a.m.k. að vita að allar meginniðurstöður úr þeirri rannsókn birtust í svokallaðri SINO-skýrslu árið 1992. Þar kom ákaflega glöggt fram hversu mikilvægir Eyjabakkar eru fyrir heiðagæsir.

Ég vil einnig benda á, til að setja málflutning Landsvirkjunar í rétt ljós, að í svargrein sinni sem birtist í Morgunblaðinu sagði Landsvirkjun að m.a. ég og aðrir andmælendur hefðum vitnað í Náttúrufræðistofnun Íslands um gæsarannsóknir en ekki verið með réttar upplýsingar, þ.e. það hafi verið rangt hjá okkur að rannsóknir á gæsum hafi staðið yfir í þrjú sumur árið 1979--1981 auk dagparts á sumri hverju. Máli sínu til stuðnings nefndi Landsvirkjun t.d. að Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði við háskólann hefði, og ég vitna í svarið, með leyfi forseta: ,,... kannað svæðið frá Snæfelli og í Grágæsadal og fann þá einungis smáhópa af heiðagæsum.`` Þetta er alveg rétt. En við þetta er því að bæta að vísindamaðurinn var að leita að hreindýrum en ekki gæsum. Það sem skiptir hins vegar öllu máli er að hann fór ekki inn á Eyjabakka heldur um svæðið frá Grágæsadal og að Snæfelli. Það er forkostulegt að lesa svona athugasemdir frá Landsvirkjun.

Einnig er mikilvægt, herra forseti, að Náttúrufræðistofnun Íslands tjáði Landsvirkjun að hún treysti sér ekki til þess að meta áhrif virkjunarframkvæmda á bæði far og viðkomu hreindýrastofnsins á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir. Þetta kemur fram í bréfi sem dags. er 22. september 1999. Þar segir Náttúrufræðistofnun eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun treystir sér ekki til að spá fyrir um hugsanleg áhrif fyrirhugaðs lóns á far hreindýra á þessu svæði eða um önnur áhrif á hreindýrastofninn á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Vísað er til embættis veiðistjóra í því sambandi.``

Hvað, herra forseti, segir veiðistjóri? Hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Veiðistjóri telur helst skorta upplýsingar um far og notkun hreindýra á Eyjabakkasvæðinu (þ.e. fjölda eftir árstíðum og hversu lengi þau dvelja á svæðinu) en þeirra gagna væri m.a. hægt að afla með því að setja GPS-sendi á nokkurn fjölda dýra.``

Með öðrum orðum liggur ljóst fyrir að átakanlega skortir upplýsingar um þennan mikilvæga þátt lífríkisins, þ.e. hreindýr. Landsvirkjun er auðvitað mörgum árum of sein til að grípa til viðeigandi ráðstafana í þeim efnum. Af hverju stafar það, herra forseti? Stafar það af einhverri inngróinni andúð á þeim vísindamanni sem hefur Íslendinga gerst rannsakað hreindýr? Ég á auðvitað við þá staðreynd að Skarphéðinn Þórisson, menntaskólakennari og líffræðingur, er sá sem mest hefur rannsakað hreindýr á Íslandi. Því er átakanlegt að lesa hina slöppu yfirferð skýrslunnar um hreindýr og komast að því að fyrirtækið hefur ekki leitað til langþekktasta og virtasta sérfræðings okkar á því sviði. Getur verið, herra forseti, að fyrirtækið hafi vitað að umræddur vísindamaður er ákaflega krítískur á þessa framkvæmd? Þarna er alla vega um að ræða mjög alvarlegan galla á skýrslunni.

Eins og fram hefur komið, m.a. í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, þá barst okkur eigi að síður óbirt grein eftir umræddan vísindamann og erlenda kollega hans þar sem fram koma mjög alvarlegar upplýsingar um áhrif virkjunarinnar á hreindýr. Þar kom fram að ef ráðist yrði í að gera Fljótsdalsvirkjun og jafnframt síðar Kárahnúkavirkjun þá yrðu um 50--80% af vorhögum, sumarhögum og hausthögum hreindýra fyrir áhrifum af þessum virkjunum. Talið er að það muni leiða til þess að notkun hreindýrastofnsins á því svæði mundi minnka um 40--95%. Þetta þýðir, herra forseti, að þessar tvær virkjanir, ef saman yrðu virkjaðar, mundu hafa gríðarlega alvarleg áhrif á hreindýrastofninn.

Ég tek þetta dæmi sérstaklega til að sýna fram á að nauðsynlegt er, þegar við erum að ræða þessar framkvæmdir, að ræða ekki eingöngu Fljótsdalsvirkjun þó hún sé sú framkvæmd sem hér er formlega til umræðu. Það er ljóst að með einhverjum hætti þarf að afla frekari orku til þess að standa undir hinu gríðarstóra álveri á Reyðarfirði. Það er langlíklegast að farið verði í Kárahnúkavirkjun og þess vegna hefði verið æskilegt að taka hana undir líka í þessa umræðu og það mat sem jafnvel Alþingi er að reyna að framkvæma af ákaflega veikum burðum. Ef það hefði verið gert hefði komið í ljós að þær virkjanir hefðu ógnað verulega hreindýrastofninum.

Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að frá því að hreindýrin voru flutt til landsins hafa þau átt erfitt uppdráttar. Þau hafa dáið út alls staðar nema á þessum svæðum. Eyjabakkasvæðið og Kringilsárrani eru mikilvægustu svæðin og þangað hafa dýrin leitað og getað hjarað í gegnum erfiðustu kuldatímabil Íslandssögunnar á síðustu öldum. Þetta er með öðrum orðum lífsnauðsynlegt svæði fyrir hreindýrastofninn. Nú kann auðvitað að vera að mögulega sé hægt að verja það að fórna þessum nýjasta þegni í fánu Íslands fyrir virkjun. Ég skal ekki útiloka það þó að ákaflega sé það ósennilegt. Hins vegar er ljóst að það er ekki hægt fyrr en búið er með einhverjum hætti að rannsaka þetta mál. Það er órannsakað enn þá, herra forseti.

Ég gæti, herra forseti, vísað til margra og alvarlegra umsagna sem prófessorarnir Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Eyþór Einarsson veittu umhvn. Ég ætla hins vegar að geyma mér það til síðari ræðna ef af þeim verður. Auk þess hafa ýmsir aðrir sem hér hafa talað á undan mér farið ítarlega í það. Það sem alvarlegast er við þau gögn er að á 3--4 stöðum benda þessir ágætu vísindamenn á alvarlega rangar staðhæfingar, lykilstaðhæfingar í skýrslunni.

Herra forseti. Af því að ég veit að hæstv. umhvrh. er mikil áhugamanneskja um skipulagsmál og ég deili þeim áhuga með henni þá langar mig, síðasta klukkutíma ræðu minnar, að fjalla örlítið um Eyjabakkana í ljósi nýrra skipulagslaga. Ég er þeirrar skoðunar að forusta Landsvirkjunar deili þeim leiða sið með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að nenna ekki að vinna heimavinnuna sína og tel að Landsvirkjun hafi komið sjálfri sér í ákaflega mikinn bobba með því að vantúlka eða kannski frekar að oftúlka fyrri skipulagslög.

Til að vera algerlega heiðarlegur í þessari umræðu, herra forseti, þá tel ég að Landsvirkjun hefði auðveldlega getað komist hjá öllum umræðum um hina formlegu og lagalegu óvissu um virkjunina ef hún hefði farið eftir hæstv. þáv. umhvrh. sem sat 1993--1995 og túlkun hans á skipulagslögum sem þá voru í gildi. Í mínum huga voru Eyjabakkarnir, herra forseti, þegar virkjunarleyfið var gefið út fyrir Fljótsdalsvirkjun árið 1991, ekki á skipulagsskyldu svæði. Með nýjum skipulagslögum sem voru samþykkt 1997 og nýjum sveitarstjórnarlögum frá því árinu síðar var allt hálendið og þar með taldir Eyjabakkarnir orðnir skipulagsskyldir.

Í þeim deilum sem geisað hafa um þetta mál, herra forseti, þá finnst mér að mönnum hafi yfirsést hvaða áhrif þessi nýju lög hafa haft á framvindu málsins og munu gera núna á næstu mánuðum. Ég tel að þeim lögum verði fylgt út í æsar og allir kærumöguleikar sem þar gefast nýttir á hvern veg sem málið fer. Það leiðir til þess að þegar upp verður staðið muni framkvæmdaraðilar virkjunarinnar, ef þeir ná því að ráðast í framkvæmdir, tapa af næsta sumri. Ég held að í krafti þeirra laga sem búið er að samþykkja sé það óhjákvæmilegt. Virkjunarsinnar hafa einfaldlega ekki hugsað þetta mál til enda. Þeir hefðu auðvitað betur gert það. Best hefðu þeir gert með því að fara að þeim skilningi sem umhvrh. frá 1993--1995 hafði á hinum fyrri lögum.

Ég vísa til þess, herra forseti, að í gömlu skipulagslögunum er einungis kveðið á um það að sveitarfélög væru skipulagsskyld. Þágildandi sveitarstjórnarlög skilgreindu hins vegar sveitarfélag þannig að sveitarfélag tæki einungis yfir byggðina í landinu. Hálendið var þess vegna utan sveitarfélaga og Eyjabakkar fyrir ofan hefðbundin staðarmörk sveitarfélaga. Ég tel að þeir hafi ekki verið skipulagsskyldir á þeim tíma og í reynd hafi verið kolrangt hjá Landsvirkjun að óska eftir formlegu leyfi hreppsins á þeim tíma. Þetta er mín skoðun, herra forseti.

Þessi staða gerbreyttist hins vegar þegar menn samþykktu nýju skipulags- og byggingarlögin 1997 og nýju sveitarstjórnarlögin. Í kjölfar þeirra var allt hálendið skipulagsskylt. Það sem mestu skiptir, sem er hlálegt í augum okkar sem börðumst harkalega við sama þingmeirihluta og nú vill keyra þetta mál í gegn, er að þá leiddu nýju sveitarstjórnarlögin eigi að síður til þess að staðarmörk sveitarfélaga eru nú dregin inn að miðju landsins. Það þýðir m.a. að engar framkvæmdir má hefja fyrr en fyrir liggur formlegt leyfi Fljótsdalshrepps og hann hefur gefið út byggingarleyfi fyrir hvers konar byggingum ofan jarðar og neðan. Sömuleiðis þarf hann að veita framkvæmdaleyfi fyrir, eins og segir í lögunum: ,,Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess`` --- en eru hins vegar ekki byggingarleyfisskyldar. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun getur ekki hafið gerð miðlunarlóns við Eyjabakka fyrr en Fljótsdalshreppur hefur gefið framkvæmdaleyfi. Fræðilega gæti hreppurinn því stöðvað þessar framkvæmdir þó að ég telji engar líkur á því, herra forseti.

Ef það gerðist væru ákveðnar leiðir fyrir virkjunarmenn í þeim efnum. Það sem hins vegar skiptir máli er að til að hreppurinn geti gefið út nauðsynleg leyfi þarf að liggja fyrir deiliskipulag fyrir Eyjabakka. Nú er Landsvirkjun sjálf að vinna að gerð deiliskipulags fyrir Eyjabakka. Það kann að virðast undarlegt í augum margra þó fyrir því sé stoð í reglugerð. Ég finn aftur á móti enga stoð í lögum fyrir þeirri reglugerð en ég ætla ekki að gera það að umræðuefni hér.

[21:30]

Þegar Landsvirkjun er búin að ljúka gerð deiliskipulagsins, þá leggur hún það fyrir sveitarstjórn Fljótsdalshrepps sem samþykkir eða hafnar deiliskipulaginu eftir atvikum. Þá gæti Landsvirkjun hins vegar samkvæmt þessum nýju lögum skotið ákvörðun hreppsins til sérstakrar úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál. Ég held að þessi lög hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem vilja hafna því að sú framkvæmd sem við erum að ræða hérna fari í umhverfismat og vísa í tímaskort. Ég get vel skilið að menn telji sig hafa fullan rétt sínum megin sökum undanþáguákvæðisins frá 1993. En ég held að það sé rangt að ekki sé tími til að fara í þetta mat. Þess vegna held ég að það sé fróðlegt að skoða hversu langan tíma mun taka að ljúka þessu deiliskipulagi. Samkvæmt nýju lögunum, herra forseti, er ferlið eftirfarandi:

Þegar sveitarstjórn hefur samþykkt tillögu að deiliskipulagi ber henni að auglýsa það opinberlega og hengja upp til kynningar í fjórar vikur. Síðan er frestur til að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna næstu tvær vikur eftir að kynningu lýkur eða í sex vikur frá auglýsingu. Að honum loknum fjallar skipulagsnefnd sveitarfélagsins um athugasemdirnar og að lokum sveitarstjórnin sjálf. Sú umfjöllun tekur vart minna en tvær vikur. Það er auðvitað alveg ljóst að andstæðingar Fljótsdalsvirkjunar munu gera ákaflega flóknar og viðamiklar athugasemdir við framkvæmdina. Það þarf auðvitað drjúgan tíma til þess að vinna úr þessum athugasemdum og það er ólíklegt annað en að sveitarstjórnin þurfi einhverja sérfræðinga sér til liðsinnis. Ég tel að það sé ákaflega óráðlegt að ætla minna en fjórar vikur til þessa verks. Fari svo að Fljótsdalshreppur geri breytingar á deiliskipulaginu til þess að koma til móts við athugasemdir sem er alls ekki ólíklegt í svona umdeildu máli, þá þarf að senda málið upp á nýtt í ofangreint ferli. Og ef því lyktar með því að sveitarfélagið samþykkir deiliskipulagið, þá er líka alveg ljóst að andstæðingar virkjunarinnar munu nota sér alla möguleika og alla mögulega kærufresti og þeir munu að sjálfsögðu vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar sem ég gat um hér áðan. Hún hefur þá tvo mánuði til þess að skila af sér en getur samt fengið frest í einn mánuð til viðbótar ef, eins og segir í lögunum, málið er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðslan taki lengri tíma. Ég held því, herra forseti, að það taki aldrei minna en 26 vikur að ljúka samþykkt deiliskipulagsins. Og ef það er svo að enn þá, frá þessum degi, séu fjórar vikur í að deiliskipulagið sé fullgert og lagt fyrir sveitarstjórn, þá er alveg ljóst að þó að sveitarstjórnin taki ekki nema tvær vikur undir fyrri umræðuna, þá geta alls liðið átta mánuðir áður en búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir hin umdeildu svæði. Þetta sýnir mér auðvitað, herra forseti, að miðað við það sleifarlag sem hefur verið á öllum undirbúningi af hálfu Landsvirkjunar, þá er alveg ljóst að þeir háu herrar munu tapa af sumrinu til framkvæmda. Og þá má auðvitað spyrja: Ef þeir geta ekki ráðist í framkvæmdir á næsta sumri, er þá ekki tími til þess að leita sátta í þessu máli og fara með það í mat á umhverfisáhrifum? Ég spyr, herra forseti, vegna þess að rökin sem menn hafa einkum fært fram gegn matinu er að það taki of mikinn tíma og að líklegt sé að Norsk Hydro gangi þá úr skaftinu.

Herra forseti. Nýju lögin gera það að verkum að byggingarleyfi þarf fyrir varanlegum húsbyggingum sem verða gerðar í tengslum við virkjunina. Það á við um stöðvarhús, mötuneyti, íbúðarhús og verkstæði og byggingarleyfi verður að vera í samræmi við hið nýja og samþykkta deiliskipulag. Hins vegar er ekki hægt að gera deiliskipulag nema fyrir sé aðalskipulag eða svæðisskipulag og það liggur fyrir samkvæmt skilgreiningu skipulagsstjóra sem enginn hefur mótmælt að tvenns konar deiliskipulag þarf til þess að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir.

Á efra svæðinu vantar deiliskipulag fyrir sjálft lónstæðið og síðan á neðra svæðinu vantar deiliskipulag fyrir byggingarnar. Nú liggur fyrir staðfest svæðisskipulag sem nær yfir þann hluta landsins þar sem lónstæðið er að finna og á grundvelli þess getur Fljótsdalshreppur auglýst deiliskipulagið þannig að þar verða varla vandamál. En varðandi hitt svæðið, neðra svæðið þar sem mannvirkin eru, þá getur Fljótsdalshreppur alls ekki auglýst deiliskipulagið sem þarf þar til að öðlast nauðsynleg leyfi nema með meðmælum hins virta skipulagsstjóra sem hér hefur nokkuð komið til umræðu.

Herra forseti. Með öðrum orðum helgast það af vilja og meðmælum skipulagsstjóra hvort hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í tengslum við Fljótsdalsvirkjun eða ekki og þetta er atriði sem menn hafa ekki gert sér grein fyrir.

Slík meðmæli hafa auðvitað fengist áður frá skipulagsstjóra. En þau eru sjaldgæf. Og það sem skiptir miklu máli, herra forseti, er e.t.v. það sem kemur fram í eftirfarandi orðum skipulagsstjóra sjálfs í umsögn sem hann umbeðinn sendi umhvn. Þar segir, herra forseti:

,,Við framkvæmd skipulags- og byggingarlaga hafa slík meðmæli fyrst og fremst verið veitt fyrir óverulegum framkvæmdum, svo sem stökum húsbyggingum í dreifbýli sem ekki er talin ástæða til að ætla að ágreiningur kunni að rísa um.``

Herra forseti. Skilja menn nákvæmlega hvaða skilaboð felast í þessu? Skipulagsstjóri er að segja að það sé fátítt að hann mæli með slíku deiliskipulagi nema um sé að ræða óverulegar framkvæmdir, stakar húsbyggingar í dreifbýli sem ekki er talin ástæða til að ætla að ágreiningur kunni að rísa um. Herra forseti. Eftir alla þessa umræðu má ætla að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé ekki líkleg til þess að vekja deilur. Ég sé það á greindarlegri höfuðhneigingu hæstv. forseta að hann telur að svo sé ekki þó að mér sé auðvitað að öðru leyti óheimilt að lesa í svipbrigði þess ágæta forseta sem jafnan er manna svipbrigðaríkastur þó.

Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvort einhverjar líkur sé á því að skipulagsstjóri muni líta svo á að enginn ágreiningur sé um þessa framkvæmd. Hann hefur nú átt höfuðleður sitt að verja, sá ágæti maður, síðustu dægur fyrir ásókn hv. þm. Hjálmars Árnasonar og mér sýnist að nægur sé ágreiningurinn um þetta. En hvaða líkur er að finna í umsögn hans sjálfs, herra forseti?

Það vill svo til að í þessari umsögn sem ég hef hér í höndunum er að finna hvorki meira né minna en 11 atriði sem skipulagsstjóri segir að sé áfátt við þá frummatsskýrslu sem hér er til umræðu. Það kemur fram að forsendan fyrir þeirri skoðun skipulagsstjóra er auðvitað það sem kemur fram í aðfaraorðum að skýrslunni, þ.e. að hún sé unnin af Landsvirkjun í samræmi við kröfur þær sem gerðar eru til frummatsskýrslu í lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Með öðrum orðum, vegna þess sem Landsvirkjun sjálf segir í aðfaraorðum þessarar skýrslu þá auðvitað tekur skipulagsstjóri það bókstaflega og beitir sömu aðferðafræði á þessa skýrslu, þ.e. það sem í henni kemur fram, og hann gerir jafnan um aðrar frummatsskýrslur. Og þar kemur fram, herra forseti, að hann telur að það vanti upplýsingar um stærð efnistökusvæða. Skipulagsstjóri telur jafnframt að það vanti upplýsingar um magn efnis sem er áætlað að taka. Hann átelur jafnframt að ekki er greint frá magni efnis sem er gert ráð fyrir að komi úr veituskurðum.

Í fjórða lagi bendir hann á að gert sé ráð fyrir því að setja 1,7 millj. rúmmetra af efni úr jarðgöngum í hauga og hann bendir á að í skýrslunni er ekki fjallað frekar um þessa tilhögun eða umhverfisáhrif þessa gernings. Síðan bendir skipulagsstjóri á að hér sé um að ræða rúmlega tífalt meiri efnistilflutninga en eru matsskyldir samkvæmt 4. tölulið 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem ég veit að þingheimur allur kann utan bókar.

Í fimmta lagi bendir hann á að í skýrslunni er ekki lagt mat á hversu stór rofsvæði geta myndast við strönd hins fyrirhugaða lóns né heldur á hve stórum svæðum sandur getur fokið úr að sumar- og vorlagi í mismunandi árferði. Hann telur að það verði nauðsynlegt að grípa til einhvers konar gagnráðstafana ef það kemur í ljós að uppblástur mun hefjast, en bendir á að hvorki er greint frá því hverjir verði ábyrgir fyrir erftirliti með því eða til hvers konar ráðstafana eigi að grípa.

Í sjötta lagi bendir hann á að umfangsmestu áhrif framkvæmdarinnar verði auðvitað það sem ég hef gert að aðalefni í minni ræðu, þ.e. áhrifin á gróður á sjálfu lónstæðinu og umhverfis það á Eyjabökkum. Og hann bendir á að mat á áhrifum framkvæmdarinnar á gróður byggist á ríflega 20 ára gömlum rannsóknum. Hann bendir síðan á þennan leyndardóm sem ég a.m.k. hef reynt að upplýsa í kvöld og segir að byggt sé á rannsóknum sem gerðar eru árið 1998. En svo segir sá góði maður, með leyfi forseta:

,,En niðurstöður hennar eru ekki meðal fylgiskjala skýrslu Landsvirkjunar og því er ekki unnt að leggja mat á forsendur niðurstöðu skýrslunnar um áhrif á gróður.``

Þetta er auðvitað ákaflega alvarlegur ágalli, herra forseti.

Í áttunda lagi bendir skipulagsstjóri á að framkvæmdin muni hafa í för með sér gríðarmikla skerðingu á votlendi og samkvæmt þeim náttúruverndarlögum sem við samþykktum í fyrra undir lok þings er skylt að mýrar og flóar sem eru yfir þrír hektarar að umfangi eða stærri skuli njóta sérstakrar verndar og á þeim skal forðast röskun eins og kostur er. Skipulagsstjóri bendir á að í ljósi þess og í ljósi stefnu hæstv. umhvrh. varðandi endurheimt votlendis þá hljóti að þurfa að leggja mat á mikilvægi þess votlendis sem tapast og jafnframt hljóti að vera forsenda þess að hægt sé að taka þessa skýrslu góða og gilda að í henni sé að finna áætlun um það hvernig megi endurheimta votlendi til jafns við það sem raskast við framkvæmdina.

Í níunda lagi bendir skipulagsstjóri á að beitarálag á hálendinu norðaustan Vatnajökuls sé við þolmörk og hann segir auðvitað að ekkert mat sé lagt í þessari skýrslu á áhrif hugsanlegs aukins beitarálags á öðrum svæðum ef Eyjabakkalónið, sem er grösug vin í hálendinu, verður að veruleika. En hann telur að það kunni að hafa í för með sér aukið gróðurrof og aukið jarðvegsrof.

Hann bendir í tíunda lagi á þær rannsóknir sem ákaflega gallaðar eru og ófullkomnar varðandi heiðagæsastofninn og ég hef þegar gert grein fyrir og síðan í ellefta lagi gerir hann grein fyrir þýðingu svæðisins fyrir hreindýrin, en segir að það skorti á að gerð sé grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna þeirra fyrirsjáanlegu afleiðinga sem virkjunarframkvæmdir munu hafa á viðkomu hreindýrastofnsins.

Herra forseti. Ég tel þessi ellefu atriði jafnítarlega og raun ber vitni vegna þess að skipulagsstjóri bendir á þau og það er skipulagsstjóri sem verður að veita meðmæli sín með deiliskipulaginu fyrir neðra virkjunarsvæðið þar sem húbyggingar vegna virkjunarframkvæmda þarf að staðfesta til þess að það sé hægt að ráðast í þær. Og ef það er ekki hægt að fá meðmæli skipulagsstjóra, þá einfaldlega ráðast menn ekkert í þær. Svo einfalt er það. Það hefur komið fram, eins og ég hef lesið hérna, herra forseti, að skipulagsstjóri gerir slíkt yfirleitt ekki nema um sé að ræða léttvægar byggingar sem ekki er líklegt að ágreiningur standi um.

Herra forseti. Ég nefndi áðan að það hefði verið betra fyrir Landsvirkjun að hlíta þeim skilningi á gömlu skipulagslögunum sem ég hafði. Ástæðan er sú að þegar menn tala um að lagaóvissa sé um það hvort framkvæmdin falli undir bráðabirgðaákvæði II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum frá 1993, þá hangir það allt á hinni heimskulegu túlkun sem Landsvirkjun lagði í gömlu lögin. Ég hef fyrr í máli mínu fært rök að því að það var auðvitað óþarfi fyrir Landsvirkjun að fara þá leið sem hún kaus. En hún kaus, og gerði það meira að segja skriflega, að túlka lögin þannig að samþykki viðkomandi sveitarfélags væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í framkvæmdina. Ég tel að það hafi verið rangt. En Landsvirkjun hefur sagt að ég hafi haft rangt fyrir mér og þessi skilningur hennar liggur skriflega fyrir. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti það í ágætri ræðu sinni fyrr í dag að eitt það skondnasta sem lesa mætti í þessari skýrslu eða fylgiritunum reyndar væru einmitt hinar sérkennilegu bréfaskriftir milli Landsvirkjunar og sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps sem standa með hléum í, ég held tvö ár, þar sem Landsvirkjun aftur og aftur ítrekar þá ósk sína að sveitarstjórnin veiti formlegt framkvæmdaleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun. En það gerist aldrei, herra forseti. Það eina sem Fljótsdalshreppur veitir leyfi fyrir eru aðkomugöngin þannig að eina formlega framkvæmdaleyfið sem Landsvirkjun hefur haft er fyrir aðkomugöngunum og eins og segir neðst á bls. 6 í greinargerð hæstv. iðnrh., þá er ekkert formlegt framkvæmdaleyfi fyrir þessari framkvæmd. Það skiptir máli þegar við lesum svo saman við ESB-réttinn, herra forseti.

[21:45]

Árið 1985 var gefin út tilskipun af hálfu ESB um að aðildarlönd að þeim samningi skyldu leiða í lög hjá sér sérstaka lagabálka um mat á umhverfisáhrifum. Þetta gerðu Íslendingar eftir að þeir urðu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu með lögunum umdeildu um mat á umhverfisáhrifum frá 1993. Í þessari umdeildu tilskipun kemur hvergi fram að heimilt sé að undanþiggja með nokkrum hætti framkvæmdir, hvort sem þær hafi framkvæmdaleyfi eða ekki. Alls konar óvissa ríkir um réttarfarslega útfærslu þessarar tilskipunar en ESB-dómstóllinn hefur reynt að fylla upp í þá óvissu með nokkrum dómum og þeir hafa auðvitað engir verið með nákvæmlega eins framkvæmd og við erum að ræða hér. En aftur á móti liggur ljóst fyrir að alls staðar þar sem óvissa hefur ríkt um hvort framkvæmd sé orpin undir viðkomandi lög í þeim þjóðlöndum sem tilskipunin varðar hefur niðurstaðan verið sú að ef framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út fyrir lögleiðingu viðkomandi bálks, þá er hún undanþegin.

En það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að hæstv. iðnrh. viðurkennir í greinargerð sinni að ekki liggur fyrir formlegt framkvæmdaleyfi varðandi Fljótsdalsvirkjun og af því leiðir óvissan. Og samkvæmt því, herra forseti, held ég að ekki sé hægt að halda því fram að ljóst sé að Fljótsdalsvirkjun skuli undanþegin mati á umhverfisáhrifum, það er einfaldlega ekki hægt.

Í öðru lagi er líka ljóst að tilskipunin frá 1985 var endurskoðuð fyrir nokkrum missirum og samkvæmt henni bar öllum þeim sem voru orpnir undir viðkomandi tilskipun að endurskoða löggjöf sína og samkvæmt henni áttu Íslendingar að vera búnir að endurskoða lögin um mat á umhverfisáhrifum fyrir 14. mars sl. Og ljóst var samkvæmt hinni nýju útgáfu tilskipunarinnar að Íslendingar hefðu orðið að varpa fyrir róða hinu umdeilda bráðabirgðaákvæði II sem deilur okkar standa um.

Þessi löggjöf er til, herra forseti, það hefur komið fram í umræðu af hálfu hæstv. umhvrh. Hún liggur á borði ríkisstjórnarinnar og ef hún væri orðin að veruleika er ljóst, þrátt fyrir fyrri leyfi og óvissu, að Fljótsdalsvirkjun gæti ekki farið af stað nema að undangengnu mati. Það er því fullkomlega eðlilegt að menn haldi því fram að óvissa ríki í besta falli um þetta tiltekna mál.

Það er annað sem skiptir líka máli í þessu efni, herra forseti, en hefur ekki verið rætt svo ýkja mikið og það er varúðarreglan svokallaða. Varúðarreglan er að vísu ekki leidd í lög á Íslandi en það er hins vegar ljóst að Íslendingar skrifuðu eins og aðrar þjóðir undir yfirlýsingu um það í Rió de Janeiro 1992 að þeir hyggist fylgja þessari reglu. Það er rétt að fram komi að nú eru byrjaðir að ganga dómar í öðrum löndum þar sem öll leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hafa verið fyrir hendi en þar sem Ríó-yfirlýsingin hefur ekki haft sterkari stöðu en hér á landi. Eigi að síður hafa dómarar farið þá leið að beita varúðarreglunni sem réttarheimild í dómsmálum þó hana sé ekki að finna í löggjöf viðkomandi þjóða. Þetta skiptir ákaflega miklu máli vegna þess að með hliðsjón af því hvernig við framkvæmum hinn íslenska rétt þá er sá möguleiki fyrir hendi að íslenskur dómstóll kæmist að sams konar niðurstöðu, þ.e. fellt yrði úr gildi ótímabundið virkjanaleyfi sem hefði verið veitt án undangengins mats á umhverfisáhrifum.

Herra forseti. Ef svo færi að við lentum í dómsmáli út af þessu, þá mundu menn væntanlega líka líta til þess hvernig staðan hefði verið og hver viðhorf hefðu verið hjá þeim mönnum sem gerst vissu hvernig haga skyldi virkjanamálum á þeim tíma sem menn voru að veita leyfi fyrir þeirri virkjun sem við erum að deila um.

Og þá vísa ég til þess, herra forseti, að Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, er líklega einhver helsti og besti talsmaður virkjunarsinna í þessu máli. Hann skrifaði bréf til þáv. iðnrh., dagsett 2. sept. 1991, þar sem hann óskar eftir því að fá stækkanir á ýmsum virkjunum og þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Stofnunin telur að ráðuneytið ætti að taka það upp sem almenna, ófrávíkjanlega reglu að virkjunarleyfi falli sjálfkrafa úr gildi ef fimm ár líða frá því að leyfi er gefið út án þess að framkvæmdir séu hafnar af fullri alvöru að mati ráðherra.``

Með öðrum orðum, herra forseti, sá maður sem var þá í fremstu víglínu í virkjanamálum Íslendinga var þeirrar skoðunar nákvæmlega á þeim tíma sem leyfið var gefið út að slík leyfi ættu einungis að gilda í fimm ár.

Ég vísa líka til nýrrar löggjafar sem óhjákvæmilega mundi koma til álita í slíku dómsmáli. Í núgildandi skipulags- og byggingarlögum er að finna í 27. gr. ákvæði um að framkvæmdaleyfið skuli falla úr gildi eftir tólf mánuði. Þetta varðar auðvitað ekki þá framkvæmd sem við erum að ræða um, herra forseti, en sýnir hins vegar hver vilji löggjafans er gagnvart öðrum framkvæmdum. Ef þetta mál færi í dóm væri óhjákvæmilegt að þetta hlyti að koma til álita.

Jafnframt finnst mér nauðsynlegt, herra forseti, að rifja það upp að virkjunarleyfið, sem stjórnarmeirihlutinn hefur svo kirfilega hengt sinn hatt á, var klárlega gefið út af ákveðnu tilefni, þ.e. álveri á Keilisnesi. Þetta kemur afskaplega skýrt fram í bráðabirgðaákvæði I í lögunum frá 1990 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Takist samningar um að reisa nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar, dags. 13. mars 1990, milli ríkisstjórnarinnar og Atlantal-aðilanna um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver með 200 þús. tonna framleiðslu á ári skal mæta orkuþörf þess með því að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir, sbr. 1. og 2. gr. þessara laga og 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun: 1. Fljótsdalsvirkjun.``

Með öðrum orðum, virkjunarleyfið er háð bráðabirgðaákvæði í lögunum frá 1990 þar sem verið er að heimila ákveðna framkvæmd og Fljótsdalsvirkjun á að verða til þess að afla orku til þeirrar framkvæmdar. Allir vita að sú framkvæmd eða það tiltekna stóriðjuver er fyrir löngu komið út í hafsauga þannig að það veikir líka málið ef til dóms kæmi. Ég tel afskaplega mikilvægt, herra forseti, að menn geri sér grein fyrir að málið er miklu veikara en ríkisstjórnarliðið virðist skilja, ef kemur til kasta dómstóla úti í Evrópu að ákvarða hvort við höfum brotið ESB-réttinn.

Áður en ég lýk við þann kafla af ræðu minni sem fjallar um þá óvissu sem er um hina lögfræðilegu hlið, þá finnst mér rétt að víkja að því að ein af grunnreglunum sem er að finna í yfirlýsingunni sem var samþykkt af þátttökuríkjum Ríó-ráðstefnunnar um umhverfismál frá 1992, varúðarreglan, hefur líka verið tekin upp í íslensku löggjöfina eftir að við urðum aðilar að EES. Í 73. gr. EES-samningsins er fjallað um umhverfismál og sú grein, eins og allar aðrar í kaflanum, hefur lagagildi hér á landi eins og undirstrikað er með lögunum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Í þeirri grein er varúðarreglan undirstrikuð.

Ljóst er að í gegnum aðild okkar að EES höfum við tekið upp varúðarregluna. Þessu hafa menn ekki gert sér grein fyrir en umhvn. var bent á þetta af prófessor í lögum við Háskóla Íslands.

Ég er því þeirrar skoðunar, herra forseti, að eitt af því sem hefði þurft að skoða miklu betur er sú óvissa sem ríkir í kringum hið lagalega umhverfi Fljótsdalsvirkjunar. Ég held að það sé fjarri því að hægt sé að fullyrða með jafnmikilli vissu og mér virðist ýmsir þingmenn stjórnarliðsins gera, að þessi framkvæmd sé undanþegin mati á umhverfisáhrifum þrátt fyrir bráðabirgðaákvæði II í lögunum frá 1992.

Herra forseti. Af því að hér hefur verið rætt mikið um arðsemisþáttinn þá ætla ég ekki að gera hann að umræðuefni hér en geyma hann e.t.v. til seinni ræðu minnar. Það er að lokum eitt sem mig langar þó að nefna varðandi þessi mál. Það er skorturinn á því í skýrslunni um Fljótsdalsvirkjun að menn skuli reifa valkosti. Ég hef rifjað það upp þrisvar sinnum í ræðu minni að í innganginum að skýrslunni um umhverfi og umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar er það ítrekað að tilgangur skýrslunnar sé að vera eins og raunveruleg frummatsskýrsla. Við vitum að í slíkri frummatsskýrslu samkvæmt þeirri reglugerð og lögum sem gilda um mat á umhverfisáhrifum þá ber framkvæmdaraðilanum að reifa ýmsa valkosti. Og það er ljóst að þó að drepið sé á nokkra valkosti þá fylgja engir útreikningar og hvergi er reynt að reifa ítarlega ýmsa möguleika.

Mér finnst t.d. alveg makalaust, vegna þess að þessi deila hefur að verulegu leyti staðið um það hvort þyrma eða farga eigi Eyjabökkum, að menn skuli ekki hafa ítarlega af hálfu stjórnvalda rætt þann möguleika og kannað hann til hlítar sem t.d. hv. þm. Kristján Pálsson reifaði hér mjög stíft á síðasta ári, þ.e. að þyrma Eyjabökkum með því að virkja jökulsárnar á Brú og Fljótsdal saman í Kárahnúkavirkjun þannig að vatnasvið beggja yrði nýtt í lóninu þar. Þá væri hægt að þyrma Eyjabökkum.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, herra forseti, að þar er um að ræða miklu stærri virkjun en Fljótsdalsvirkjun. En ég held hins vegar að stjórnarliðum hefði átt að vera það ljóst að þar hefðu þeir getað séð sér leik á borði vegna þess að umræðan af hálfu andstæðinganna, sérstaklega þeirra sem harðast hafa talað fyrir náttúruverndarsjónarmiðum, snýst aðallega um að þyrma Eyjabökkum. Ég held þess vegna að þeir hefðu a.m.k. átt að reifa þennan möguleika en þeir gera það ekki.

Það er annað sem mér finnst alveg ótrúlegt, herra forseti, og skil ekki hvernig stendur á því að iðnrn. og Landsvirkjun skuli ekki hafa skoðað það betur, fyrst menn eru á annað borð að ráðast í þessa virkjun, en það er Hraunavirkjun sem okkur í umhvn. var kynnt sem valkostur við Fljótsdalsvirkjun. Við óskuðum eftir sérstakri greinargerð um þetta mál, herra forseti, og til þess að forðast misskilning er alveg ljóst að sú virkjun bjargar ekki Eyjabökkum. En við erum að reyna að búa til rafmagn og sem mest af því og með sem minnstum tilkostnaði. Þess vegna rak mig í rogastans þegar ég las í minnisblaði sem við fengum, dags. 2. des. 1999, frá auðlindadeild Orkustofnunar og þar er þessari Hraunavirkjun lýst og kemur fram að raforkuframleiðslan er áætluð miklu meiri en frá Fljótsdalsvirkjun. Þar kemur líka fram að niðurstaðan bendi til þess að orkuverð frá þessari virkjun yrði 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun.

Herra minn trúr, herra forseti, hvað er hér á ferðinni? Fyrst menn ætla sér á annað borð að eyðileggja Eyjabakka hvers vegna í ósköpunum velja þeir ekki þá virkjun sem gefur mesta orku og sem ódýrasta? Mér er þetta hulin ráðgáta, herra forseti, algjörlega hulin ráðgáta. Eina skýringin sem ég get séð er sú að ef menn hefðu farið í þetta hefðu þeir orðið að fara í mat á umhverfisáhrifum.

Með öðrum orðum, við erum að fórna möguleika sem gerir okkur kleift að búa til orku með 20% lægra verði en kemur frá Fljótsdalsvirkjun til þess að skjóta okkur hjá umhverfismati, en eyðileggjum Eyjabakkana með fyrirhugaðri framkvæmd. Þetta eru auðvitað svo svakaleg mistök, herra forseti, af hálfu Landsvirkjunar að ég get varla ógrátandi lokið ræðu minni, vegna þess að það hlýtur auðvitað að vera skylda fyrirtækis af þeim toga að hafa í huga hagsmuni borgaranna ef á annað á að fara í þessa framkvæmd og eyðileggja Eyjabakka. Er þá ekki rétt að menn geri það á þann hátt að þeir fái þá sem mest af orku fyrir fórnina á sem ódýrustu verði?

[22:00]

Herra forseti. Menn hafa verið að deila um þær forsendur sem gefnar hafa verið við arðsemisútreikninga og iðnrh. hæstv. hefur ítrekað komið og sagt að hagfræðingar, Sigurður Jóhannesson og Þorkell Siglaugsson, hafi gefið sé rangar forsendur þegar þeir reikna arðsemi sína og finna út að ekki er fræðilegur möguleiki að þessi framkvæmd, virkjunin sjálf, muni nokkru sinni standa undir sér. Meira að segja einn af virtustu hagfræðingum Háskóla Íslands, sem hefur alltaf haft sérdeilis mikið dálæti á okkur þingmönnum Samfylkingarinnar, Guðmundur Ólafsson, hefur líka reiknað þetta út. Byrjaði sem eindreginn virkjanasinni en komst að þeirri niðurstöðu að þessir sérfræðingar hefðu rétt fyrir sér.

Hæstv. iðnrh. hefur sagt ... (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Það þarf ekkert á ráðherranum að halda, ég gef honum leyfi til þess að vera í burtu. En hæstv. iðnrh. hefur sagt að þessir sérfræðingar hafi gefið sér rangar forsendur um líklega þrennt: Í fyrsta lagi sé rangt hjá þeim að nota 6% vexti, í öðru lagi sé rangt hjá þeim að nota afskriftatíma upp á 40 ár og í þriðja lagi hefur hæstv. ráðherra kvartað undan því að þeir hafi gefið sér rangar forsendur um framleiðslugetu orku og í fjórða lagi hefur hann sagt að orkuverðið sé rangt.

Að því er varðar orkugetu Fljótsdalsvirkjunar er rangt hjá ráðherranum að þeir hafi gefið sér upp þær 1.250 gwst. sem þeir nota í útreikningum sínum. Það voru til skamms tíma þær upplýsingar sem finna mátti á vefsíðu Landsvirkjunar og í riti sem ég hef undir höndum og fékk afhent þegar ég heimsótti stofnunina til að kynna mér þessi mál í sumar.

Þessu var skyndilega breytt og látum það vera, ég tek það gott og gilt, og það er hægt að framleiða þarna 1.390 gwst. í staðinn. En það er ekki hægt að segja að þeir hafi haft rangt fyrir sér. Höfðu þeir rangt fyrir sér um 6% og höfðu þeir rangt fyrir sér um 40 ára afskriftatímann? Hafi þeir haft rangt fyrir sér, herra forseti, þá hefur Orkustofnun líka haft rangt fyrir sér því að hér stendur við útreikning hennar á arðsemi Hraunavirkjunar að gert sé ráð fyrir 40 ára afskriftatíma og 6% ársvöxtum.

Herra forseti. Starfsmenn iðnrn. nota sömu gögn við útreikninga sína og hæstv. iðnrh. segir að sé rangt hjá þeim öðrum óháðu sérfræðingum sem eru að reikna út.

Herra forseti. Svo vill til að við getum núna lagt af deilur um það hvað þarf að fá fyrir þetta rafmagn til að ekki verði tap á Fljótsdalsvirkjun. Í þessu minnisblaði, sem mér er til efs að hæstv. iðnrh. viti að sé til, er sagt frá því að niðurstaðan á útreikningum Orkustofnunar, auðlindadeildar Orkustofnunar, bendi til þess að orkuverð frá Hraunavirkjun yrði 15--20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun og er gefið upp að það verði 20 mill. Þá getur hinn snjalli stærðfræðisnillingur, hv. þm. Kristján Pálsson, bara reiknað út hvert lágmarksverðið er sem auðlindadeild Orkustofnunar telur að þurfi að fá fyrir þetta rafmagn, það eru 24 mill. Getum við þá ekki hætt að deila um hvort þetta er arðsöm virkjun eða ekki? Þetta er nákvæmlega það sem er lágmarksverðið sem við þurfum að fá fyrir rafmagnið.

Herra forseti. Rétt er að það komi fram að á fundi umhvn. sagði maður að nafni Agnar, ég man nú ekki hvers son, sem er verkfræðingur hjá Landsvirkjun að líkast til yrði byrjað með að fá orkuverð í kringum 18--22 mill. Með öðrum orðum, samkvæmt þessum upplýsingum frá auðlindadeild Orkustofnunar, samanborið við þær upplýsingar sem bárust munnlegar inn á fund umhvn. frá Landsvirkjun, er ekki vinnandi vegur að þessi virkjun verði nokkru sinni rekin nema með tapi.